Er búinn að velja nafn á barnið

Tan France
Tan France

Tan France, ein af stjörn­un­um í net­flixþátt­un­um Qu­eer Eye, segist alltaf hafa vitað hvað hann myndi nefna börn sín. France á von á barni með eiginmanni sínum Rob með hjálp staðgöngumóður.

France var aðeins 16 ára þegar hann ákvað nöfnin. „Ég hef alltaf vitað það. Á fyrstu stefnumótum okkar Robs spurði ég hann hvort hann vildi börn. Hann sagðist vilja það einn daginn. Ég sagði honum þá að ég væri búinn að ákveða barnanöfnin,“ sagði France en svo heppilega vildi til að Rob leist vel á nöfnin.

„Þetta hljómar ógnvekjandi en ég bara þurfti að vita hvort honum líkuðu nöfnin. Og honum fannst þau fín og þá hugsaði ég bara: „Allt í lagi, fyrsta barn okkar mun heita þessu nafni.“

France vill ekki gefa upp nafnið enn sem komið er en staðfestir að það muni vísa í uppruna hans í Suður-Asíu en France á rætur að rekja til Pakistans.

Þá segist France ekki vera búinn að undirbúa komu erfingjans að neinu ráði en aðeins eru nokkrar vikur í settan dag.

„Ég og maðurinn minn erum ekki rómantískir, við höfum ekki útbúið barnaherbergi. Það má ala barn upp í hvaða herbergi sem er, það þarf ekki að fara yfir um. Við tökum á málinu þegar hann mætir á svæðið.“

mbl.is