Þreyttar mömmur með sjö börn

Lára og Tinna halda úti hlaðvarpsþættinum Þreyttar mömmur. Samanlagt eiga …
Lára og Tinna halda úti hlaðvarpsþættinum Þreyttar mömmur. Samanlagt eiga þær sjö börn. Ljósmynd/Aðsend

Mæðurnar Tinna Rósamunda Freysdóttir og Lára Guðnadóttir halda úti hlaðvarpsþættinum Þreyttar mömmur. Tinna á þrjú börn með eiginmanni sínum og Lára fjögur með unnusta sínum. Þær segja nafnið á þættinum hafa passað mjög vel við sig enda nóg að gera á stórum heimilum.

Þættirnir fjalla ekki bara um móðurhlutverkið en þær hafa tekið fyrir erfið málefni á borð við vináttumissi án dauðsfalla og erfiðleika í samböndum. „Við erum byrjaðar að taka inn gesti og fengum sambandsráðgjafa um daginn og ætlum okkur að fá gest einu sinni í mánuði,“ segja þær. Vinkonurnar eru í skýjunum yfir viðtökunum. Þær eru nú komnar með um tvö þúsund hlustendur en fyrsti þátturinn fór í loftið í febrúar. 

Eruð þið þreyttar mömmur? 

„Já, alveg klárlega. Við erum náttúrlega með börn á heimilinu og erum einhvern veginn að halda öllum boltum á lofti. Já, það er bara erfitt að vera mamma og maður er oftast drulluþreyttur. Andlega þreytan er mjög áberandi og maður finnur hana alltaf. Börn eru orkusugur en á dásamlegan hátt samt. Við erum þreyttar en mjög hamingjusamar mömmur.“

Lára tekur í sama streng og segir allar mæður þreyttar. „Hin fullkomna móðir er ekki til, hún er glansmyndin sem við sjáum á samfélagsmiðlum og við eigum aldrei að miða okkur við það,“ segir Lára. 

Mömmur eru mannlegar

Hvað er mest krefjandi við það að eiga börn?

„Vá svo margt. Maður er með áhyggjur af þeim og oft peningaáhyggjur líka því það er jú ekki ódýrt að eiga börn og hvað þá nokkur. Svo er svo margt sem þarf að huga að alla daga og halda heimilinu í standi líka. Mömmuhjartað er alltaf á vakt,“ segir Tinna. 

„Klárlega þolinmæðin. Það þarf maður virkilega að hafa. En ef þú átt helling af súkkulaði fyrir þig, þá reddast allt,“ segir Lára og brosir. 

Tinna Rósamunda Freysdóttir þa þrjú börn með eiginmanni sínum.
Tinna Rósamunda Freysdóttir þa þrjú börn með eiginmanni sínum. Ljósmynd/Aðsend

Tinna og Lára eru sammála um að þær finni af og til fyrir svökulluðu mömmviskubiti. Fjögurra barna móðirin Lára segist alltaf vera með börnin sín svo hún er ekki með samviskubit yfir tímaleysi. Hún segist geta talið á fingrum annarrar handar hversu oft hún hefur fengið pössun. „En eins og allar þessar stundir með börnum, til dæmis bústaðarferðir, utanlandsferðir og ferðalög, þá kemur mömmviskubit. Að fara ekki með þau líka, að finnast við vera of stórt fyrirtæki til að fara eitthvað og bara alls ekki nenna að pakka öll niður fyrir smá ferð,“ segir Lára. 

Tinna vildi óska þess að það væru fleiri tímar í sólarhringnum en segist ekki bera sig saman við glansmyndir á Instagram. „Ég fæ oft samviskubit yfir því hvað tíminn líður hratt og hvað maður vinnur mikið og vildi að ég hefði allan tímann í heiminum, sem er ekki staðan. Ég finn ekki pressu fyrir því að vera fullkomin móðir; ég geri mitt besta og ef mér finnst ég ekki standa mig þá tek ég mig á. Stundum þarf ég að segja fyrirgefðu við börnin mín, til dæmis ef ég er með stuttan þráð og hef verið pirruð. Mér finnst mikilvægt að þau sjái líka að maður er bara mannlegur og hinn eðlilegasti hlutur að biðjast afsökurnar ef maður hefur ekki verið 100 prósent. Ég finn ekki fyrir pressu á samfélagsmiðlum, er sjálf með opið Instagram og legg mikla áherslu á að sýna lífið eins og það er og mínir fylgjendur vita það.“

Lára Guðnadóttir.
Lára Guðnadóttir. Ljósmynd/Aðsend

Stór fjölskylda eins og fyrirtæki

Það er mikil vinna að halda öllum boltum á lofti á stóru heimili. Báðar hafa þær komið sér upp góðri rútínu. „Ég er skipulagsfrík og er með dagbók sem ég nota daglega og skrái allt niður svo skipulagið er mjög gott en stundum færast hlutir áfram um dag og það er bara allt í góðu. Það að skrá allt niður í dagbók hjálpar mér mikið og ég fúnkera ekki nema skipulagið sé upp á tíu,“ segir Tinna. Það kemur þó fyrir að það er allt of mikið að gera hjá henni. „Auðvitað er stundum pressa og alltof mikið að gera. Þá er bara um að gera að vera meðvitaður um það, ná andanum og hugsa að þetta reddist; þó að allir dagar séu ekki frábærir þá kemur alltaf annar dagur.“

Lára bendir á að stórt heimili sé eins og fyrirtæki og það er ekkert hægt að taka helgarfrí frá fyrirtækinu. „Af því að þegar þú kemur aftur bíður þín bara enn stærra verkefni. Það er líka smá sem mér finnst oft vanta í umræðuna. Að vera móðir eða faðir er alveg rosalega krefjandi. Þú getur ekkert tekið þér pásu til að vera bara þú eða þið nema fá pössun, sem er ekkert auðvelt til dæmis með fullt hús af börnum,“ segir hún. Hjá sumum fær sambandið að mæta afgangi en Lára og unnusti hennar reyna að hlúa vel að því. „Að rækta sambandið er nokkuð sem fólk gleymir að gera. Þess vegna er það oft látið á „hold“. Sem á ekki að vera, því við þurfum að muna hver við vorum fyrir börnin okkar og rækta vinskap okkar sem makar en ekki bara sem foreldrar.“

Hægt er að hlusta á Þreyttar mömmur á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert