Deilt um nafn dóttur Harrys og Meghan

Harry og Meghan eignuðust dóttur á föstudaginn.
Harry og Meghan eignuðust dóttur á föstudaginn. AFP

Enn og aftur stefnir í stríð á milli Harrys og Meghan, hertogahjónanna af Sussex, og þeirra sem þekkja til bresku konungfjölskyldunnar. Dóttir þeirra fæddist á föstudaginn og fékk nafnið Lilibet Díana. Ekki eru allir sammála um hversu tillitssöm hjónin voru þegar þau völdu gælunafn drottningar sem nafn dóttur sinnar.

Í fyrstu var greint frá því að foreldrarnir hefðu ráðfært sig við drottninguna áður en nafnið var tilkynnt. Vinur Harrys Bretaprins sagði á mánudaginn í viðtali á vef Vanity Fair að hjónin hefðu fengið blessun Elísabetar áður en nafnið var tilkynnt. 

Annað var upp á teningnum hjá konunglegum sérfræðingi BBC í morgun, miðvikudag. Heimildarmaður hans innan hallarinnar segir Harry og Meghan ekki hafa beðið um leyfi fyrir því að nota nafnið Lilibet. 

Omid Scobie, höfundur bókarinnar Finding Freedom sem fjallar um Harry og Meghan, varði ákvörðun Harrys og Meghan eftir ummæli heimildarmanns BBC í morgun að því er fram kemur á vef Daily Mail. Hann sagði að drottningin hefði verið fyrsta manneskjan sem Harry hringdi í eftir að dóttir hans kom í heiminn. Scobie sagði einnig að Harry og Meghan hefðu ekki notað nafnið Lilibet ef drottningin væri því mótfallin. Fólk nákomið Harry staðfestir þetta og segir Scobie að þetta sýni hversu lítið fólk í höllinni veit um einkalíf Harrys og Meghan.

Harry og Meghan eru afar umdeild í Bretlandi en þau búa núna í Bandaríkjunum. Viðtal sem fjölmiðlakonan Oprah Winfrey tók við þau í mars gerði allt vitlaust. Lilibet Díana er annað barn hjónanna en stúlkan verður þó kölluð Lili.

Lilibet er gælunafn Elísabetar drottnignar.
Lilibet er gælunafn Elísabetar drottnignar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert