Steypiboðið lagðist illa í hallarstarfsmenn

Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja árið 2019. Nú eiga hjónin …
Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja árið 2019. Nú eiga hjónin aftur von á barni. AFP

Vinir Meghan hertogaynju héldu íburðarmikið steypiboð fyrir hana árið 2019 þegar hertogaynjan átti von á sínu fyrsta barni með Harry Bretaprins. Boðið fór fram í New York og flaug Meghan þangað á einkaþotu. Lúxusinn fór misvel í breskan almenning og starfsfólk konungsfjölskyldunnar. 

„Ég man að ég talaði við starfsmenn í höllinni á þessum tíma sem ranghvolfdu í sér augunum,“ sagði Omid Scobie, höfundur Finding Freedom, um steypiboðið í breskri heimildarmynd að því er fram kemur á vef Daily Mail. Scobie sagði hallarstarfsmennina hafa orðið skelfingu lostnir að jafn almúgalegur viðburður ætti sér stað innan Windsor-fjölskyldunnar. Scobie sagði boðið langt frá því sem tíðkaðist í Bretlandi. „Við höfðum aldrei séð einhvern halda svona íburðarmikið boð til þess að fagna væntanlegu barni.“

Annar konunglegur sérfræðingur, Ingrid Seward, talaði ekki fallega um steypiboðið. „Þau gengu inn um aðalinnganginn með þessa stóru poka frá dýrustu búðum í New York. Fólk safnaðist saman af því það voru allar þessar stjörnur.“

Hertogaynjan fagnaði komu fyrsta barns síns með ferð til New York árið 2019. Steypiboðið vakti mikla athygli en Meghan flaug með einkaþotu til New York og gisti á dýru hóteli. Um 20 vinir hennar fögnuðu með henni, þar á meðal tennisstjarnan Serena Williams og mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney. Meghan og Harry eiga von á öðru barni sínu á næstu vikum en ekki er gert ráð fyrir að því verði fagnað á eins íburðarmikinn hátt. 

Harry, Meghan og Archie.
Harry, Meghan og Archie. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert