Jolie ósátt í forræðismálinu

Brad Pitt og Angelina Jolie árið 2009.
Brad Pitt og Angelina Jolie árið 2009. AFP

Hollywood-stjörnurnar Angelina Jolie og Brad Pitt eiga enn í forræðisdeilu en þau tilkynntu skilnað árið 2016. Dómarinn í málinu neitaði börnunum um að bera vitni og er Jolie ósátt við þá ákvörðun. Leikkonan hefur lengi haldið því fram að dómarinn John Ouderkirk sé vanhæfur. 

„Ouderkirk dómari neitaði frú Jolie um sanngjörn réttarhöld,“ segir í dómsskjölum að því er fram kemur á vef Page Six. Þar er því haldið fram að dómarinn hafi neitað að horfa til sönnunargagna sem lúta að heilsu, öryggi og velferð barnanna. Lögmaður Jolie bendir einnig á þá reglu að það sé ekki í hag barna að vera í forsjá manneskju sem hefur sögu um að beita heimilisofbeldi. 

Í dómsskjölunum kemur fram að dómarinn neitaði að hlusta á vitnisburð unglinga Jolie og Pitts. Þau hafi ekki fengið að greina frá reynslu sinni, þörfum og óskum í forræðismálunum en samkvæmt lögum í Kaliforníuríki mega börn sem eru 14 ára eða eldri bera vitni ef þau vilja. Jolie og Pitt eiga þrjú börn á þessum aldri en það eru Pax 17 ára, Zahara 16 ára og Shiloh 14 ára. Elsta barn þeirra er 19 ára og telst því fullorðið. Tvíburarnir Vivienne og Knox eru 12 ára og ekki nógu gamlir til þess að bera vitni. 

Angelina Jolie með dætrum sínum Shiloh Nouvel Jolie-Pitt og Zahöru …
Angelina Jolie með dætrum sínum Shiloh Nouvel Jolie-Pitt og Zahöru Marley Jolie-Pitt. AFP

Í svari frá lögmanni Pitts er bent á að dómarinn hafi unnið yfirgripsmikla vinnu síðustu sex mánuði. Er þar meðal annars bent á sérfræðiálit og vitni. Lögmaðurinn bendir á að frekari tafir á niðurstöðu skaði börnin. Ekki er ljóst hver niðurstaða málsins er en skjölin eru ekki öll opinber. Jolie sótti upphaflega um forræði yfir börnunum. Pitt sótti hins vegar um sameiginlegt forræði.

mbl.is