Var beitt harkalegu ofbeldi sem barn

Sinead O´Connor.
Sinead O´Connor. AFP

Söngkonan Sinéad O'Connor hefur gefið út æviminningar sínar undir heitinu Rememberings. Þar kemur meðal annars fram að móðir hennar hafi beitt hana miklu andlegu og líkamlegu ofbeldi. 

Ofbeldið hófst eftir að foreldrar hennar skildu árið 1975. Karlar áttu engan rétt á börnum sínum eftir skilnað og O'Connor sá ekki föður sinn í fleiri ár og segir fólk vanmeta mikilvægi þess að drengir og stúlkur hafi karlfyrirmynd í lífi sínu.

Ofbeldið sem O'Connor lýsir af hálfu móður sinnar er sláandi. „Hún lét mig fara úr öllum fötunum og leggjast á gólfið með hendur og fætur útglennta. Þá lamdi hún mig með kústi á einkastöðunum mínum. Þá lét hún mig segja „ég er ekkert“ aftur og aftur,“ segir O'Connor í bók sinni.

Þá á móðir O'Connor einnig að hafa hvatt hana til þess að stela sem varð svo til þess að O'Connor var send á heimili þegar hún var 15 ára.

Aðspurð segir O'Connor í viðtali við The Times að hún velti oft vöngum yfir hvað hafi orsakað þessa hegðun móður hennar. „Ég mun aldrei vita það. Þar til nýlega hefði ég sagt að hún hafi verið heltekin en um daginn spurði einhver hvort hún hefði verið veik á geði og siðblind og ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Hún gat brosað á sama tíma og hún var andstyggileg. En írskar konur á þessum tíma máttu ekki vinna. Þær áttu að giftast fyrsta kærastanum, engar getnaðarvarnir og aldrei að nota einnota bleyjur. Þegar konur fóru svo til læknis og sögðust vera óhamingjusamar og vildu ekki eignast fleiri börn þá voru þær settar á lyf. Írland var galið land á þessum árum.“

mbl.is