Fær Elísabet nöfnu í Bandaríkjunum?

Svo gæti farið að Elísabet II Bretlandsdrottning fái litla nöfnu …
Svo gæti farið að Elísabet II Bretlandsdrottning fái litla nöfnu í Bandaríkjunum. TOLGA AKMEN

Áhugafólk um bresku konungsfjölskylduna telur nú líklegt að Harry Bretaprins og eiginkona hans Meghan hertogaynja af Sussex muni nefna ófædda dóttur sína Lily, eða Lilju á íslensku. 

Nafnið væri í höfuðið á ömmu Harrys, Elísabetu II Bretlandsdrottningu, en hún var kölluð Lilibet þegar hún var ung og Filippus prins kallaði hana það einnig. Nafnið virðist vera konungsfjölskyldunni mjög kært en Elísabet skrifaði Lilibet undir sína hinstu kveðju til móður sinnar árið 2002.

Margir telja hana einnig hafa skrifað nafnið undir sína hinstu kveðju til Filippusar en það hefur ekki verið staðfest. Liljur voru áberandi í vendinum sem skreytti kistu Filippusar.

Nafnið Lilja fór að klifra upp listana í veðbönkum undir lok helgarinnar en Filippus prins var borinn til grafar á laugardag. 

Það má eflaust rekja til þess að aðdáendur eru nú handvissir um að sátt sé komin á í höllinni, í það minnsta á milli Harrys og drottningarinnar. 

Flestir veðja þó á að Harry og Meghan muni heiðra minningu móður Harrys, Díönu prinsessu, og er nafnið langefst í öllum veðbönkum um þessar mundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert