„Sá það snemma að orlof er rangnefni“

Ljósmynd/Aðsend

Jóhann Alfreð Kristinsson er 36 ára uppistandari, lögfræðingur, spurningahöfundur og tveggja barna faðir í Laugardalnum í Reykjavík. Þessa dagana undirbýr hann lokasýningu á uppistandssýningunni „Allt í gangi“ sem sló í gegn fyrir Covid en það er Jakob Birgisson sem stendur að sýningunni með Jóhanni.

Blaðamaður hitti Jóhann Alfreð á æfingasvæði Golfklúbbs Reykjavíkur á dögunum en hann byrjaði í golfi í fyrrasumar og stefnir á að ná forgjöfinni undir aldur sinn í lok sumars. Við spurðum Jóhann hvernig gengi eftir að nýjasti fjölskyldumeðlimurinn kom í heiminn síðasta vetur en byrjuðum á að forvitnast um fjölskyldusamsetninguna:

„Við erum fjögur, ég og Valdís konan mín, Benedikt Elí, fæddur í júlí 2017, og svo nýjasti meðlimur fjölskyldunnar, hún Ellý, sem fæddist hinn 23. febrúar síðastliðinn. Semsagt vísitala af hætti Hagstofunnar,“ segir Jóhann Alfreð og smellhittir kúluna með drævernum og bætir við:

Ljósmynd/Aðsend

„Það er dásamlegt að fá nýja manneskju í hendurnar og fylgjast með henni vaxa og dafna. Margir þekkja hið svokallaða „babymoon“, tímann eftir að þú eignast barn og ekkert annað virðist komast að. Það má segja að Covid hafi eiginlega ýkt þetta því samfélagið var í algjörum hægagangi fyrstu vikurnar eftir að Ellý kom í heiminn. Þetta hefur því verið mjög notalegur tími.“

„Ég var aldrei nein barnagæla“

Þegar við færum okkur frá Básum yfir á æfingaflatirnar berst talið að föðurhlutverkinu.

„Föðurhlutverkið kemur manni á óvart á hverjum degi. Fyrst er það auðvitað að læra að þykja skilyrðislaust svona vænt um einhverja manneskju og í kjölfarið minna vænt um áklæðið á sófanum sínum. Ég var aldrei nein barnagæla. Átti ekki yngri systkini og hafði varla haldið á barni áður en ég eignaðist strákinn minn.

Ég var eiginlega alveg viss um að þetta væri ekkert fyrir mig og því kom það skemmtilega á óvart hversu fljótt maður vex inn í hlutverkið og er kominn í alls kyns stúss sem maður bjóst ekki endilega við að ráða við. En foreldrahlutverkið er tímafrekt og ég hef eiginlega ekki hugmynd um hvað ég gerði við allan tímann áður en börnin komu til sögunnar.“

Ljósmynd/Aðsend

„Upplifa sig eins og illa gerðan hlut“

Þegar við leggjum golfpokana frá okkur og tökum pútterana úr pokanum berst talið að fæðingum en tilvonandi feður eru oft kvíðnari en barnsmóðirin fyrir fæðingu fyrsta barns. Oft á tíðum eru þeir áhyggjufullir yfir því að hafa ekki stjórn á aðstæðum þegar komið er inn á fæðingardeildina og finna fyrir vanmætti. Við spurðum Jóhann Alfreð hvernig honum gekk að fóta sig í fæðingunum.

„Það er ekki hægt að bera saman okkar fyrstu fæðingu og þá síðari. Í þeirri fyrri var ég alveg á nálum, viss um að ég væri bara fyrir og réð varla við einfalt verkefni eins og láta renna í baðið á fæðingarstofunni. Meðan sigldi konan mín eins og stál í gegnum þetta. Held að margir pabbar upplifi sig stundum eins og illa gerðan hlut meðan á fæðingu stendur enda aðkoma okkar auðvitað með minnsta móti.

Í seinni fæðingunni býr maður að fyrri reynslu og var þess vegna mun rólegri í öllu ferlinu, með einstaka ferðum í djúsvélina samt. En fæðing er stórkostleg og tilfinningin við að sjá barnið sitt koma í heiminn er auðvitað ólýsanleg,“ segir hann og setur niður fimm metra pútt og virðist jafn öruggur á flötinni og á fæðingardeildinni.

Ljósmynd/Aðsend

„Frekar fæðingarvinna en fæðingarorlof“

Því næst berst spjallið að daglegu amstri og blaðamaður er forvitinn að vita hvernig virkur dagur lítur út hjá fjölskyldunni og hvernig Jóhann Alfreð ætlar að nýta sér fæðingarorlofið. Jóhann setur hins vegar upp smá svip í kjölfarið á spurningunni um fæðingarorlof.

„Ég er mjög spenntur fyrir því þegar ég fer í fullt orlof með stúlkuna, enda einstakur tími. En ég sá það snemma að orlof er rangnefni. Ég var einn með Benedikt frá því að hann var sjö mánaða til rúmlega níu mánaða aldurs og það var ekkert orlof. Frekar fæðingarvinna enda fylgja endalausir snúningar. En samhliða því verður farið í spássitúra og þess notið að eiga tíma saman. Við stefnum líka á að fara með hana í ungbarnasund, sem er einstaklega skemmtilegt.“

Sem stendur eru þau bæði í orlofi, Valdís í fullu og Jóhann hálfu, og hentar það fjölskyldunni. Ellý nær að sofa aðeins fram eftir og þau í rólegum takti á morgnana og geta leyft sér að sofa aðeins lengur en venjulega.

„Við reynum að hafa morguninn rólegan og eiga smá kósístund saman, enda þekkja væntanlega allir foreldrar þriggja ára barna að það getur verið þolinmæðisverk að koma þeim í fötin og út á leikskólann og lúxus þessa dagana að geta leyft sér minna stress.“

Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaður þakkar Jóhanni Alfreð fyrir gott feðraspjall og fína golfæfingu en spyr hann að lokum hvað fjölskyldan hyggst gera í sumar.

„Við ætlum að ferðast svolítið um landið í júlí þegar strákurinn fer í sumarfrí, stefnum bæði vestur á firði og norður í land. Nú þegar sér fyrir endann á faraldrinum er fjölskyldan líka farin að láta sig dreyma um að komast kannski í stutta ferð til Kaupmannahafnar síðsumars eða með haustinu. Smá orlofsferð. Það er orðið ansi langt frá síðustu utanferð og maður sér því nokkra daga í Kóngsins í algjörum hillingum.“

Síðasta uppistandssýning Jóhanns Alfreðs og Jakobs Birgissonar, „Allt í gangi“, verður í Tjarnarbíó föstudaginn 25. júní og fer miðasala fram á Tix.is.

mbl.is