Ógnvekjandi að fá staðgöngumóður

Khloé Kardashian.
Khloé Kardashian. mbl.is/AFP

Raunveruleikastjörnuna Khlóe Kardashian og körfuboltakappann Tristan Thompson langar að eignast annað barn. Þau hafa íhugað að fá hjálp frá staðgöngumóður en Kardashian var ráðlagt að ganga ekki með annað barn vegna áhættu sem því fylgdi. 

Kim Kardashian, systir Khloé Kardashian, hefur eignast tvö börn með hjálp staðgöngumóður. Jákvæð reynsla Kim Kardashian fékk parið meðal annars til að íhuga möguleikann. 

Parið þurfti að velta fyrir sér erfiðum spurningum í sambandi við að fá staðgöngumóður og var sýnt frá því í nýjum þætti af Keeping Up With the Kardashians að því er fram kemur á vef People. „Fyrir nokkrum mánuðum létum við Tristan búa til fósturvísa og þá var mér sagt að það væri ekki sniðugt fyrir mig að ganga með annað barn.“

Khloé Kardashian sagði að þau hefðu ákveðið að fara staðgöngumóðurleiðina og voru komin með ráðgjafa. Þegar parið hitti ráðgjafa á fjarfundi fóru þau meðal annars yfir rétt staðgöngumóðurinnar. Hún gæti til dæmis viljað rjúfa þungunina ef um tvíbura væri að ræða. Kardashian sagði í þættinum að hún hefði ekki áttað sig almennilega á að staðgöngumóðirin réði yfir líkama sínum þó svo barnið væri þeirra. 

„Það var bara ógnvekjandi að heyra allt þetta. Ég er bara guð minn góður. Kim lét þetta líta út fyrir að vera svo auðvelt og kannski var það þannig í hennar tilviki. Hún er ekki jafn stjórnsöm og ég,“ sagði Khloé Kardashian við Kris Jenner í þættinum. 

„Ferlið virðist vera aðeins of yfirþyrmandi fyrir Khloé og í hreinskilni sagt lét Kim þetta líta út fyrir að vera auðvelt og deildi þessu aldrei með mér,“ sagði Kris Jenner í þættinum og sagði að hún hefði verið hissa þegar hún heyrði af þessum áskorunum. 

Khloé Kardashian og Tristan Thompson eiga hina þriggja ára gömlu …
Khloé Kardashian og Tristan Thompson eiga hina þriggja ára gömlu True Thompson. Skjáskot/Instagram
mbl.is