Erfitt að ímynda sér líf án fleiri barna

Chrissy Teigen og John Legend misstu ófætt barn sitt fyrir …
Chrissy Teigen og John Legend misstu ófætt barn sitt fyrir stuttu. AFP

Chrissy Teigen segist enn langa í börn þrátt fyrir að hafa upplifað sáran missi við síðustu meðgöngu. Hún opnar sig um foreldrahlutverkið í nýlegu viðtali við People.

„Lífið sem við áttum áður en börnin komu til sögunnar var frábært en nú er það ótrúlegt. Það er svo mikið líf og mikil gleði á heimilinu,“ segir Teigen.

„Ég hélt að ég vissi allt um John en svo eignuðumst við börnin. Að sjá hann hugsa um þau er fallegt. Að sjá manninn minn verða að föður er virkilega yndislegt.

Ég er opin og frjáls og elska að leyfa börnum að vera börn. Þá er góðmennska líka stórt atriði fyrir okkur. Börnin okkar eru mjög hlý og vinaleg. Maður reynir að efla þá þætti í fari þeirra en leyfa þeim líka að vera skapandi og forvitin.

Mamma mín sagði mér aldrei til heldur leyfði mér að læra af reynslunni. Til dæmis að mála augabrýr með tússpenna! Maður leyfir börnum að prófa sig áfram og finna ástríðurnar í lífinu. Ég vona að börnin vaxi úr grasi og komi til okkar í mat á hverjum sunnudegi. Ég verð svo ánægð að sjá alla fjölskylduna saman í kringum matarborðið.“

Teigen segir að hún hugsi mikið til sonarins sem lést. „Það er hefð hjá okkur Taílendingum að minnast þeirra sem eru farnir. Þeir eru aldrei farnir heldur alltaf hjá okkur. Við erum að byggja nýtt heimili og þar verður tré til minningar um Jack. Ég vildi fá þetta tré til þess að aska Jacks gæti verið þar og alltaf verið hluti af okkar fjölskyldu. Hann var raunverulegur og við elskuðum hann.“

Teigen segir að þau hafi fengið mikinn stuðning. „Þetta var mjög erfiður tími fyrir mig og John en líka fallegur þar sem við sigruðumst á mikilli sorg og horfum enn hvort á annað með mikilli ást, meiri en við hefðum getað ímyndað okkur. Öll sú ást sem við gáfum hvort öðru fyrir tíu árum hefur margfaldast.“

Aðspurð um frekari barneignir segir hún aldrei að vita. „Ég get ekki ímyndað mér líf án barnanna og get ekki ímyndað mér líf án fleiri barna. Sjáum bara til.“

Árið 2017 sagði Teigen að þau ættu einn fósturvísi eftir frjósemismeðferð. Fósturvísirinn var barnið Jack sem lést.

mbl.is