Fæddi barnið í bílastæðahúsi

Troi­an Bellis­ario og Patrick J. Adams þar sem nýbökuð dóttir …
Troi­an Bellis­ario og Patrick J. Adams þar sem nýbökuð dóttir þeirra fæddist. Skjáskot/Instagram

Suits-leikarinn Patrick J. Adams og eig­in­kona hans, Pretty Little Li­ars-leik­kon­an Troian Bellisario, eignuðust aðra dóttur sína í maí. Stúlkan var að flýta sér svo mikið í heiminn að móðir hennar fæddi hana í bílnum. Hjónin greindu frá óvenjulegri fæðingu dóttur sinnar í hlaðvarpsþættinum Katie's Crib. Adams og Bellis­ario voru komin að spítalanum þegar stúlkan fæddist að því er fram kemur á vef People. 

Bellis­ario fann fyrir samdráttum fyrr um morguninn en hafði ekki miklar áhyggjur þar sem það tók 26 klukkutíma að fæða frumburðinn. Það leið ekki á löngu þar til þau áttuðu sig á því að þau þyrftu að hraða sér á spítalann. „Ég byrjaði að ýta bílbeltinu frá mér ... Ég var mjög verkjuð. Ég get ekki verið í þessari stellingu lengur hugsaði ég,“ sagði Bellisario um bílferðina.

Þegar Adams keyrði inn á bílastæðið við Cedars-Sinai-sjúkrahúsið í Los Angeles áttuðu þau sig á því að þau myndu ekki komast alla leið inn á sjúkrastofu, svo langt var fæðingin gengin. Öryggisvörður hélt að Adams væri að ýkja þegar hann bað hann að ná í allt tiltækt starfsfólk. Leikarinn opnaði dyrnar til að sýna öryggisverðinum ástandið á konunni sinni. „Um leið og ég opna dyrnar öskrar Troian.“

Bellisario öskraði á manninn sinn og sagði barnið væri að koma og hún gæti ekki fundið þægilega stellingu. Hún öskraði svo á hann og bað hann að taka sig úr buxunum. „Svo hún er enn á fjórum fótum, afturendinn vísaði að framrúðunni, afturendinn er í sömu hæð og höfuðið á mér, og ég gyrði niður um hana og höfuðið er bara þarna.“

Þegar leikarinn sá kollinn áttaði hann sig á því að hann þyrfti að takast á við aðstæðurnar og taka á móti barninu. Það var ekki tími til þess að hafa óþarfa áhyggjur. Hann athugaði hvort naflastrengurinn væri nokkuð flæktur utan um hálsinn á barninu. „Einn rembingur í viðbót og hún var komin út. Þetta gerðist allt á þremur mínútum.“

mbl.is