Það sem hjálpar mér

Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með …
Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn.

„Undanfarið hef ég átt svo miklu erfiðara með einbeitingu og utanumhald að ég snýst hreinlega í hringi og hleyp um eins og hauslaus hæna eins og ein góð vinkona mín orðaði það. Ég áttaði mig eiginlega ekki á því sjálf fyrr en hún sagði þetta við mig. Jú, ég hafði svo sem upplifað að ég ætti erfiðara með að einbeita mér og hafa stjórn á öllu sem er í gangi í lífi mínu,“ segir Hulda Björk Svansdóttir í sínum nýjasta pistli.

Samt óð ég áfram einhvern veginn og var með alla boltana á lofti en var ekkert að ná að grípa þá. Oft sér maður sig ekki alveg í réttu ljósi og þá er nú gott að eiga góða vini sem geta bent manni á hlutina svo maður átti sig á þeim og geti unnið í þeim.

Ég hafði verið svo dugleg að búa mér til venjur á morgnana sem hjálpaði mér mikið eins og til dæmis að hugleiða á hverjum morgni, fara út og hreyfa mig og skrifa í dagbókina mína en síðustu mánuði hef ég ekkert verið að gera þetta. Ég hugsa að ástæðan fyrir því að allt var komið í rugl hjá mér sé einmitt að ég var hætt að gefa mér þennan tíma. Það er svo skrýtið hvernig maður hættir að sinna sér þegar maður finnst maður vera kominn á góðan stað. Þá fer maður að hugsa jæja, ég er nú bara nokkuð góð núna, það hlýtur að vera í lagi að ég sleppi því aðeins að setja mig í fyrsta sætið. Svona eins og þeir sem hætta að taka þunglyndislyfin því þeim fer að líða betur en átta sig kannski ekki á að ástæðan fyrir því að þeim leið betur var einmitt að þeir tóku lyfin.

Vá, hvað það hefur haft mikil áhrif á mig eftir að ég hætti að vera með þessar venjur á morgnana, ég hefði ekki trúað því. Ég veit ekki hvað hentar öðrum sem lifa við streitu og álag en það sem hjálpar mér er meðal annars að sinna þessum venjum á morgnana. Það að skrifa í dagbókina mína og hugleiða róaði huga minn ótrúlega mikið. Þessar litlu venjur á morgnana voru að gera meira fyrir mig en ég áttaði mig á. Maður þarf virkilega að passa sig að halda alltaf áfram, það er ekki hægt að stoppa bara í sjálfsvinnunni og halda að allt verði í lagi. Ég verð að horfast í augu við raunveruleikann minn sem er að núna á ég langveikt barn og því fylgir streita, þannig er það bara hjá foreldrum langveikra barna. Það er eins gott að hugsa vel um sig ef maður ætlar að komast heill í gegnum þetta allt saman. 

Ég veit ég þarf að fara að hugsa miklu betur um mig líkamlega líka. Ég hef notað mat mikið sem huggun og þar af leiðandi bætt á mig síðustu ár. Ég er farin að finna mikið fyrir því og veit ég þarf að fara að gera eitthvað í því ef ég ætla að halda heilsunni. Ég hef talað við aðra foreldra langveikra barna sem eru farnir að þjást af alls konar heilsufarskvillum vegna álags og streitu og ég vil alls ekki lenda í því. Ég verð því að halda áfram að setja mig í fyrsta sætið og sinna mér því eins og við vitum þá þarf maður að setja grímuna á sig fyrst ef maður ætlar að geta hjálpað öðrum. Núna er ég því komin af stað aftur með morgunvenjurnar og farin að setja mér lítil markmið sem ég veit að ég get staðið við. Einhvers staðar verður maður að byrja og ég er svo glöð að hafa áttað mig á þessu og líka bara að eiga góða vini sem standa þétt við bakið á mér og bera hag minn nógu mikið fyrir brjósti til að benda mér á þegar ég þarf að passa mig. 

Ég get ekki sagt hvað hjálpar öðrum en fyrir mig virkar alla vega ótrúlega vel að vera með þessa morgunrútínu og halda mig við hana. Mig langaði því að deila þessu í þeirri von að það hjálpi kannski einhverjum öðrum þarna úti en auðvitað þurfum við öll að finna okkar leið varðandi hvað hjálpar okkur í lífinu. Eitt þurfum við þó öll að muna alltaf og það er að hugsa vel um okkur sjálf, það gerir það víst enginn annar fyrir okkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert