Má hitta börnin undir eftirliti

Josh Duggar var handtekinn fyrir vörslu á barnaníðsefni.
Josh Duggar var handtekinn fyrir vörslu á barnaníðsefni. Ljósmynd/Washington County Sheriff’s Office

Fyrrverandi raunveruleikastjarnan Josh Duggar má hitta börnin sín sex undir eftirliti eiginkonu sinnar Önnu Duggar. Josh er ákærður fyrir vörslu á barnaníðsefni og að hafa tekið við barnaníðsefni og bíður nú eftir að mál hans verði tekið fyrir hjá dómstólum. 

Dómari í Arkansas, Christy Comstock, ákvað á miðvikudag að Josh þyrfti ekki að sitja í fangelsi uns mál hans yrði tekið fyrir og að hann yrði undir eftirliti þar til. Aðalmeðferð málsins fer fram í júlí. 

Comstock sagðist ekki geta leyft Josh að snúa aftur á heimili eiginkonu sinnar, sem er ólétt að þeirra sjöunda barni. Hún ákvað þó að hann mætti hitta börn sín þegar hann vildi svo lengi sem eiginkona hans væri viðstödd. 

Josh er hvað þekktastur fyrir að hafa verið hluti af raunveruleikaþáttunum 19 Kids and Counting sem fjallaði um foreldra hans og systkinahópinn. 

Josh og eiginkona hans eiga sex börn, það elsta 11 ára og það yngsta 17 mánaða. 

People

mbl.is