Yfirvegaðri og þroskaðri með fjögur börn

Heiðar og Kolfinna eiga samtals fjögur börn, þau Evu Björk …
Heiðar og Kolfinna eiga samtals fjögur börn, þau Evu Björk Austmann, Ingibjörgu Maríu, Emilíu Þórunni Austmann og Kristin Leví Austmann Beck.

Heiðar Austmann, útvarpsstjarna á K100, varð faðir, eignaðist dreng í janúar með unnustu sinni, Kolfinnu Guðlaugsdóttur, bókara og naglafræðingi. Heiðar og Kolfinna eiga samtals fjögur börn og því nóg að gera á stóru heimili þegar allir eru heima. 

„Að eignast barn er alltaf dásamlegt alveg sama á hvaða tíma það er. Hins vegar fundum við ekkert brjálæðislega mikið fyrir því að hafa eignast strákinn á tímum Covid þar sem við vorum hvort eð er mikið heima og fórum ekki mikið út sökum veðurs og slíks,“ segir Heiðar um hvernig það var að eignast barn á tímum heimsfaraldurs. 

„Auðvitað var það þannig að við gátum ekki fengið nema okkar allra nánasta fólk í heimsókn en það var bara dásamlegt. Við fundum vissulega fyrir því fyrstu dagana eftir fæðinguna þar sem við eyddum nokkrum dögum á Barnaspítala Hringsins. Guttinn fæddist mánuði fyrir tímann og vorum við í fimm daga í umönnum hjá frábæru fólki á BSH. Út af Covid mátti enginn koma og heimsækja okkur og máttum við heldur ekki yfirgefa spítalann. Ef ég hefði gert það þá hefði mér verið neitað inngöngu aftur. Sem betur fer eigum við góða að sem gátu farið og sótt fyrir okkur fatnað heim, farið í búð fyrir okkur og þess háttar. Vinir okkar keyptu skyndibita fyrir okkur þegar við vorum í þeim fíling og allir voru boðnir og búnir til að skottast fyrir okkur ef við vildum.“

Strákapabbi er nýtt hlutverk

Heiðar segist vera léttlyndur pabbi að eigin sögn. Hann reynir eftir bestu getu að feta hinn gullna meðalveg, hafa aga á heimilinu og vera skemmtilegur. „Mér hefur tekist ágætlega til með það í gegnum tíðina held ég. Mér finnst gaman að gera hluti með krökkunum mínum. Finnst gaman að fara í sund, í einhverja útivist með þeim eins og að ganga, hjóla eða slíkt,“ segir Heiðar sem leggur einnig mikið upp úr því að sýna áhugamálum barna sinna áhuga og hlusta á það sem þau hafa að segja. „Þegar börnin manns eru annars vegar þá verður maður að gefa sér tíma þó það sé kannski erfitt á köflum sökum vinnu og álags en það er bara svo mikilvægt. Því miður hefur maður ekki alltaf náð að fylgja því en ég er meðvitaður um það og reyni eftir fremsta megni að vera til staðar fyrir börnin mín.“

Heiðar er orðinn nokkuð vel þjálfaður stelpupabbi en var að eignast sinn fyrsta son. Hann vonast til þess að gera soninn að Liverpool-aðdáanda. „Í raun og veru hlakka ég bara til að gera allt með honum. Það er svo margt sem ég hlakka til að kenna honum, hvort sem það er fótbolti, að hjóla, lesa eða hvað sem er. Það væri draumur ef hann myndi hafa jafnmikinn áhuga á fótbolta og ég þannig að við gætum strax byrjað að deila því áhugamáli saman. Að fara með strákinn í fótboltaferð erlendis að sjá Liverpool spila væri auðvitað algjörlega frábært en hvort fótbolti verði hans áhugamál kemur bara í ljós. Ég mun styðja hann í öllum hans áhugamálum líkt og með systur hans. Ég hef aldrei alið upp strák þannig að ég er að renna dálítið blint í sjóinn hvað það varðar. Margir hafa sagt við mig að það sé töluvert auðveldara að eiga við stráka á ungum aldri heldur en stelpur en ég þekki bara ekkert annað en að fást við stelpurnar mínar. Er orðinn nokkuð sjóaður í að flétta hár og velja dress sem passar saman skal ég segja þér. Ég sé fyrir mér að það verði mögulega auðveldara með strákinn, þar hendi ég honum bara í joggingbuxur og bol og málið afgreitt.“   

Heiðar Austmann vonast til þess að fara með syninum Kristni …
Heiðar Austmann vonast til þess að fara með syninum Kristni Leví Austmann Beck á Liverpool-leiki þegar fram líða stundir.

Hefur öðlast meiri ró

Var eitthvað öðruvísi að verða pabbi núna og þegar þú varðst pabbi fyrst? 

„Hann er auðvitað bara fimm mánaða tæplega þannig að það er svo sem ekki komin mikil reynsla á þetta. Held samt að stærsti munurinn liggi bara hjá mér sjálfum. Ég er töluvert rólegri núna heldur en ég var fyrir 11 árum þegar Eva Björk Austmann fæddist. Þegar ég segi rólegri þá meina ég yfirvegaðri og þroskaðri þannig að ég tækla barnamálin öðruvísi. Þá er ég að tala um magakveisur, erfiðar nætur og þannig. Mér líður betur sjálfum og er á svo góðum stað í lífinu að ég held að það skili sér í uppeldinu og að takast á við þau verkefni sem koma varðandi strákinn og fjölskylduna.

Það er auðvitað ekki alltaf hægt að leysa allt af yfirvegun, sérstaklega þegar álagið er mikið en Kolfinna og ég reynum eftir bestu getu að leysa verkefnin af yfirvegun og ró. Síðan er auðvitað töluvert meira líf á heimilinu núna heldur en þegar ég varð pabbi fyrst og á sá stutti nokkrar systur sem vilja vera í kringum hann öllum stundum og eru duglegar við að hjálpa við það sem þarf. Það var ekki þannig hér áður og er sú breyting bara til hins betra.“

Púsluspil að vera í samsettri fjölskyldu

Hvernig gengur að vera í samsettri fjölskyldu? 

„Það hefur gengið upp og niður skal ég þér segja, þó aðallega til að byrja með. Kolfinna unnusta mín og Inga María stjúpdóttir mín voru fljótar að koma og flytja inn til okkar stelpnanna og þá byrjaði púsluspilið. Eðlilega voru árekstrar og pústrar inn á milli en heilt yfir hefur þetta gengið mjög vel. Við erum með tvær af þeim saman í herbergi og eru þær eins og samloka með skinku og osti og ótrúlega góðar vinkonur.

Sú elsta er ein í herbergi en hennar áhugamál eru aðeins öðruvísi heldur en hjá þeim yngri þannig að hún vill fá meiri tíma fyrir sjálfa sig. Þær eru samt allar góðar vinkonur og gera margt saman en svo auðvitað margt hver í sínu lagi og með sínum vinum og vinkonum. Við reynum að láta jafnt ganga yfir þær allar eftir bestu getu. Við erum með ákveðnar reglur sem við óskum eftir að þær fylgi og allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að halda heimilinu okkar allra hreinu. Frágangur og hreinlæti eru svona meginreglurnar á heimilinu en þær þurfa aðallega að hugsa um sín eigin herbergi. Sú elsta nýtur dálítið auka fríðinda sökum aldurs. Fær stundum að vaka lengur og þannig en allt í hófi auðvitað.“

Dæturnar þrjár eru góðar vinkonur.
Dæturnar þrjár eru góðar vinkonur.

Það fæst ekkert gefins í lífinu

Hvernig gengur að leita að bíl fyrir sex manna fjölskyldu?

„Það gengur ekkert allt of vel. Ég er búinn að skoða marga bíla sem koma til greina en einhvern veginn er ég ekki búinn að finna þann rétta fyrir okkur. Plássleysi eða of lítið skottpláss er svona það helsta sem hefur klikkað þegar maður er að leita að bíl og svo er sodann pjatt í pabbanum. Hann er ekki til í að keyra á hverju sem er. Er til dæmis með svakalegt ofnæmi fyrir „strumpastrætóum“ og vil gera allt til að forðast að kaupa þannig tæki. Mann langar að halda kúlinu pínu lengur þó svo maður sé orðinn fjögurra barna faðir. Ég er samt alltaf með augun opin og pabbi minn sömuleiðis. Pabbi er af gamla skólanum og búinn að vera bifvélavirki í einhver 55 ár. Hann kann þetta upp á 10 og við bíðum bara eftir rétta bílnum.“

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Ég vil að börnin mín geri það sem þeim finnst skemmtilegt og lætur þeim líða vel. Ég mun aldrei standa í vegi fyrir því að þau elti sína drauma og ég vil að þau séu hamingjusöm í öllu því sem þau taka sér fyrir hendur. Ég persónulega legg áherslu á að samskipti séu góð hvort sem það er við foreldra, fjölskyldu eða vini. Kolfinna og ég viljum að krakkarnir séu kurteisir og komi fram við annað fólk af virðingu. Við viljum að krakkarnir séu góðir við vini sína og séu til staðar fyrir þá.

Góðir vinir og vinkonur fylgja þér í gegnum lífið. Nánast á hverjum degi minnum við krakkana á að góð samskipti skipta svo miklu máli og ef þú átt góð samskipti við fólk og ert kurteis þá færðu virðingu og kurteisi til baka. Annað sem er mjög mikilvægt er að standa upp fyrir sjálfan sig og láta ekki vaða yfir sig. Það skiptir miklu máli að þau viti hvers virði þau eru og að þau láti ekki bjóða sér hvað sem er. Einnig hef ég lagt mig fram við að þau séu opin og dugleg við að nálgast til dæmis krakka í skólanum. Ef einhver nýr byrjar í skólanum þá segi ég þeim að fara til viðkomandi og bjóða honum eða henni að vera með í því sem þau eru að gera. Ekki skilja út undan og standa með minni máttar. Ef þau sjá að það er verið að stríða einhverjum þá vil ég aldrei sjá að þau taki þátt í því og helst geri sitt til að stoppa það. Okkar von er að við stöndum okkur nógu vel í uppeldinu að börnin okkar verði góðar manneskjur og með ríka réttlætiskennd þegar þau fara út í lífið. Sömuleiðis duglegar hvort sem það er í  vinnu eða námi og átti sig á því að ekkert fæst gefins í lífinu.“

Kolfinna Guðlaugsdóttir og Heiðar Austmann eignuðust dreng í byrjun árs.
Kolfinna Guðlaugsdóttir og Heiðar Austmann eignuðust dreng í byrjun árs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert