Danaprins flytur að heiman 15 ára

Kristján prins byrjar í menntaskóla í haust.
Kristján prins byrjar í menntaskóla í haust. Ljósmynd/Danska konungfjölskyldan

Kristján Danaprins hefur nám í nýjum skóla í haust þegar hann byrjar í menntaskóla. Danska konungfjölskyldan tilkynnti á dögunum að Kristján, sem er annar í erfðaröðinni, færi í Herlufsholm-menntaskólann sem er í Næstved, 80 kílómetra suður af Kaupmannahöfn. 

Kristján, sem verður 16 ára í október, neyðist því til þess að flytja að heiman að því er fram kemur á vef Ekstra Bladet en Herlufsholm er heimavistarskóli.

Hefð er fyrir því að meðlimir dönsku konungsfjölskyldunnar fari í heimavistarskóla. Faðir Kristjáns, Friðrik krónprins, og Jóakim föðurbróðir hans gengu í heimavistarskóla í Frakklandi. Margrét Þórhildur Danadrottning fór í heimavistarskóla í Englandi. Frændi Kristjáns, Nikolai prins, gekk einnig í Herlufsholm-menntaskólann á árunum 2014 til 2018. 

mbl.is