Ólétt og leggur spaðann á hilluna

Barbora Strycova ætlar að spila einn leik eftir að hún …
Barbora Strycova ætlar að spila einn leik eftir að hún eignast barn sitt og leggja svo spaðann á hilluna. Skjáskot/Instagram

Tékkneska tennisstjarnan Barbora Strycova ætlar að leggja tennisspaðann á hilluna fljótlega. Strycova greindi frá því í mars að hún ætti von á sínu fyrsta barni. Nú langar hana til að leika einn leik í viðbót eftir að hún verður móðir og svo leggja spaðann á hilluna.

Strycova er 35 ára og hefur unnið Wimbledon-mótið í tvíliðaleik ásamt Hseih Su-wei og komist í undanúrslit í kvennaflokki. 

„Mig langar að spila einn leik fyrir framan áhorfendur. Ég ætla að kveðja ferilinn minn og hyggst ekki halda áfram í mótaröðum, en mig langar til að kveðja aðdáendur mína,“ sagði Strycova. Hún sér fyrir sér að keppa á All England Club árið 2022.

„Wimbledon væri draumurinn, en ef það gengur ekki upp, þá mun ég gera eitthvað hér í Tékklandi,“ sagði Strycova.

mbl.is