Sjaldséðar myndir af sænska prinsinum

Sænska prinsessan Madeleine
Sænska prinsessan Madeleine AFP

Sænska prinsessan Madeleine er ekki vön að birta myndir af einkasyninum Nikulási prins á Instagram en breytti útaf vananum nú á dögunum þegar þau fögnuðu sex ára afmæli hans. Litli prinsinn er algjör gullmoli á myndinni þar sem hann hallar höfðinu að stýri á farartæki sem virðist vera golfbíll og í bakgrunni glittir í fallega strandlengju.

Mamman lætur eftirfarandi texta fylgja með myndinni: „Til hamingju með afmælið, kæri Nikulás! Við elskum þig til tunglsins og aftur til baka. Haltu áfram að aka vörubílum!“

Madeleine prinsessa er yngsta barn Karls Gústafs Svíakonungs og Silvíu drottningar. Hún er gift bresk-ameríska fjárfestinum Chris O'Neill en þau fluttu til Flórida árið 2018. Saman eiga þau einnig prinsessurnar Leónóru sjö ára og Adríönnu sem er þriggja ára.

mbl.is