Ætla sér allar að verða góðar mæður

Elísabet Ósk Vigfúsdótir ljósmóðir er forsprokki fagfólks sem stendur fyrir …
Elísabet Ósk Vigfúsdótir ljósmóðir er forsprokki fagfólks sem stendur fyrir nýju úrræði fyrir óléttar konur með fíknivanda. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elísabet Ósk Vigfúsdóttir ljósmóðir brennur fyrir að hjálpa konum með geð- og/eða fíknivanda og börnum þeirra. Hún segir engin almennileg úrræði í boði fyrir þennan falda hóp. Eftir langa bið eftir úrræði tók hún málin í eigin hendur og stofnaði Urðarbrunn. Þar verður boðið upp á heildræna og fyrirbyggjandi meðferð fyrir fjölskyldur. 

Elísabet hefur starfað á göngudeild mæðraverndar á Landspítalanum síðan árið 2015 og sérhæfir sig í meðgöngueftirliti kvenna sem eiga við geð- og fíknivanda að stríða. Hún segir að skjólstæðingum sínum og samstarfsmanna sinna hafi fjölgað skyndilega árið 2017. Síðan þá hefur fjöldi kvenna staðið í stað en málin eru orðin þyngri, neyslan verri og félagsleg staða erfiðari. 

Þrátt fyrir teymið á Landspítalanum þurfa konurnar oft og tíðum á sólarhringsþjónustu að halda eins og stefnt er að með Urðarbrunni. Elísabet bendir á að konur í vímuefnavanda verða óléttar eins og aðrar konur. „Þær eru jafnvel útsettari fyrir óvörðu kynlífi vegna þess að þær eru oft að selja þjónustu sína eða eru misnotaðar á einn eða annan hátt.“

Konurnar eiga oft í engin hús að venda. „Þær eru annaðhvort á götunni eða inni á vinum og vandamönnum. Einhverjar eru í úrræði á vegum barnaverndar, jafnvel á hótelherbergjum sem eru keypt fyrir þær. Það er úrræði uppi í Skipholti fyrir konur sem eiga ekki athvarf. Ég veit að einhverjar eru þar.“

Elísabet segir nokkrar óléttar konur vera á götunni.
Elísabet segir nokkrar óléttar konur vera á götunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilja standa sig

„Ég hef aldrei hitt konu sem kemur til mín og ætlar sig ekki að standa sig. Þær ætla sér allar að vera góðar mæður en hvort þær hins vegar hafi stuðninginn og þar af leiðandi getuna til þess er svo annar handleggur. Oft og tíðum eru þær búnar að brjóta allt að baki sér þannig að þær hafa ekki stuðning fjölskyldu sinnar eða stuðningur fjölskyldunnar hefur aldrei verið til staðar fyrir þær. Þetta er svona kynslóðatilfærsla sem við sjáum augljóslega.“

Í starfi sem ljósmóðir hefur Elísabet kynnst konum sem eru að koma í annað eða þriðja skipti og hafa misst frá sér börn aftur og aftur. Með kynslóðatilfærslu á hún við að vandinn erfist. Amman átti kannski við áfengisvanda að stríða, mamman á við vímuefnavanda að stríða og í dag eru dæturnar að koma í áhættumæðraverndina. Þetta munstur þarf að brjóta að sögn Elísabetar þannig að nýfætt barnið fái tækifæri til að lifa góðu lífi. 

Úrræðaleysið hefur hins vegar gert mörgum konum og börnum þeirra erfitt fyrir. „Einni konu hafði tekist vel að vera edrú. Var inni á Krísuvík hálfa meðgönguna. Svo kom hún út og þá tók ekkert við,“ segir Elísabet. Í þessu tilfelli hefði heimili eins og Urðarbrunnur komið sér vel. Þar hefði konan fengið samastað og hjálp frá ljósmóður og öðrum fagmenntuðum manneskjum á meðgöngunni og með barnið nýfætt. Einnig verður unnið með rót vandans með áfallamiðaðri meðferð ásamt skaðaminnkandi inngripi.

„Þetta eru þau mál þar sem barnavernd telur að konur þurfi sérstakt aðhald. Þetta yrði alltaf að beiðni barnaverndar og samvinna við barnavernd. Urðarbrunnur gæti stutt við þessar konur og veitt þeim öruggt skjól. Kennt þeim hvernig heimilislíf virkar. Annaðhvort hafa þær ekki upplifað það sjálfar eða eru orðnar svo brotnar að þær þurfa að byrja upp á nýtt,“ segir Elísabet. 

Tóm íbúð bíður

Urðarbrunnur er kominn með húsnæði í venjulegri blokk í Hafnarfirði þar sem stutt er í alla þjónustu. Eins og er stendur hins vegar íbúðin tóm og bíður eftir fjölskyldum. Elísabet vonast til þess að gera þjónustusamninga við sveitarfélögin og fá stuðning ríkisstjórnarinnar. Hún bindur sérstaklega miklar vonir við að Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra taki vel í hugmyndina. Búið er að kynna verkefnið fyrir stöku starfsmönnum barnaverndar sem hoppuðu hæð sína af gleði yfir því að loksins væri að verða til úrræði fyrir þennan hóp. Elísabet segir að starfsfólkið sé háð fjárhæðum sem nefndin fær úthlutað og því í skoðun hvort þær geti nýtt sér úrræðið.

Hingað til hefur allt verið gert í sjálfboðavinnu. Elísabet brennur það mikið fyrir verkefnið að hún og bróðir hennar vörðu sparifé sínu í útlagðan kostnað eins og leiguna og allt það sem fylgir því að stofna heimili frá a til ö. 

Elísabet og bróðir hennar fjármögnuðu íbúðina og innbú fyrir nýja …
Elísabet og bróðir hennar fjármögnuðu íbúðina og innbú fyrir nýja heimilið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elísabet kynntist svipuðu úrræði í Danmörku og kemur hugmyndin þaðan. Hún veit því að þjónusta sem þessi virkar og skilar sér margfalt til baka út í samfélagið til lengdar. Hún varð hissa þegar hún fór að starfa með konum í þessari stöðu á Íslandi að úrræðið væri ekki til.

„Við höfum talað um þetta ár eftir ár; af hverju það sé ekki til svona úrræði. Þetta var ekki endilega neitt sem ég ætlaði mér þótt ég hefði hugmyndina. Það er ekki endalaust hægt að bíða eftir að einhver annar geri hlutina. Ég hef áhuga þessu. Ég veit að þetta er áhrifaríkt,“ segir Elísabet sem ákvað að kýla á verkefnið. 

„Við sjáum fyrir okkur að vera með sólarhringsþjónustu á þessu heimili, stuðning, þjálfun, kennslu og eftirfylgni. Þannig að það sé verið að passa upp á að barnið verði ekki fyrir vanrækslu, það sé passað upp á að barnið sé í heilbrigðu umhverfi allt frá meðgöngunni og fyrsta árið ef þess þarf. Hjálpa móðurinni með barnið ef hún þarf til dæmis að fara á AA-fundi. Hjálpa henni að halda utan um allt sem þarf. Mæðraskoðanir, læknisskoðanir, fara með barnið í ungbarnavernd og allt slíkt.“

Ætla að koma í veg fyrir að barnið þurfi vistun

Konur sem gætu nýtt sér þessa þjónustu í framtíðinni eru meðal annars konur sem hafa verið á áfangaheimilum og standa sig vel í edrúmennsku. „Þær geta ekki verið með börn á áfangaheimili. Ég veit um eina sem endaði á að fara á sófann heim til föður síns með nýfædda barnið sitt. Þetta er faðir sem hún ólst upp hjá í vanrækslu. Hún var edrú og stóð sig vel þannig að það var ekki ástæða til þess að taka af henni barnið,“ segir Elísabet.

„Ég hef líka upplifað það að stúlkur hafi ekki haft möguleika á að fara með barnið sitt heim. Eða farið inn á vistheimili barna. Þeir eru með eina íbúð í kjallaranum hjá sér. Þar er barnið vistað, þá er barnið komið í vistum. Við ætlum að koma í veg fyrir að barnið þurfi að fara í vistun. Það er líka úrræði sem er bara fyrir Reykjavík. Ég veit að Kópavogur er með  úrræði sem er einhvers konar vistheimili. Annars er þetta bara ekki til.

Satt að segja hef ég verið með stúlku hjá mér sem þurfti sólarhringsþjónustu. Það úrræði var ekki til og hún var send á unglingaheimili uppi í Hraunbergi. Ímyndaðu þér niðurlæginguna fyrir móður. Þetta var ekki unglingur. Það voru yngri konur en hún að hugsa um hana sem höfðu ekki eignast börn sjálfar. Þessi stelpa fékk ekkert tækifæri og barnið tekið af henni við fæðingu enda fékk hún ekki aðhaldið á meðgöngunni til þess að sanna sig.“

Elísabet efast ekki um að úrræði eins og Urðarbrunnur hefði getað komið í veg fyrri að þessi börn færu í varanlegt fóstur. Hún getur ekki útilokað að það hefði komið fyrir síðar meir. Mæður hefðu að minnsta kosti fengið tækifæri til sanna sig og mynda tengsl en Elísabet segir að fyrstu þúsund dagarnir í lífi barna séu gríðarlega mikilvægir.

Eins og staðan er í dag veit Elísabet um þrjár óléttar konur sem eru á götunni. „Ein þeirra fór inn á fíknigeðdeild í afeitrun af því hana langar að ganga með barnið sitt, hana langar að verða góð mamma. Eina úrræðið sem Barnavernd Reykjavíkur hafði fyrir hana var hótelherbergi. Þú getur rétt svo ímyndað þér hvað hún entist lengi inni á hótelherbergi að horfa út um gluggann,“ segir Elísabet sem óskar þess að geta tekið við þessum konum í Urðarbrunni sem fyrst. 

Í myndskeiðinu hér að neðan má kynna sér úrræðið enn betur. Á heimasíðu Urðarbrunns er hægt að nálgast upplýsingar um hvernig er hægt að styrkja verkefnið. 

mbl.is