Eiga loksins von á börnum eftir mikil vonbrigði

Lance Bass (t.h.) ásamt eiginmanni sínum Michael Turchin.
Lance Bass (t.h.) ásamt eiginmanni sínum Michael Turchin. Skjáskot/Instagram

Lance Bass, fyrr­ver­andi meðlimur stráka­sveit­ar­inn­ar NSYNC, og eig­in­maður hans, Michael Turchin, eru að verða feður eftir langa bið. Þeir eiga ekki bara von á einu barni heldur tveimur en staðgöngumóðir gengur með tvíbura þeirra. 

Ferlið hefur reynt á og komið hjónunum á óvart. „Þegar við byrjuðum í tæknifrjóvgun og fengum staðgöngumóður höfðum við enga hugmynd um hvernig þetta gengi allt fyrir sig. Næstum því öllum sem við þekkjum gekk illa í upphafi. Í fyrsta sinn sem fólk reyndi virkaði það bara ekki. Ég held að það sé mjög algengt og það er frábært að við getum talað um það af því ég held að oft líði fólki eins og það sé eitt í þessum aðstæðum. Það er huggun að vita að aðrir eru að ganga í gegnum það sama,“ sagði Bass í viðtali við People

Turchin sagði að þeir hefðu fengið níu mismunandi eggjagjafa, sem er afar sjaldgæft að hans sögn. Þeir greindu frá því fyrr í vetur að þeir væru að reyna í tíunda skiptið. „Sumar framleiddu ekki nógu mikið af eggjum, aðrar pössuðu ekki erfðafræðilega,“ segir hann en þeir eru sæðisgjafarnir. 

„Þegar við vorum óléttir í fyrra missti staðgöngumóðirin fóstrin, ólétt að tvíburum,“ sagði Bass. Tónlistarmaðurinn sagði það hafa verið afar erfitt enda færi allt á flug þegar von væri á börnum. Turchin segir þá hafa þurft að byrja alveg upp á nýtt en að lokum tókst það þrátt fyrir að líkurnar væru ekki með þeim auk þess sem heimsfaraldur geisaði. 

„Við pössuðum okkur að verða ekki mjög spenntir vegna alls þess sem við höfum gengið í gegnum síðustu fjögur ár. Það er frekar glatað vegna þess að þegar þú kemst að því að þú átt von á barni viltu fagna með fjölskyldu þinni. Þú byrjar að skipuleggja allt í framtíðinni í höfðinu á þér en við vorum svo hræddir af því við vildum ekki upplifa sársaukann aftur. Við sögðum vinum og fjölskyldu á níundu viku, þegar okkur leið loksins vel,“ sagði Bass. 

Hjónin hafa talað um barneignir síðan þeir kynntust en þeir hafa verið saman í tíu ár. Draumurinn er loksins að verða að veruleika og börnin væntanleg í heiminn í byrjun nóvember. 

mbl.is