6 góð ráð fyrir tilvonandi feður

Ljósmynd/Limor Zellermayer

Það má með sanni segja að föðurhlutverkið hafi tekið miklum breytingum undanfarna áratugi. Krafan um ábyrgð feðra þegar kemur að uppeldi er orðin meiri en hún var. Sú kynslóð karlmanna sem nú verður foreldrar er í mörgum tilvikum að ganga inn í allt annað hlutverk en feður þeirra sinntu. Hvert geta þeir leitað til að fræða sig þegar kemur að mikilvægasta og stærsta hlutverki sem við tökumst á við, að vera foreldri?

Ljósmynd/Limor Zellermayer

Hér eru sex frábær ráð fyrir verðandi feður:

1. Njóttu þess að eiga gæðastundir með elskunni þinni á meðgöngunni

Að eyða gæðastundum með maka þínum getur virkilega hjálpað henni í gegnum meðgönguna. Því þegar barnið fæðist þá kemst aðeins eitt að; barnið. Frá morgni til kvölds og allar nætur. Það verður ekkert svigrúm fyrir rómantískan kvöldverð á uppáhaldsveitingastaðnum ykkar.

Vertu duglegur að búa til gæðastundir með henni á meðgöngunni. Slíkt þarf ekki að vera flókið, sem dæmi er stundum nóg kveikja á nokkrum kertum, örbylgjupopp, sódavatn og David Attenborough. Aðalatriðið er að vera tvö saman. Svona gæðastundir munu styrkja sambandið ykkar og leggja góðan grunn fyrir fyrstu mánuði barnsins.

Ljósmynd/Andrea Bertozzini

2. Gerðu meira en þú ert vanur að gera á heimilinu

Ólétti maki þinn mun þurfa alla sína orku í að koma sjálfri sér í gegnum daginn og verður töluvert þreyttari en þú átt að venjast. Það er því eðlilegt að þú eldir að minnsta kosti sex sinnum í viku, sjáir um þvottinn og þrífir og þurrkir af gluggakistunum. Gerðu miklu meira en þú ert vanur, samanborið við þegar er ekki barn að vaxa inni í henni.

Ljósmynd/Andrea Bertozzini

3. Ljáðu henni eyra

Það er ekki óalgengt að verðandi mæður upplifi kvíða og óöryggi með sjálfar sig. Það eru alls konar hormónar í gangi hjá henni og hún gæti farið að efast um móðurhlutverkið og sambandið ykkar. Þú þarft að passa þig á að verða ekki reiður eða særður, hér er mikilvægast að hlusta án þess að dæma og vera til staðar.

Ef það koma upp vandamál er aðalatriðið að tala saman, stundum hljóma þessi vandamál smávægilega í þínum eyrum en þau geta skipt hana mjög miklu máli. Það er því mikilvægt að þið þjálfið ykkur í því að leysa ágreining á heilbrigðan máta. Þegar barnið kemur svo í heiminn þá munið þið njóta góðs af þeirri þjálfun.

Ljósmynd/Frank Alarcan

4. Stundið líkamsrækt saman

Það gleymist oft á meðgöngu að njóta reglulegrar hreyfingar. Dagarnir eru erfiðir og oft gefst ekki tími né orka fyrir hreyfingu. Klukkutímagöngutúr í kringum Grafarvoginn eða sólseturssæluganga á Ægisíðunni hjálpar lungunum og kemur blóðinu af stað. Auk þess styrkir það andlega líðan hjá ykkur báðum.

5. Hafðu skoðun á barnadóti

Þér er kannski alveg sama hvernig kerru þið kaupið eða skiptiborð en gerðu þitt besta til að taka þátt í ferlinu. Þið eruð saman í liði og allir í liðinu verða að vita hvað er verið að kaupa og hvernig það virkar. Því virkari sem þú verður því skemmtilegra verður þetta ferli. 

Ljósmynd/Pelayo Arbues

6. Sofðu vel en leyfðu henni að sofna á undan

Sjáðu til þess að það fari vel um hana áður en þið sofnið. Ef henni er of heitt, þá er hægt að opna gluggann og ef þér er of kalt þá ferðu bara í peysu. Reyndu að fá hana til að sofna á undan svo hún þurfi ekki að hlusta hroturnar þínar.

Þegar barnið mætir verður eðlileg svefnrútína eitthvað sem þú hefur aðeins í minningunni. Reyndu að ná að minnsta kosti átta tíma svefni áður en barnið fæðist. Á meðgöngunni er sniðugt að byrja að æfa sig í að taka stutta blundi en það gæti orðið eini snefillinn af svefni sem þú færð fyrstu mánuðina eftir fæðingu barnsins þíns.

mbl.is