Arnar hætti aldrei að leika sér

Arnar Dan Kristjánsson ásamt unnustu, Sigríði Soffíu Haflíðadóttur og sonum …
Arnar Dan Kristjánsson ásamt unnustu, Sigríði Soffíu Haflíðadóttur og sonum þeirra tveimur. Fjölskyldan er dugleg að finna upp á nýjum leikjum. Ljósmynd/Aðsend

Hvað í pabbanum ert þú að gera? eru 190 leikir sem Arnar Dan Kristjánsson leikari bjó til. Arnar er mjög virkur og sá fljótt að það hentaði honum ekki að sitja við tölvuna þegar leikhúsin lokuðu í kórónuveirufaraldrinum. Hann elskar að leika við strákana sína sem eru þriggja og fimm ára og leggur mikið upp úr því að virkja sköpunarkraft allrar fjölskyldunnar með skemmtilegum leikjum fjarri skjá og plastleikföngum.

„Hvað í pabbanum á ég að gera?“ var spurning sem Arnar velti fyrir sér þegar hann varð faðir. „Hvernig get ég verið sem mest til staðar og komið þessari manneskju til manns? Ég er virkur og hress og mig langar að tengjast strákunum mínum í gegnum það. Ég trúi á augnsambandið, ég trúi á samveru í rými og það að leysa verkefni.

Ég byrjaði bara að föndra leiki með strákunum,“ segir Arnar sem safnar nú fyrir framleiðslu á leikjaúrvalinu á Karolinafund. Spilið er eins konar leiðarvísir til þess að opna augu fólks. Hann segir börn ekki þurfa fleiri plastleikföng og Hvolpasveitarbíla því það sé ekkert mál fyrir þau að búa til fullkomið geimskip með tveimur skeiðum. 

Leiddist skrifin

„Það kom heimsfaraldur og ég missti vinnuna í Borgarleikhúsinu. Þá byrjaði ég að skrifa einhverja þáttaseríu. Ég var bara einn með sjálfum mér og hugsaði mikið djöfull er þetta leiðinlegt. Djöfull er þetta ógeðslega leiðinlegt að sitja hér og ímynda mér einhvern heim og skrifa og skrifa. Það hentar sumum en hentaði mér ekki á þessum tímapunkti,“ segir Arnar sem langaði að horfa í augun á strákunum sínum og leika við þá.

„Það er svo nærandi. Ég er alltaf endurnærður eftir góða leikstund. Einn leikur getur verið fjórar mínútur en sá næsti tveir tímar. Það er mismunandi hversu lengi þeir halda athygli.“

Æfingaferlið er ekki síst það sem heillar Arnar í leikhúsinu en að vissu leyti má líkja því við leik barnsins. Á æfingum fá leikararnir tækifæri til þess að gera tilraunir og stíga inn í óttann. „Börn búa yfir þessu. Það er þessi forvitni sem leiðir þau áfram þar sem þau dæma ekki. Allt getur verið leikur. Allt er rannsakað út frá forvitni og leikgleðinni,“ segir Arnar sem hefur reynt að tileinka sér þetta viðhorf á fullorðinsárum.

„Fyrir mér er einn leikur eins og lífið. Það er ákveðið regluverk sem þú verður að spila eftir og þú verður að gera þitt besta. Annaðhvort tapar þú eða vinnur, þú verður að takast á við ósigrana og sigurstundirnar, þær eru jafn mikilvægar. Ég kynnist strákunum í gegnum þessi regluverk sem ég legg fyrir þá og þeir kenna mér á sama tíma. Við gleymum því svo fljótt sem fullorðnar manneskjur að leika okkur.“

Að leika sér með strákunum er eins og að hlaða …
Að leika sér með strákunum er eins og að hlaða batteríin. Ljósmynd/Aðsend

Hleður batteríin með því að eyða orku

Arnar leikur sér markvisst bæði með börnunum sínum en líka einn. Hann hvetur fólk til þess að prófa eitthvað nýtt og hreyfa sig, hver veit hvað gerist á morgun? Oftar en ekki snýst hreyfing á fullorðinsárum um að virkja vöðva í stað þess að veita gleði.

 „Við erum svo föst í að fara í ræktina til þess að byggja upp einverja vöðvahópa í staðinn fyrir að gleyma okkur og njóta þess að vera á lífi og rannsaka. Fara í aftur á bak heljarstökk eða flikk af því þú gætir einn daginn ekki gert það. Ég skil ekki af hverju við hættum að leika okkur,“ segir Arnar sem býr sér til verkefni til þess að hlaða batteríin.

Fyrir sex árurm varð ákveðinn viðsnúningur í lífi Arnars en þá byrjaði hann að kynna sér hugmyndafræði Ido Portal. Hugmyndafræðin snýst um að prufa allt í staðinn fyrir að einbeita sér að einni hreyfingu. „Ef ég er ekki brosandi, ef mér finnst þetta ekki gaman læri ég eitthvað af því. Þá veit ég það núna, ég hef prufað það,“ segir Arnar.

Skjárinn þarf ekki að vera fyrsta val

Arnar segir ótrúlega mikið aðgengi að alls konar afþreyingu í gegnum síma, sjónvörp og tölvur í dag. „Við þurfum að finna leið til þess að draga börnin til okkar og gera eitthvað saman. Ég ætla ekki að nota sjónvarpið sem barnapíu vegna þess að ég þarf hvíld þegar ég kem þreyttur heim úr vinnunni. Mig langar að eiga tíma með barninu mínu. Ég ætla að gefa mér 20 mínútur í leik og sjá hvað það gefur mér. Og hvað gerist? Þetta er eins og að fara í ræktina þreyttur. Þú ert ekki jafnþreyttur eftir ræktina. Þú ferð inn í leikinn, gefur þig á vald leiksins og ert endurnærður og hlaðinn, það er ótrúlegt,“ segir Arnar.

Arnar og fjölskylda.
Arnar og fjölskylda. Ljósmynd/Aðsend

Arnar segir fjölskylduna þó horfa á sjónvarp eins og annað fólk. „Það er enginn skömm í því að horfa á sjónvarpið. Mér finnst það hvimleitt þegar þetta er orðin fyrsta tilhneiging í öllum aðstæðum að sækja í skjáinn,“ segir Arnar og segir fólk fara þannig á mis við mannleg samskipti. Hann bendir einnig á að það sé hollt að láta sér leiðast, líða illa og finna til frumtilfinninga í stað þess að flýja í afþreyingu.

Þurfa veggirnir að vera hreinir?

Verkefnin í leikjastokki Arnars eru einföld í grunninn en Arnar er þó búinn að skreyta leikina ákveðnum þrautum. Sem dæmi má nefna að leikurinn Hvað er undir ísskápnum? snýst ekki bara um að kíkja undir ísskáp heldur þurfa allir á heimilinu að fara úr sokkunum og hlaupa hring í kringum húsið ef eitthvað finnst undir ísskápnum.

Að borða fljótandi epli er annar leikur en hann gengur út á að setja epli í baðkarið og borða eplið án þess að nota hendur. Klósettpappírsstríð með regnhlífum er annar leikur og enn annar skóhornabolti. 

Blaðamaður bendir á að margt sem felst í leikjum Arnars er almennt bannað eða eitthvað sem ekki er ætlast til þess að börn geri. Arnar vitnar þá í hugmyndafræði Ido Portal sem spurði af hverju veggirnir þyrftu að vera hreinir. „Af hverju mega ekki vera sokkaför á veggjunum?“ segir Arnar. 

Arnar segir að það þurfi aðeins þrjá hluti inn á heimilið. Teygjur, einn borðtennisbolta og málningarlímband. Þar með eru tryllitækin upptalin. Vatn, klósettrúllur, handklæði, skóhorn, eyrnapinnar koma líka að góðum notum en þetta eru allt hlutir sem eru til á flestum heimilum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert