Fyrsti drengurinn í 42 ár

Helga Reynisdóttir ljósmóðir á von á sínu öðru barni.
Helga Reynisdóttir ljósmóðir á von á sínu öðru barni. Ljósmynd/Svava Björnsdóttir

Helga Reynisdóttir ljósmóðir á von á sínu þriðja barni með eiginmanni sínum Birni Inga Vilhjálmssyni í sumar. Helga gengur með dreng en fyrir eiga hjónin tvær dætur. Helga segir smitandi að vinna á fæðingardeild þar sem hún er umkringd litlum börnum og fjölskyldum þeirra.

„Það er mik­il spenna í fjöl­skyld­unni, en þetta er fyrsti dreng­ur­inn í fjöl­skyld­unni mín meg­in í 42 ár! Hann verður hepp­inn, á eft­ir að eiga þrjár mömm­ur en stelp­urn­ar eru byrjaðar að plana verka­skipti í upp­eld­inu, ætla fá að hafa hann uppi í hjá sér eða það halda þær.

Við hjónin höfum verið fram og til baka með þetta en þegar við vorum búin að ákveða þetta var mikil spenna hjá okkur. Stelpurnar okkar hafa fengið magakveisu, sú eldri var töluvert verri, og ég grínast með það að það taki okkur greinilega fimm ár að gleyma því hversu mikið álag fylgir því fyrstu mánuðina,“ segir Helga þegar hún er spurð hvort þau hafi alltaf ætlað sér að eignast þrjú börn. „Svo er stórhættulegt að vinna á fæðingardeild, vera umvafin þessum fallegu litlu börnum og fjölskyldum þeirra. Það kveikir óneitanlega á þránni eftir öðru barni. Við eigum bæði tvö systkini svo að lillinn okkar verður fullkomin og kærkomin viðbót við fjölskylduna.“

Munur að vera ólétt 27 ára og 38 ára

Hvernig er að eiga von á sínu þriðja barni og á leiðinni í þriðju fæðinguna?

„Þetta er bara dásamlegt, maður er svo heppinn að geta bara gert þetta, búið til heilbrigt barn, þótt það hafi tekið smá tíma. Mér líður samt dásamlega, greindist með meðgöngusykursýki í byrjun meðgöngunnar en það hefur verið í fínu lagi hingað til. Ég bæði hlakka til og kvíði fæðingunni, mér gengur mjög vel að fæða en maður væri eitthvað skrýtinn ef maður kviði ekki sársaukanum.“

Helga Reynisdóttir gengur með dreng.
Helga Reynisdóttir gengur með dreng. Ljósmynd/Svava Björnsdóttir

Finnur þú mun á þér núna og á hinum meðgöngunum?

„Ég finn alveg að það er munur á að vera ófrísk 27 ára og 38 ára. Ég er ekki alveg eins orkumikil og ég var þarna fyrir 11 árum. Ég er með töluvert stærra heimili nú en þá en ég er að reyna að vera dugleg að fara út og gera eitthvað skemmtilegt með stelpunum okkar á þessum skrýtnu tímum. Ég fann líka í byrjun fyrir hræðslu á að smitast af Covid en þáði bólusetningu snemma á meðgöngunni og gat andað léttar eftir það. Ég hef alltaf fundið til í grindinni á meðgöngunum mínum en er búin að vera mjög góð núna, enda byrjaði ég strax á að vera meðvituð um líkamsstöðu og hreyfi mig.“

Hvernig er að vera ljósmóðir og eiga von á barni?

„Mér finnst ég bæði vera slakari og stressaðri á sama tíma með mína þekkingu og reynslu, hormónin í botni og hugurinn getur farið á flug eins og hjá öllum konum sem eiga von á barni. Ég fann það til dæmis í fæðingunni minni að dóttir mín var að koma skakkt niður og horfði á klukkuna og vissi að þetta var orðinn óþarflega langur tími fyrir rembing hjá fjölbyrju en að flestu leyti er ég alveg slök. Hefði helst viljað fæða hérna heima í heita pottinum mínum en þarf að fara „heim“ í vinnuna og fæða þar vegna meðgöngusykursýkinnar.“

Hvað gerir þú til þess að láta þér líða vel á meðgöngunni?

„Ég hef verið í ræktinni allan tímann hjá henni Sigrúnu í Kvennastyrk, það gerir mikið fyrir mig og ég finn að ég næ að halda niðri grindarverkjum með hreyfingu og sjúkraþjálfun. Ég reyni svo að borða hollt og hreint og sinna vel hjónabandinu mínu, fjölskyldu og vinum.“

Segja má að meðgöngur og fæðingar eru daglegt brauð í …
Segja má að meðgöngur og fæðingar eru daglegt brauð í lífi Helgu Reynisdóttur. Ljósmynd/Svava Björnsdóttir

Ánægð með bólusetninguna

Sem ljósmóðir var Helga í forgangshópi í bólusetningu. Hún þáði bólusetninguna þrátt fyrir að ganga með barn.

„Ég fékk sms einn eftirmiðdag um að ég ætti að mæta morguninn eftir. Ég hafði lesið mér töluvert til um efnið en við tók maraþonlestur þar sem ég skoðaði hvernig bólusetning hefði áhrif á sameindastigi og velti fyrir mér öllum kostum og göllum, ræddi við fagfólk, og við maðurinn minn ákváðum að lokum í sameiningu að ávinningurinn vægi þyngra en áhættan og ég þáði bólusetningu. Hef sjaldan verið eins ánægð með ákvörðun í lífinu mínu og hlakka til fæðingarorlofsins.“

Auk þess að starfa á Landspítalanum hefur Helga staðið fyrir fæðingarfræðslunámskeiðum í Kvennastyrk í Hafnarfiði.

„Áhugi minn á öllu sem tengist meðgöngu, fæðingu, uppeldi, brjóstagjöf og fjölskyldulífinu hefur bara aukist með tilkomu bumba litla. Mér finnst bara gaman að vera með fræðsluna og gaman að vera í sömu sporum og fjölskyldurnar sem ég er að fræða. Ég hef ekki þörf fyrir að sitja sjálf svona námskeið enda fæðingar og allt sem þeim tengist daglegt brauð hjá mér. Ég er þó búin að biðja bestu vinkonu mína sem er ljósmóðir um að vera með mér í fæðingunni, en það er dásamlegt að vera með ljósmóður sem þekkir mann inn að beini í fæðingunni.“

Helga svar­ar einnig spurn­ing­um les­enda mbl.is um allt sem teng­ist meðgöngu og fæðingu. Sendu spurn­ingu HÉR.

mbl.is