Las fyrir hundinn sinn til að ná tökum á lesblindunni

Sylvia Erla Melsted og hundurinn Oreo.
Sylvia Erla Melsted og hundurinn Oreo. Ljósmynd/Aðsend

Sylvia Erla Melsted gef nýverið út barnabókina Oreo fer í skólann. Hún fjallar um hundinn Oreo sem kemst að því að hann er lesblindur þegar hann byrjar í skóla. Í bókinni er svo fylgst með því hvernig hann lærir inn á lesblinduna og finnur sínar aðferðir með eiganda sínum Víu. Salka gefur bókina út.

Bókina skrifaði Sylvia um hundinn sinn Oreo sem hefur verið hennar stoð og stytta í gegnum árin. Sylvia gaf út heimildamyndina Lesblinda fyrr á þessu ári og naut myndin mikillar athygli. Í myndinni kom einmitt fram hvernig Oreo aðstoðaði Sylviu við að komast í gegnum skólanámið.

„Ég byrjaði á því að gera heimildarmyndina um lesblindu sem heitir Lesblinda sem kom út núna í febrúar á Rúv og var framleidd af Sagafilm. Mig langaði svo að ná til allra aldurshópa og því ákvað ég að gera barnabók fyrir yngstu kynslóðina. Hundurinn minn var minn „partner in crime“ í skóla og náðum við að þróa aðferð saman sem við köllum loppukerfi út frá loppunum hans og er það útskýrt betur í barnabókinni,“ segir Sylvia í viðtali við mbl.is.

Bókin er ætluð börnum á aldrinum 4 til 10 ára og foreldra þeirra til að átta sig betur á því hvort þau glími við lesblindu.

„Mig langaði líka að vekja athygli á lesblindu á skemmtilegan hátt, að lesblinda getur verið skemmtilegt verkefni. Sýna foreldrum að ef barnið er í erfiðleikum með lestur þá skiptir máli að grípa strax inní, aðstoða og finna aðferðir sem henta barninu. Einnig langaði mér að búa til karakter sem krakkar geta litið upp til og ef þau eru að glíma við lesblindu eða eiga í erfiðleikum með lestur að þau geta hugsað ef Oreo gat þetta þá get ég þetta,“ segir Sylvia. 

Oreo hefur verið stoð og stytta Sylviu í gegnum árin.
Oreo hefur verið stoð og stytta Sylviu í gegnum árin. Ljósmynd/Aðsend

Sylvia þróaði sína tækni með Oreo. „Ég las allt fyrir hann og hann hlustaði alltaf glaður og fannst allt skemmtilegt sem ég las. Það góða við hunda er að þeir dæma aldrei. Ástæðan fyrir því að bókin er um hunda og að þeir fari í skóla er sú að ég spurði bara krakka hvað þau vilja lesa um. Hvort þeim finnst skemmtilegara að hafa hund sem aðalpersónu eða krakka og þau völdu hunda,“ segir Sylvia. 

„Þessi bók hefði svarað mörgum spurningum sem móðir minn hafði og útskýrt margt fyrir mér og litla bróður mínum þar sem við erum bæði lesblind. Bókin sýnir að þó þú sért lesblindur þá geturu samt allt sem þú ætlar þér, maður þarf bara að finna sínar aðferð sem henta, leggja á sig og gefast aldrei upp. En þetta er líka falleg saga um vináttu og samkennd, því maður veit aldrei hvað aðrir eru að ganga í gegnum í lífinu.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum Oreos á Instagram, @simplythebestoreo.

Sylvia segir að það besta við hunda séu að þeir …
Sylvia segir að það besta við hunda séu að þeir dæmi aldrei. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert