Hlutgerð sem barn og ber sár vegna þess

Það muna margir eftir leikkonunni Misha Barton úr þáttunum The …
Það muna margir eftir leikkonunni Misha Barton úr þáttunum The O.C. sem sýndir voru rétt eftir aldamótin síðustu. mbl.is/Instagram

Leikkonan Misha Barton hefur þurft að vinna í flóknum áföllum tengt því að vera hlutgerð sem barn í kvikmyndum. Barton deilir sögu sinni í viðtali við tímaritið Harpers Bazaar því hún vonar að ekkert barn þurfi að ganga í gegnum það sama og hún gerði.  

Þegar hún lék hlutverk í kvikmyndinni Lawn Dogs sem kom út árið 1997, sem fjallaði meðal annars um kynferðislegt ofbeldi gegn barni, reyndu starfsmenn myndarinnar að vernda hana fyrir efni sögunnar. Það dugði þó skammt. 

„Þótt allir á tökustað gerðu sitt besta til að vernda mig fyrir söguþræðinum varð ég mjög fljótt meðvituð um að efni kvikmyndarinnar var efni sem fór yfir mörkin mín. Ég upplifði það meðal annars á kynningarfundum með fjölmiðlum í tengslum við frumsýningu kvikmyndarinnar.“

Barton staðhæfir að efni kvikmynda ætlaðra ungu fólki sé vanalega kynlíf og kynþokki. 

„Í kvikmyndinni Pups kyssti ég í fyrsta skiptið leikara fyrir framan myndavélina. Kvikmyndin varð vinsæl í Asíu og ég varð vinsæl sem kyntákn, þá einungis þrettán ára að aldri.“

Álag setti einnig strik í reikninginn því þótt leikkonan hafi einvörðungu verið átján ára að aldri þurfti hún að vinna jafn mikið og leikarar sem voru helmingi eldri en hún. 

„Ég var hrein mey á þessum tíma en fann fyrir mikilli pressu frá umhverfinu og einnig samfélaginu að hafa kynmök. Ég sló til og missti meydóminn og þá var bara eins og snjóbolti væri farinn að rúlla. Ég var mikið á milli tannanna á fólki og þá sér í lagi eftir að ég byrjaði að hitta karlmenn á stefnumótum.“

Leikkonan segir að hún hafi ekki viljað yfirgefa heimili sitt af ótta við ljósmyndara gulu pressunnar í Bandaríkjunum.

„Gula pressan gekk mjög langt. Þeir keyptu síma fyrir heimilislausa einstaklinga sem bjuggu nálægt þeim stöðum sem ég heimsótti. Ljósmyndarar eltu bílinn minn, reyndu að klifra yfir grindverkið við heimili mitt og stofnuðu mér og sér sjálfum í hættu. Ég hef því upplifað að vera innilokuð heima löngu áður en við þurftum öll að halda okkur innandyra vegna kórónuveirunnar.“ 

Barton talar um að þessi athygli hafi haft mikil áhrif á andlega líðan hennar sem fór versnandi með árunum. Hún líkir eltingaleik gulu pressunnar við þráhyggju og fíkn. 

„Það sem gerðist var að ég fékk flókna áfallastreitu vegna frægðarinnar. Það sem kom mér í uppnám mörgum árum seinna var að heyra smell í ljósmyndavélum. Það var nóg að heyra í myndavél, þá fékk ég ofsakvíða og mikla vanlíðan.“

Leikkonan leggur áherslu á ástæðu þess að hún er nú að stíga fram og deila sögu sinni. 

„Virði hverrar manneskju er mælt í andlegri heilsu hennar. Við þurfum að setja heilbrigð mörk í kringum ungar stúlkur í kvikmyndaiðnaðinum og leyfa þeim að vera börn. Réttur hverrar konu er að hún sé örugg. #Metoo-byltingin hefði þurft að koma miklu fyrr en ég er þó fegin að hún skuli vera í hámæli núna. Ég ætla ekki að láta mitt eftir liggja heldur segja hlutina eins og þeir eru og hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér.“

mbl.is