Vill frekar ættleiða en að nota staðgöngumóður

Tiffany Haddish vill ættleiða frekar en að notast við staðgöngumóður.
Tiffany Haddish vill ættleiða frekar en að notast við staðgöngumóður. Skjáskot/Instagram

Leikkonan Tiffany Haddish vill frekar ættleiða barn en að notast við staðgöngumóður til að eignast það. Hún tekur nú námskeið fyrir fólk sem vill ættleiða. 

„Ég er núna á uppeldisnámskeiði fyrir fólk sem vill ættleiða. Ég er að horfa á ykkur, fimm ára og eldri, eiginlega sjö ára. Ég vil að barnið kunni að nota klósett og labba og tala. Ég vil að það viti að ég lagði mig fram og langaði til að eiga það,“ sagði Haddish í viðtali við E Online

„Ég vil ekki borga neinum líkama til að ganga með barnið mitt heldur, því þá þarf ég að fara í gegnum hormónaferli og sprauta mig og allt það. Og ég gafst upp. Nú ætla ég að deila nokkru sem ég hef aldrei sagt frá: Þegar ég var 21 árs var ég í miklum fjárhagsörðugleikum og gaf fullt af eggjum,“ sagði Haddish. „Svo hver veit, kannski á ég einhver börn þarna úti á götunum. Ég efast um það samt, ég fékk aldrei neinn bónus,“ sagði Haddish. 

Haddish er 41 árs gömul og í sambandi með rapparanum Common. Hún sagði að það væri sannarlega verk Guðs ef hún yrði ólétt núna. 

Haddish sjálf þekkir fósturbarnakerfið í Bandaríkjunum vel því hún var sjálf sett í fóstur þegar hún var barn. Hún hefur áður talað um í viðtölum að hún vilji ættleiða í framtíðinni.

mbl.is