„Hafði ekki annað val en að snúa við blaðinu“

Hjónin Sigurður Guðmundsson og Aldís Arna Tryggvadóttir með dóttur sinni, …
Hjónin Sigurður Guðmundsson og Aldís Arna Tryggvadóttir með dóttur sinni, yngsta barni þeirra, sem fæddist árið 2016. Ljósmynd/Aðsend

Aldís Arna Tryggvadóttir, streituráðgjafi og markþjálfi, á fjögur börn. Hún segir vellíðan foreldra vera forsendu velferðar barna. Sjálf þekkir hún það að keyra sig út og miðlar meðal annars af þeirri reynslu í starfi sínu. 

„Það er kraftaverk að vera fjögurra barna móðir og gífurleg forréttindi. Hið stórkostlegasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað í lífinu er að elska og vera elskuð. Börnin elska á svo einlægan og fallegan hátt. Ég er endalaust þakklát og stolt yfir því að eiga þau. Þau eru mínir allra dýrmætustu kennarar og samferðarmenn í lífinu,“ segir Aldís um börn sín.

Móðurhlutverkið með öllum þeim áskorunum hefur þó ekki alltaf verið dans á rósum. „Í rauninni er mín helsta persónulega uppgötvun sú að ég gerði svo lengi sömu kröfur til mín eftir barneignir og áður en ég eignaðist börn. Sem sagt, tók ekkert tillit til þess hversu mikið boltunum hafði fjölgað. Ég upplifði mikla streitu með öll börnin mín fjögur en við hjónin eigum þrjá stráka og eina stelpu, frá fjögurra til 13 ára. Fyrstu tveir synirnir voru alvarlega nýrnaveikir. Þeim leið mjög illa, grétu, fóru ítrekað á bráðamóttöku Barnaspítalans og áttu erfitt með að festa svefn, náðu yfirleitt ekki meira en 40 mínútum í einu hvort sem það var nótt eða dagur,“ segir Aldís.

Fjögurra barna fjölskylda.
Fjögurra barna fjölskylda. Ljósmynd/Aðsend

Tendraði mömmuneistann eftir erfiðleika

Aldís og maðurinn hennar sváfu lítið og lífið varð erfiðara. Þau fóru allt á hnefanum og héldu lífinu ótrauð áfram á öllum vígstöðvum. Þau grínuðust með það að þau svæfu bara í ellinni en að lokum kom að skuldadögum. „Ofan í þetta ástand varð ég ólétt af þriðja syninum. Lenti í hörðum árekstri á meðgöngu og fæddi hann í kjölfarið fyrir tímann. Ég var óskaplega hrædd um hann og okkur þar sem fæðing fór af stað með blæðingu. Aftur vorum við ein með allan pakkann og kunnum ekki við að biðja aðra um hjálp þar sem við töldum uppeldishlutverkið vera alfarið á okkar ábyrgð.“

Til þess að reyna að minnka stressið og einfalda lífið fluttu þau út á land. „Nema hvað lítil kraftaverkastelpa kemur undir og fæðist í lok árs 2016. Þar með voru börnin orðin fjögur og lífið tók algjöra U-beygju. Við töldum barneignum okkar vera lokið og vorum nýbúin að stofna Coldspot, heilsutengda ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í streitulausum ferðum. Ég var orðin mjög meðvituð um streitustig mitt og hafði áhuga á streitu og streitustjórnun. Þá hafði ég einnig nýlært markþjálfun og tekið kennararéttindi í líkamsrækt svo fjórða barnið var alls ekki á stefnuskránni en hún var miklu meira en hjartanlega velkomin og það var dýrlegt að fá hana í fangið. Allt byrjaði vel en tveggja daga gamla brunum við með hana fárveika á Landspítalann þar sem hún var á vökudeild í tvær vikur og við vorum í óvissu fyrstu dagana um framhaldið. Það greip um sig óttahræðsla um að missa hana. Ég gat ekki sleppt takinu á henni – neitaði að fara frá henni svo ég hélt henni að mér nótt sem nýtan dag og talaði við hana um allt það sem við ætluðum að gera saman mæðgurnar. Í rauninni hrundi ég eftir fæðingu hennar, líkaminn gat ekki meira og minnti mig rækilega á það að lengra færi hann ekki með mér,“ segir Aldís sem hafði ekki fengið almennilega hvíld í áraraðir.

Í kjöl­farið var hún greind með van­virk­an skjald­kirt­il, járnskort og sjúk­lega streitu. „Mér fannst ég vera 100 ára, gat varla stigið í fæt­urna, var al­gjör­lega ör­magna og gat rétt svo sinnt grunnþörf­um. Mér fannst þetta hvort tveggja hræðilegt og skamm­ar­legt. Ég sá ekki fram út því hvernig ég gæti unnið mig út úr þessu og óttaðist að ég myndi aldrei aft­ur getað „gert gagn“ á vinnu­markaði. En smátt og smátt tókst mér að byggja mig upp að nýju, tendra mömmu­neist­ann og finna mína leið út úr streit­unni. Því þakka ég mik­illi sjálfs­rækt og ómet­an­legri aðstoð manns­ins míns sem og fag­fólks á þessu sviði. Í leiðinni gerði ég upp göm­ul áföll sem höfðu drösl­ast allt of lengi með mér í gegn­um lífið. Það er nefni­lega svo frábært að hægt er að sækja stuðning til fagaðila til þess að vinna á streitupínu alveg eins og það er hægt að fara til tann­lækn­is vegna tann­pínu.“

Verðandi fimm manna fjölskylda. Yngsta barnið í bumbunni.
Verðandi fimm manna fjölskylda. Yngsta barnið í bumbunni. Ljósmynd/Aðsend

Með doktorspróf í sjúklegri streitu

Í dag nýtur Aldís þess að deila ráðum sínum og miðlar sinni reynslu. Sjálf hefði hún viljað þessi ráð þegar hún keyrði sig út. Aldís segir góðu fréttirnar vera þær að það er nokkuð einfalt og ódýrt að verjast streitunni og vera við stjórnvölinn. „Í dag gantast ég með þetta og segi oft að ég sé með doktorspróf í sjúklegri streitu út frá minni lífsreynslu. Það magnaða er að hið sjúklega streituástand gerði það að verkum að ég hafði ekki annað val en að snúa við blaðinu, duga eða drepast. Það er skrítið frá því að segja að þetta er í rauninni hvort tveggja það versta og það besta sem hefur komið fyrir mig í lífinu. Ég er þakklát viðsnúningnum og tækifærinu til þess að fá að skrifa miklu betri kafla í lífssöguna mína og vinna að því að styðja aðra í vegferð að vellíðan og velgengni. Enda eru einkunnarorð mín í lífinu „mannrækt er málið“. Það opnuðust svo margar víddir í kjölfarið og núna er ég 100% hamingjusöm.

Ég set fókus­inn á það sem ég hef en ekki á það sem ég hef ekki og það er ákaf­lega fátt sem get­ur slegið mig úr jafn­vægi. Ef ég væri að ganga aft­ur í gegn­um þetta tíma­bil myndi ég biðja meira um hjálp. Ég gekk lengi með þá viðskipta­hugmynd í mag­an­um að setja á stofn bak­land fagaðila fyr­ir bugaðar mæður. Bakland­inu myndu til­heyra ljós­mæður, hjúkr­un­ar­fræðing­ar og aðrir yndis­auk­ar sem kæmu og fylgd­ust með börn­un­um eða færu eitt­hvað með þau út í vagn­inum til þess að mæðurn­ar næðu að hvílast meira. Ég held að þessi ráðstöf­un myndi spara millj­arða þegar til lengri tíma er litið. Hver veit nema við látum verða af þessu í Heilsuvernd?“

Aldís sér um námskeiðið Mömmuneistinn sem hún heldur fyrir mæður í samstarfi við Maríu Ólafsdóttur hjá Móðurborðinu. Aldís segir að hugmyndin hafi komið eftir að María fór í streitustjórnunarráðgjöf til Aldísar. Þar náði hún að ryksuga heilann í sér eins og María orðaði það. „Hún vildi því gera fleiri konum kleift að fræðast um það hvernig hægt sé að tendra mömmuneistann með árangursríkri streitu- og vellíðunarstjórnun. Úr varð að við ákváðum að halda þetta námskeið saman og bjóða konum að eiga með okkur notalega, gefandi og einlæga kvöldstund. Ég mun deila ráðum og reynslu um það hvernig við getum haldið sjó og upplifað tilhlökkun og sátt yfir mæðrahlutverkinu. Tekist á við það á sem bestan hátt þrátt fyrir þær áskoranir sem felast í hlutverkinu. Mitt markmið er að byggja upp þekkingu á staðnum svo konur geti sótt mismunandi verkfæri í verkfærakistuna sína til að verjast streitu og stuðla að eigin vellíðan og fjölskyldna sinna til frambúðar,“ segir Aldís.

Hún trúir því að vellíðan mæðra sé einn mikilvægast þáttur velferðarkerfisins. „Það er því ákaflega mikilvægt að mæður séu í jafnvægi. Við finnum það þegar við erum illa fyrirkallaðar í ójafnvægi, þá verður allt erfiðara, líka börnin. Svo þegar okkur líður vel þá gengur móðurhlutverkið mun betur og börnin verða öruggari og meðfærilegri í návist okkar. Börnin eru því nokkurs konar hátalarabox á líðan foreldra sinna.

Ekki segja að móðir sé dugleg

Aldís finnur fyrir því að foreldrar í kringum hana glími við mikla streitu. Hún segir margt hafa breyst á síðustu árum og fólk þori að tala um streituna ólíkt því hvernig orðræðan var áður fyrr. „Þegar ég ræði við eldri konur segja þær flestar að þeim hafi vitanlega liðið alls konar eins og ungu konunum í dag en það hefði ekki þýtt neitt að kvarta. Minn lærdómur af þessu er að við leggjumst öll á eitt með að vera meira til staðar fyrir mæður og hlusta á þær. Þá er ég ekki að tala um að taka af þeim alla ábyrgð eða ganga á okkur sjálf í meðvirkni heldur bara hlusta – ljá þeim eyra og leyfa þeim að pústa. Það er svo magnað hvað það að tala um hlutina upphátt við vinalega manneskju getur lækkað streitustigið mikið. Og annað, í guðanna bænum ekki segja við móður að hún sé dugleg. Móðir vill ekkert endilega þurfa að standa undir þessari hástemmdu yfirlýsingu, sérstaklega ekki þegar henni finnst hún ekki ná að halda öllum boltum á lofti og vill fækka þeim.“

Aldís Arna og Sigurður giftu sig árið 2012.
Aldís Arna og Sigurður giftu sig árið 2012. Ljósmynd/Aðsend

Aldís reynir eftir bestu getu að einfalda líf sitt og passa upp á orkuna. Hún fjölgar til dæmis þáttum í sínu lífi sem veita henni gleði og orku og fækkar þeim þáttum sem ræna hana orku. Hún skipuleggur tímann þannig að hún virkjar hvíldar- og gleðiseðla sína. Það þarf ekki að vera flókið. „Mínar uppáhaldshamingjustundir felast einkum í því að knúsa krakkana mína í „klessukósí“, fara í heita pottinn og spjalla við þau, dansa, hamast í garðinum, fara á hestbak, hitta vini og eiga stund með manninum mínum,“ segir Aldís sem segir það skipta máli að tala af jákvæðni og nota orð eins og vel og vil í stað þess ég þarf og verð. 

Í lokin mælir Aldís með því fyrir foreldra að stoppa og stjórna. Í því felst að staldra aðeins við, draga djúpt inn andann og bera kennsl á þær tilfinningar sem við finnum fyrir. „Vanlíðan segir okkur að við þurfum að gera minna af því sem veldur vanlíðan. Vellíðan segir okkur að við þurfum að fjölga þeim stundum sem gefa okkur orku, lífsgleði, tilgang og sátt. Hún mælir með því að við verðum bestu vinir barna okkar, sem sagt bestu vinir okkar sjálfra svo við getum gefið af okkur til barnanna okkar.“

mbl.is