„Afahlutverkið eitt það skemmtilegasta sem til er“

Davíð Lúðvíksson hefur búið til lag fyrir öll barnabörnin sín.
Davíð Lúðvíksson hefur búið til lag fyrir öll barnabörnin sín. mbl.is/Árni Sæberg

Davíð Lúðvíksson, véla- og rekstrarverkfræðingur, er án efa einn helsti sérfræðingur í
umhverfi frumkvöðla á Íslandi. Hann er mikill fjölskyldumaður og er á því að afahlutverkið sé eitt það skemmtilegasta sem til er. Þar sem menn eru svo frjálsir en fullir af reynslu sem þeir geta miðlað af. 

Davíð er sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís. Hann er með langan feril að baki í stefnumótunar- og nýsköpunarmálum þar sem hann starfaði m.a. hjá Samtökum iðnaðarins lengi og sem ráðgjafi hjá KPMG í Danmörku. Hann var á dögunum gerður að heiðursfélaga Stjórnvísi, þar sem hann tók á móti viðurkenningu sem forseti Íslands afhenti á viðburði í kringum árleg stjórnendaverðlaun félagsins.

Davíð er skemmtilegur maður og mikil fyrirmynd þegar kemur að heilbrigði og góðum gildum.

Fyllist bjartsýni á framtíð Íslands

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„Hjá Rannís tók ég á árinu 2019 við umsjón með staðfestingarferli vegna skattfrádráttar rannsókna- og þróunarverkefna fyrirtækja. Í maí 2020 var gerð lagabreyting á Alþingi vegna kórónuveirunnar sem fól í sér umtalsverða hækkun á þökum og endurgreiðsluhlutfalli í þessu kerfi.

Þetta er í dag orðið langstærsta stuðningsaðgerð íslenskra stjórnvalda til að hvetja til aukinnar nýsköpunarstarfsemi fyrirtækja á Íslandi. Um það bil þrefaldur Tækniþróunarsjóður sem hefur líka vaxið mikið. Hvatning stjórnvalda á síðasta ári skilaði sér svo sannarlega, því við fengum 2,5-faldan skammt umsókna á seinni umsóknarfresti síðasta árs, miðað við það
sem áður hefur mest borist. Afgreiðsla umsókna er þó að klárast núna töluvert fyrr en áður vegna þess að við innleiddum nýtt straumlínulagað umsókna- og umsýslukerfi sem gerir okkur kleift að vinna þessa vinnu af enn meiri skilvirkni.

Ég hef komið talsvert að hönnuninni á þessu kerfi í samstarfi við tölvufólkið okkar. Maður fyllist bjartsýni á framtíð Íslands þegar maður skoðar öll þessi frábæru verkefni frá sístækkandi flóru nýsköpunarfyrirtækja sem starfrækt eru hér á landi. Kosturinn í þessu kerfi fyrir ríkissjóð liggur í að fyrirtækin þurfa sjálf að fjármagna vinnuna við verkefnin og greiða af henni skatta svo sem staðgreiðsluskatt launa. Ríkissjóður er því að fá verulegar skatttekjur af
þessum verkefnum löngu áður en kemur að endurgreiðslu. Við erum þessa dagana einmitt að ljúka afgreiðslu allra síðustu þeirra 545 umsókna sem bárust á síðasta ári en fyrirtækin fá svo endurgreiðsluna þegar skattauppgjör þeirra liggur fyrir um mánaðamótin október-nóvember næstkomandi.

Hvað gerir þú eftir vinnu til að hlúa að þér?

„Ég reyni að komast í líkamsrækt eða sund eftir vinnu til að slaka á en við Emma konan mín eigum skemmtilegt áhugamál saman í bridge sem keppnisíþrótt. Það hefur þó ekki gengið allt of vel að sinna því áhugamáli, meðan kórónuveiran hefur komið í veg fyrir keppnir í raunheimum. Við höfum þó getað stundað þetta í rafheiminum, sem orðinn er ansi öflugur á þessu sviði. Ég er líka með briddsklúbb með æskuvinum mínum, sem við stofnuðum þegar við vorum 12 ára og höfum haldið úti óslitið síðan. Klúbburinn okkar sem við köllum Fimm hjörtu er því orðinn meira en hálfrar aldar gamall. Við erum fimm og skiptumst á að bjóða heim einu sinni í viku í öllum r-mánuðunum. Við byrjum kvöldin klukkan sex á að fá okkur gott að borða, áður en við setjumst að spilum til klukkan hálfellefu. Við hefjum vetrarspilamennskuna alltaf á septemberferð í sumarbústað til að koma okkur í gang og rifja upp kerfið. Við tökum gjarnan gítara og harmóniku með og spilum þannig saman í tvennum skilningi.

Ylfa, Davíð og Emma í garði fjölskyldunnar.
Ylfa, Davíð og Emma í garði fjölskyldunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Við Emma eigum líka stórt áhugamál í barnabörnunum okkar, sem eru miklir gleðigjafar og halda okkur síungum. Við reynum að hafa þau sem mest hjá okkur, þau sem búa hér á landi.

Það hefur verið smá sprell hjá mér að semja lög og leirburðartexta fyrir hvert barnabarn,
sem ég reyni að syngja með þeim við tækifæri til að halda uppi fjörinu. Við grínumst mikið með þetta, ekki síst núna með yngstu dúllunni okkar henni Ylfu sem er rúmlega ársgömul
í fjögurra mánaða dagvist hjá ömmu, þar sem hún hefur ekki fengið pláss á leikskóla enn þá.

Hún nýtur þeirra forréttinda sem eina stelpan í hópnum að hafa fengið tvö lög frá afa. Stundum dansar hún við lögin sín, en þegar hún er búin að fá nóg af leirburðinum, labbar hún bara í burt úr djamminu hjá afa.“

Hvað getur þú sagt mér um heimilið og áhuga þinn á hönnun?

„Varðandi heimilið nýt ég þess að vera kvæntur frábærum innanhússarkitekt, henni Emmu Axelsdóttur, sem hefur hannað heimilið okkar frá A til Ö. Hún byggir alla sína hönnun á vönduðum þarfagreiningum, þannig að vel er hugað að sérhverri lausn.

Hún hefur líka teiknað og látið sérsmíða mörg af húsgögnunum okkar sem hönnuð eru með okkar þarfir í huga. Mér finnst sem dæmi náttborðin okkar alger snilld hjá henni. Hver hefur ekki áhuga á hönnun sem á svona konu?“

Best að færa fólki nýjar lausnir

Sjálfur hefur Davíð komi að því að stjórna stefnumótunarferlum í ýmsum hönnunargreinum, þar með talið fyrstu stefnumótunarverkefnum fyrir Hönnunarmiðstöð og Skapandi greinar.
„Það var afar skemmtilegt að kynnast og vinna með öllu því frábæra fólki á því sviði. Við Emma reynum líka að fylgjast með á Hönnunarmars þegar eitthvað forvitnilegt er í gangi.“

Nú hefur þú mikla reynslu af nýsköpun. Hvaða ráð áttu fyrir ungt fólk sem er með góðar hugmyndir?

„Það sem mestu skiptir þegar fólk og fyrirtæki eru að takast á við að skapa nýjar lausnir, sem eiga að hafa erindi á markað, er að tengja sem best við þær þarfir sem lausninni er ætlað að mæta. Þekkingin á þörfinni og tengsl við notendur á þeim markaði sem maður ætlar að starfa á er lykillinn að allri góðri hönnun, nýsköpun og reyndar líka árangri í starfi hvar sem þú starfar.

Vandaðu þig við að finna góða lausn með fyrsta viðskiptavini þínum og hann mun mæla með þér við fimm vini sína.“

Hroki er mest eyðileggjandi í fari fólks

Hvað er það mikilvægasta í lífinu?

„Fyrir mér er jafnvægi og sátt við sjálfan þig og það umhverfi sem við lifum í, lykill að hamingjusamlegu lífi. Við hér á Íslandi njótum ótrúlegra forréttinda sem við þurfum að umgangast af þakklæti og auðmýkt.

Davíð Lúðvíksson
Davíð Lúðvíksson Árni Sæberg

Auðvitað stendur fjölskyldan okkur öllum næst og við reynum að hlúa að ungviðinu okkar eftir mætti, en við þurfum líka að vera tilbúin að leggja eitthvað af mörkum til þess samfélags, nær og fjær, sem við lifum í.

Hver og einn velur sér þann vettvang til lífs og starfa sem stendur honum næst, sem stundum er tilviljunum háð og þeim ákvörðunum sem teknar eru. Ég hef verið heppinn að
hafa alltaf haft gott fólk og aðstæður í kringum mig, sem hafa einkennst af gleði og árangurssinnuðu hugarfari. Ég hef einnig valið mér menntun og starfsvettvang þar sem
þessi gildi fá að njóta sín og fengið að vinna með góðu fólki. Ef ég horfi til baka, þá er gott til þess að hugsa þurfa ekki burðast með reiði eða öfund gagnvart öðru fólki, né sektarkennd vegna þess að hafa troðið á tám annarra – ég held að hroki sé mest eyðileggjandi í fari fólks.“

Hvaða ráð myndir þú gefa sjálfum þér tvítugum?

„Trúðu á sjálfan þig og komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við sjálfan þig, segir í góðri bók. Veldu þér menntun með það í huga að hámarka möguleika þína á þeim vettvangi sem þú vilt starfa í framtíðinni og taktu hluta af menntun þinni erlendis ef þú átt
þess kost. Reyndu af afla þér starfsreynslu í sumarleyfum og í tengslum við þau verkefni sem þú velur í tengslum við nám þitt, þannig að þú getir vísað til þess þegar kemur að því að sækja um þín fyrstu störf eftir að námi lýkur. Veldu þér lokaverkefni í námi sem hámarka möguleika þína á að komast í draumastarfið að námi loknu. Mundu að samkeppnin er mikil, en þú verður samt valinn á grunni persónulegra eiginleika þinna, fremur en reynslu í þínu
fyrsta starfi. Ræktaðu því sjálfan þig sem manneskju.“

Hátískan og íslensk hönnun hefur áhrif

Hvernig er öðruvísi að vera afi en pabbi?

„Afahlutverkið er klárlega eitt það skemmtilegasta sem til er. Þá er maður einhvern veginn svo frjáls, en svo fullur reynslu sem gaman er að miðla af. Í pabbahlutverkinu er ábyrgðin enn meiri, reynslan minni og þú tekur aldrei frí frá því hlutverki. En ástin á fólkinu þínu er lykillinn að farsældinni, hvort heldur sem þú ert afi, pabbi, mamma eða amma. Textinn í laginu hjá næstyngsta afastráknum samanstendur einmitt af þessum fjórum orðum
sem endurtekin eru í sífellu í mismunandi röð eftir hljómfallinu. Alger hittari sem auðvelt er að læra – náði meira segja inn á vinsældarlista hjá vinum okkar í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum.“

Þú ert alltaf smart til fara – ertu með áhuga á tísku og hönnun?

„Ég er nú ekki mikill merkjamaður og kaupi sjaldan dýr föt á hæsta verði. Ég er kannski svolítið meiri útsölukall í fatakaupum þegar ég má vera að og finnst finnst ekkert leiðinlegt að fara í fatabúðir með konunni í útlöndum þegar tækifæri gefast. Ég reyni alla vega að forðast föt sem fara mér illa og mér líður ekki vel í. Varðandi tískuna þá naut ég þeirrar ánægju að vinna með fata- og tískuhönnuðum að tveimur fyrstu stefnumótunarferlum fyrir fagfélag þeirra hér á landi, þannig að kannski lærði ég eitthvað af því flotta fólki og þeirri fagmennsku sem þar var á ferð. Hún dóttir okkar Elísabet var líka fyrirsæta í hátískuheiminum í mörg ár, þannig að auðvitað vorum við foreldrar hennar að fylgjast með í hennar heimi.“

Taka sér hvíld frá stöðugu skipulagi í sumarleyfinu

Hvert ætlarðu í sumarleyfinu þínu?

„Við erum alltaf svolítið óskipulögð með sumarfríin okkar, kannski bara af því við viljum reyna að hvíla okkur svolítið frá vinnu og því stöðuga skipulagi sem hún krefst. Það er gott að geta vaknað í fríinu og þurfa ekki að bruna eitthvað af stað.

Davíð Lúðvíksson segir dásamlegt að vera afi.
Davíð Lúðvíksson segir dásamlegt að vera afi. mbl.is/Árni Sæberg

Stundum þarf líka að sinna viðhaldi á húsi eins og síðasta sumar þar sem ég naut sumarblíðunnar uppi á þaki á húsinu okkar við málarastörf. Við erum þó í tveimur gönguhópum með góðum vinum sem við sláumst í för með þegar það hentar án skyldumætingar. Við verðum alla vega í Þórsmörk í byrjun júlí með góðum vinum, en Elísabet dóttir okkar kemur með manni sínum og tveimur sonum frá New York í þá ferð með okkur.

Hluti af hópnum ætlar að ganga Fimmvörðuháls, en við ætlum bara að taka á móti þeim í
Þórsmörkinni þar sem við höfum áður farið yfir hálsinn. Þá ætlum við að eiga góða samveru í Reykholtsdal í annarri viku í júlí, með öllu okkar fólki, börnum, tengdabörnum og
barnabörnum. Kannski sláumst við svo eitthvað för með hinum gönguhópnum okkar sem verður á Snæfellsnesi undir lok júlí. Annað er ekki ákveðið, nema kannski ein karlaveiðiferð með bræðrum mínum í lok ágúst, en við reynum að fara eina ferð í fluguveiði saman á sumri.

Við Emma erum svo að gæla við að taka okkur tveggja vikna frí á Madeira í nóvember og taka þar þátt í alþjóðlegu briddsmóti sem eyjaskeggjar hafa skapað skemmtilega hefð um.

Mótið hefur verið vel sótt af Íslendingum á undanförnum áratugum, en við höfum mætt þarna sjö sinnum áður, en orðið að sleppa síðustu tveimur árum vegna veirufársins.“

Tekurðu gítarinn þinn með?

„Hver veit? Hann fær kannski að fljóta með í Þórsmörk, en ég er nú lítið að troða söng upp á eldra fólkið mitt þótt ég reyni að syngja sem mest með barnabörnunum því það léttir allra lund.“

mbl.is