Var tilbúin að eignast barnið

Meghan hertogaynja af Sussex er hamingjusöm tveggja barna móðir.
Meghan hertogaynja af Sussex er hamingjusöm tveggja barna móðir. AFP

Harry og Meghan, hertogahjónin af Sussex, eignuðust sitt annað barn þegar dóttir þeirra kom í heiminn föstudaginn 4. júní. Vinur þeirra segir að Meghan hafi ekki getað beðið eftir því að eignast annað barn. 

Þrátt fyrir fjölskylduerjur hafði Meghan það virkilega gott síðustu vikurnar fyrir fæðingu barnsins. „Hún var í góðu skapi og geislaði hreinlega,“ sagði vinur hennar við People eftir fæðinguna. „Hún var bara tilbúin að eignast þetta barn.“

Hertogaynjan hafði í nægu að snúast áður en Lilibet Díana fæddist og var á fullu að útrétta áður en stúlkan kom í heiminn. Hinn tveggja ára gamli Archie er byrjaður á leikskóla fyrir hádegi nokkra daga í viku. „Hann er orðinn nógu stór til þess að lifa eigin lífi,“ sagði heimildarmaður People. „Hann elskar leikskóla og útiveru.“

Harry og Meghan hafa verið mjög þakklát fyrir síðustu mánuði eftir að Meghan missti fóstur síðasta sumar. Meghan lýsti gríðarlegri sorg þeirra í pistli í New York Times í nóvember í fyrra. 

Lilibet Díana er sögð hafa fyllt heimili þeirra af gleði. „Þau eru svo hamingjusöm,“ sagði vinurinn. „Barnið stykir það að þau eru að festa rætur hér í Bandaríkjunum og hefja nýtt líf – eins konar nýtt upphaf.“

Fyrir eiga þau Harry og Meghan soninn Archie.
Fyrir eiga þau Harry og Meghan soninn Archie. AFP
mbl.is