Gat ekki haldið brjóstagjöfinni áfram og grét

Desi Perkins.
Desi Perkins. Skjáskot/Instagram

Samfélagsmiðlastjarnan Desi Perkins þurfti að hætta með son sinn Ocean á brjósti þegar hann var nokkurra vikna gamall. Hún segir að þegar læknirinn hafi sagt henni að hún yrði að hætta með hann á brjósti og gefa pela hafi hún hágrátið og fundist hún hafa brugðist honum. 

Perkins og eiginmaður hennar Steven eignuðust sitt fyrsta barn í október á síðasta ári. Hún greindi fylgjendum sínum frá því að núna væri drengurinn litli farinn að drekka úr pela. 

„Ég þurfti að fara að gefa honum mjólkurblöndu af því ég framleiddi ekki nógu mikla mjólk, og það er svo mikil áskorun andlega,“ sagði Perkins í viðtali við People.

„Ég var svo sorgmædd. Ég man eftir að hafa grátið inni hjá lækninum þegar hann sagði mér að hann væri farinn að tapa þyngd, ég bara dó. Ég man eftir því að hafa hugsað að ég væri að fara að gráta og skammaðist mín fyrir það. Það var erfitt að vita að ég þyrfti að gera það af því mig langaði alltaf að gefa honum brjóst. En síðan fór hann að þyngjast aftur og ég hugsaði með mér að það væri það sem skipti máli. Heilsan og hamingjan,“ sagði Perkins.

mbl.is