„Var svo verkjuð að ég grét mig stundum í svefn“

Það tók á að fæða Camillu Eir en stúlkan hefur …
Það tók á að fæða Camillu Eir en stúlkan hefur verið algjör engill síðan. Ljósmynd/Aðsend

Sandra Björk Steinarsdóttir, verslunarstjóri í Lindex á Egilsstöðum, varð ólétt þegar hún var 22 ára. Meðgangan og fæðingin var erfið og var Sandra rúmliggjandi í þrjá sólahringa eftir fæðinguna. Camilla Eir sem verður þriggja ára seinna á árinu er hins vegar sólargeislinn í lífi móður sinnar.

Það voru töluverð viðbrigði fyrir Söndru að verða móðir. Líðan Söndru er þó betri en mánuðina eftir fæðingu. Þunglyndið minnkaði líka eftir að hún sleit sambandinu við barnsföður sinn en þau eru góðir vinir í dag. „Eftir að ég varð mamma breyttist lífið talsvert. Fyrir vinnualka eins og mig var erfitt að átta sig á því að „þurfa“ að vera heima með lítilli mannveru sem þarf að hugsa um allan sólarhringinn. Ég átti erfitt með þessa tíma og lokaði mig mikið af, vildi lítið vera í kringum fólk. Ég var minna að hitta vinkonur mínar þar sem þær eru allar barnlausar og ekki alltaf hægt að stökkva til með litlu baunina. Í dag er ég loksins komin í betri rútínu og líður betur,“ segir Sandra. 

Sandra var alveg tilbúin í að verða mamma þegar hún komst að því að hún væri ólétt. „Eftir að ég hafði ælt og liðið illa fyrstu 20 vikurnar þá fór mér ekki að lítast eins vel á þetta en það var alltaf aftast í huganum að ef meðgangan yrði erfið þá hlyti barnið að vera æðislegt, sem hún er. Sem betur fer fór mér að líða betur á 20. til 30. viku en þá byrjaði aftur vanlíðan og þurfti ég að hætta í vinnu vegna mikilla veikinda, yfirlið, uppköst og þunglyndi. Ég hélt að ég væri með allt á hreinu þegar stelpan kom í heiminn en var hreinlega buguð fyrstu mánuðina.“

Camilla Eir verður þriggja ára seinna á árinu.
Camilla Eir verður þriggja ára seinna á árinu. Ljósmynd/Aðsend

Fæðingin var mjög erfið

Sandra fór alla leið til Akureyrar til þess að fæða barnið. „Eftir erfiða meðgöngu átti ég tíma í gangsetningu á 41. viku. Sem betur fer þurfti ég ekki að mæta í hana þar sem hún lét sjá sig daginn áður. Ég hafði verið á Akureyri í tvær vikur og orðin ansi þrútin og þreytt. Við vorum á Glerártorgi í kringum hádegi 27. október og ég átti mjög erfitt með gang. Við fórum síðan í kaffi og ég harkaði þvílíkt af mér verkina þangað til að við fórum aftur upp í íbúð. Mamma mín var með okkur þarna og henni leyst ekkert á mig. Við vorum farin að íhuga það að hringja upp á sjúkrahús þegar að ég fann einhvern dynk. Þarna um 16:00 losnaði slímtappinn og svo bara hætti ekki að flæða úr mér legvatnið.

Við komum upp á deild klukkan 17:00 og þar beið mín 17 tímar af hríðum og verkjum. Við reyndum flest eins og að fara í bað, fá mænudeyfingu og glaðloft. Loksins gat ég dottað inn á milli hríða. Þegar vaktaskipti voru um morguninn þá var athugað með útvíkkun og buðu þær mér að prufa að rembast þar ég var komin með 9,7 í útvíkkun. Ég var í  tvo tíma að reyna remba henni út og eftir það voru góðar 45 mínútur sem tók að ná fylgjunni úr. Ljósmóðirin endaði á því að ná í hana og ég hélt ég myndi deyja við það augnablik, hún var pikkföst. 

Eftir þennan langa sólahring var farið með stelpuna upp á vökudeild þar sem hún var þar í einn til tvo sólahringa í hitakassa. Það var gott þar sem þau gátu gripið strax inn í og ég var rúmliggjandi í þrjá sólahringa svo ég átti erfitt með að sinna henni. Það blæddi slatta og ég var svo verkjuð að ég grét mig stundum í svefn.“

Mæðgurnar Sandra og Camilla eru góðar vinkonur.
Mæðgurnar Sandra og Camilla eru góðar vinkonur. Ljósmynd/Aðsend

Stór en góð ákvörðun að slíta sambúð

„Sama dag og við komum heim fór barnsfaðir minn beint að vinna og ég var mikið ein með stelpuna. Ég hef alltaf fengið aðstoð frá ömmunum og öfunum en lokaði mig síðan oft af því ég vildi ekki að einhver væri með hana. Eftir að við hættum saman hefur þunglyndið mitt minnkað þar sem ég fór meira að hugsa um sjálfa mig. Þó svo að það sé alltaf stór ákvörðun að slíta sambúð, þá fann ég að ég varð að gera það sem er gott fyrir andlega og líkamlega heilsu. Við erum góðir vinir enn þá og skiptum viku og viku ásamt því hjálpumst við af ef það þarf að hliðra dögunum til,“ segir Sandra. 

„Persónulega finnst mér ekki meiri vinna að vera einstæð þar sem við skiptum viku og viku en það er alltaf eitthvað púsl í kringum vinnuna. Við komumst vonandi í góða rútínu eftir sumarið. Kostirnir finnst mér vera að ég fæ líka frí inn á milli, sem skiptir miklu máli,“ segir Sandra sem hefur svo mikið að gera í vinnu og móðurhlutverkinu að hún hefur ekki tíma til að bera sig saman við glansmyndir á samfélagsmiðlum. 

Sandra Björk Steinarsdóttir á góða að á Egilsstöðum.
Sandra Björk Steinarsdóttir á góða að á Egilsstöðum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert