Glímdi við alvarlegt þunglyndi eftir sonarmissinn

Liza Morales sökk niður í þunglyndi og kvíða eftir að …
Liza Morales sökk niður í þunglyndi og kvíða eftir að hún missti son sinn. Skjáskot/Instagram

Liza Morales, fyrrverandi eiginkona Lamars Odoms, glímdi við alvarlegt þunglyndi eftir að þau misstu son sinn Jayden skyndilega. Sonurinn lést í júní 2006 og skildu þau skömmu eftir það. 

Jayden var aðeins sex mánaða þegar hann lést í vöggu sinni. Hann var yngstur þriggja systkina.

„Þetta tengist allt. Ég týndi sjálfri mér þegar ég var að reyna að ala upp börn með fíkli, að hjálpa börnunum mínum í gegnum áfallið sem fylgir því að missa systkini og eiga föður sem er í mikilli neyslu og mikið í fjölmiðlum,“ sagði Morales í viðtali við People

Eftir andlát Jaydens leiddist Odom út í mikla fíkniefnaneyslu en hann lék enn í NBA-deildinni á þeim tíma. Nú 15 árum eftir andlát sonar síns er Morales tilbúin til að opna sig um baráttu sína við kvíða, þunglyndi og vonleysið sem fylgdi því að missa barn.

Morales segist alltaf hafa verið þreytt en ekkert var talað um andlega heilsu í fjölskyldunni hennar. Hún hafði því ekki hugmynd um að hún væri að glíma við eitthvað stærra og meira. 

„Það eru miklir fordómar gagnvart andlegri heilsu, og ef þú gengur til þerapista eða sálfræðings ertu stimplaður klikkaður,“ sagði Morales. Eftir að hafa lent á vegg andlega ákvað hún að leita sér hjálpar. 

Hún var greind með kvíða og þunglyndi en tókst á við veikindin með því að fara til sálfræðings og hugleiða.

„Áfallið fer ekki neitt. Maður þarf alltaf að halda áfram að vinna í sjálfum sér þegar kemur að missi og þunglyndi,“ sagði Morales. 

Eftir missinn var Odom sem fyrr segir mikið í fjölmiðlum. Hann gekk að eiga raunveruleikastjörnuna Khloé Kardashian en þau skildu. Seinna týndi hann næstum því lífinu eftir að hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum á vændishúsi í Las Vegas. 

„Mér fannst vandæðalegt að allir vissu um einkalíf fjölskyldunnar en loks áttaði ég mig á því að það eru svo margar fjölskyldur sem glíma við fíkn. Í mörgum tilvikum sýgur fíkillinn allt súrefni úr herberginu og þú týnir sjálfum þér. En ég lærði að maður getur ekki breytt fíkli, þeir verða að vilja hjálpina,“ sagði Morales.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert