Erfitt og skrýtið að hitta börnin sjaldnar

Ásgrímur Geir Logason eða Ási er með hlaðvarpsþáttinn Betri helmingurinn. …
Ásgrímur Geir Logason eða Ási er með hlaðvarpsþáttinn Betri helmingurinn. Hann á tvö börn. Ljósmynd/Aðsend

Ásgrímur Geir Logason, leikari og tveggja barna faðir, byrjaði nýverið með hlaðvarpsþáttinn Betri helmingurinn þar sem hann talar við þekkt fólk og maka. Betri helmingur Ásgríms eða Ása eins og hann er kallaður heitir Sara Davíðsdóttir en hann á tvö börn með fyrrverandi konu sinni. Hann segir að það hafi verið skrýtið að venjast nýrri rútínu við skilnaðinn en að lokum hafi það verið öllum fyrir bestu. 

Ási gefur sig allan í pabbahlutverkið þegar hann er með börnin sem eru sex og fjögurra ára. Þær vikur sem hann er ekki með börnin hefur hann meiri tíma til að rækta áhugamálin en í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins fór hann til dæmis að hlusta meira á hlaðvarpsþætti og nýverið byrjaði hann með sinn eigin þátt. „Ég sá fyrir mér að gera viðtalsþátt en langaði að nálgast viðmælendur á nýjan og ferskan hátt með því að hafa betri helminginn með og heyra þeirra hlið á sögum sem margir hafa jafnvel heyrt. Ég fæ til mín áhugaverða einstaklinga ásamt þeirra betri helmingi, í létt og skemmtilegt spjall þar sem við ræðum daglegt líf þeirra, hvernig þau kynntust, skemmtilegar sögur úr þeirra sambandstíð og allt milli himins og jarðar,“ segir Ási um hlaðvarpsþáttinn sinn. 

Hvernig breyttist lífið eftir að þú varðst faðir?

„Það náttúrlega breytist mjög margt þegar þú eignast börn. Maður er allt í einu kominn með ábyrgð á einhverju öðru en sjálfum sér og þarna er einstaklingur sem kemur til með að treysta á þig í einu og öllu. Ég reyndi samt alltaf að hugsa það þannig þegar börnin komu, að búa til pláss fyrir þau í lífinu og rútínunni almennt frekar en að loka mig inni í vernduðu umhverfi með þau. Mér finnst það skipta miklu máli að hætta ekki að sinna áhugamálum og rækta sambönd við vini og vandamenn og fannst mér til dæmis virka einstaklega vel að taka börnin bara með í hina og þessa hluti. Kannski ekki á djammið en í matarboð og fleira í þeim dúr.“

Sara fékk börn í bónus þegar hún kynntist Ása.
Sara fékk börn í bónus þegar hún kynntist Ása. Ljósmynd/Aðsend

Nýtir tímann með börnunum vel

Ási elskar að vera pabbi og reynir að gera sitt allra besta í að standa sig vel í því hlutverki. „Þar sem ég fæ bara aðra hverja viku með börnunum mínum reyni ég að nýta tímann til fulls með þeim og skipulegg tímann þannig að þegar börnin eru hjá mér þá er ég til staðar fyrir þau sem allra mest. Ég reyni að halda áreiti frá síma og öðrum tækjum og tólum í lágmarki meðan börnin eru vakandi og mér finnst mjög gaman að leika við þau, enda alveg einstaklega skemmtileg börn. Hlutlaust mat. Ég reyni að vera ákveðinn en á sama tíma sanngjarn og finnst mér það virka mjög vel.“

Hvernig var að skilja við betri helminginn og þurfa að búa til nýja rútínu með börnunum?

„Það var mjög erfitt og skrýtið til að byrja með enda þekkti ég ekkert annað og átti erfitt með tilhugsunina um að sjá börnin sjaldnar. Svona mál eru aldrei skemmtileg en eftir því sem lengri tími líður skapast nýtt norm sem getur oft bara verið betra fyrir alla aðila.“

Gunnar Logi sem er sex ára á gæðastundir með pabba …
Gunnar Logi sem er sex ára á gæðastundir með pabba sínum aðra hvora viku. Ljósmynd/Aðsend

Glaðir foreldrar – glöð börn

„Þrátt fyrir að það sé glatað að hitta börnin ekki á hverjum degi hefur það líka sína kosti þótt manni finnist kannski smá óþægilegt að segja það upphátt. Þegar þessi staða verður að veruleika verður maður samt að reyna að sjá eitthvað jákvætt í því. Ég reyni að nýta vikurnar án barnanna í að rækta sjálfan mig og sinna vinnu og áhugamálum eins mikið og ég get og mögulega enn betur nú en áður. Er ekki stundum sagt; glaðir foreldrar  glöð börn?“

Ásgrímur segir mikilvægt fyrir alla að samræma heimilislífið á báðum stöðum eins og kostur er. „Það er gott samband á milli heimilanna tveggja sem ég tel vera mjög mikilvægt fyrir börnin og í raun alla. Til að byrja með voru samskiptin eðlilega skrýtin enda tekur tíma að finna takt sem virkar fyrir alla. Þótt ég sé alls ekki að halda því fram að allt sé fullkomið tel ég að samskiptin séu með besta móti og heyrumst við reglulega þar sem við förum yfir stöðu barnanna.“

Ási og Þórdís Lára fjögurra ára sprella saman þegar þau …
Ási og Þórdís Lára fjögurra ára sprella saman þegar þau eru saman. Ljósmynd/Aðsend

Hófu sambúð í miðjum faraldri

Eins og áður segir bankaði ástin aftur upp á hjá Ása en hann tók meðvitaða ákvörðun um að fara hægt í sakirnar þegar kom að því að kynna börnin fyrir nýjum maka. „Mér fannst mikilvægt til að byrja með að kynna Söru fyrir börnunum hægt og rólega og reyndi ég að gera mitt besta að passa að öllum liði sem best í nýjum aðstæðum. Við kynntumst í lok september 2019 og byrjuðum að búa saman í lok febrúar 2020 en þá var orðið mjög eðlilegt fyrir börnunum að hún væri mikið á heimilinu. Hún fékk að vísu gott „reality check“ þarna á þessum tímapunkti þar sem fyrsta covid-bylgjan skall á tveimur vikum síðar og öllu skellt í lás með tilheyrandi leikskólalokunum og fleira.“

Ási og Sara hófu sambúð í fyrra. Hún kom barnlaus …
Ási og Sara hófu sambúð í fyrra. Hún kom barnlaus inn í fjölskylduna. Ljósmynd/Aðsend

Ási segir að þau hafi ekki leitað faglegrar aðstoðar þegar þau voru að samræma fjölskyldumynstrið. „Eftir á að hyggja hefði það sennilega verið gráupplagt í okkar tilfelli þarna til að byrja með. Það eru allir að venjast nýju fjölskyldumynstri sem getur verið krefjandi. Sara kom til dæmis inn í okkar fjölskyldumynstur barnlaus og hafði búið ein í einhvern tíma og voru þetta ekki síður miklar breytingar fyrir hana að aðlagast.

Ég er með mikið jafnaðargeð og tek lífinu með frekar mikilli ró og ég held að það sé svolítið okkar viðhorf í þessu öllu saman. Við erum dugleg að ræða málin okkar á milli og reynum að taka tillit hvert til annars og barnanna. Aftur setti covid auðvitað mikið strik í reikninginn eins og hjá mörgum öðrum en við reyndum að gera eins gott úr því og við gátum. Við hófum eins og fyrr kom fram okkar sambúð rétt fyrir fyrstu samkomutakmarkanir svo við neyddumst til þess að aðlagast hratt. Án þess að það hafi komið upp einhver stórmál þá var alveg erfitt að hefja sambúð meðan hlutirnir í samfélaginu voru ekki í eðlilegu jafnvægi en ég held að við höfum tæklað þetta vel og gætu hlutirnir ekki verið betri eftir þetta allt saman.“

Hægt er að hlusta á Betri helminginn með Ása á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert