Tvíburafréttirnar komu rosalega á óvart

Ísabella Manda er ánægð með bræður sína Frosta Má og …
Ísabella Manda er ánægð með bræður sína Frosta Má og Aron Emil.

Það kom hjónunum Ásthildi Ólöfu Ríkarðsdóttur og Andra Má Magnússyni töluvert á óvart að sjá tvö lítil kríli í 12 vikna sónar í fyrra. Hjónin eignuðust sitt annað og þriðja barn rétt fyrir jól. Hjúkrunarfræðingurinn Ásthildur segir þá Frosta Má og Aron Emil vera mjög ólíka en um leið samrýnda tvíburabræður. 

Ásthildur og Andri Már fóru í snemmsónar þar sem þau fengu staðfest að Ísabella Manda dóttir þeirra, sem verður fjögurra ára í lok júlí, ætti von á systkini. Ekkert benti til þess að tvö börn væru á ferð. 

„Það kom okkur rosalega á óvart að eiga von á tvíburum og öllum í kringum okkur. Við vorum búin að fara í snemmsónar þar sem sást bara eitt kríli og síðan í 12 vikna sónarnum kom í ljós að þetta væru tvö kríli. Það var mikið hlegið, grátið og alveg hægt að segja að þetta hafi verið svolítill tilfinningarússíbani. Pabbinn þurfti aðeins að fá að standa upp og fara fram að fá sér vatnsglas þar sem hugurinn fór gjörsamlega á flug um stærra húsnæði, tvennt af öllu og stærri bíl. Við vorum nýbúin að kaupa okkur stærri bíl þar sem við áttum von á einu barni í viðbót en þegar í ljós kom að það væri von á tveimur börnum þá var sá bíll seldur og keyptur enn stærri. Þetta var klárlega einn skrýtnasti en jafnframt einn besti dagur sem við höfum upplifað, vorum mjög ánægð og þakklát. Það eru tvíburar í fjölskyldum okkar beggja, en enginn í okkar allra nánustu fjölskyldu.“

Ásthildur Ólöf Ríkarðsdóttir og Andri Már Magnússon fóru úr því …
Ásthildur Ólöf Ríkarðsdóttir og Andri Már Magnússon fóru úr því að vera þriggja manna fjölskylda yfir í það að verða fimm manna fjölskylda.

Tvíburameðgangan var svipuð og fyrri meðganga Ásthildar en hún fann þó fyrir töluvert meiri ógleði í byrjun og ældi fyrstu 13 til 14 vikurnar. „Um leið og það var yfirstaðið leið mér rosalega vel. Ég minnkaði við mig vinnu í kringum 25. viku og vann hálfan daginn fram á þrítugustu viku. Það var smá erfitt að hætta að vinna, það er rosalega gott að halda rútínunni og hitta annað fólk en líka mikilvægt að hvílast á lokametrunum. Ég fann fyrir meiri þreytu á þessari meðgöngu heldur en fyrri en annað var bara eins og mér leið mjög vel fram á síðasta dag,“ segir Ásthildur.

Seinni lét bíða eftir sér

„Ég var gangsett komin 37 vikur og fjóra daga þann 17.desember og 19 klukkustundum seinna fæddist Frosti Már (tvíburi A), snemma að morgni 18. desember. Aron Emil (tvíburi B) kom rúmum tveimur tímum seinna sem þykir mjög óvanalegt. Þar sem honum leið mjög vel og hjartslátturinn fínn var ákveðið að leyfa honum bara að taka sinn tíma í þetta,“ segir Ásthildur.

Frosti Már og Aron Emil eru samrýndir bræður.
Frosti Már og Aron Emil eru samrýndir bræður.

Hún segir að tvíburafæðingin hafi gengið betur en fyrsta fæðingin hennar. Á sama tíma var skrítið að vera búin að fæða eitt barn og eiga enn eftir að fæða annað. 

„Ég var rosalega heppin með starfsfólkið sem kom að fæðingunni hjá okkur. Það studdi mjög vel við bakið á mér og okkur. Ég var svo lánsöm að tvær bekkjarsystur mínar úr hjúkrunarfræði voru óvænt viðstaddar, önnur þeirra tók einmitt á móti Aroni Emil (tvíbura B) en hann kom sitjandi. Það var smá spes tilfinning að vera búin að fæða eitt barn og vera enn þá í virkri fæðingu og geta ekki bara slakað á og notið þess að kynnast og knúsast heldur þurfa að halda áfram. Ég var með slæma fæðingarreynslu frá fyrri fæðingu svo það var yndislegt að þessi fæðing hafi gengið svona vel enda með með heilan her af fólki inn á fæðingarstofunni. Það eru alltaf tveir læknar, barnalæknir, tvær ljósmæður og hjúkrunarfræðingur frá vökudeild viðstaddir tvíburafæðingar svo það var nóg um að vera.“

Lítið sofið um jólin

„Fyrstu dagarnir voru rosalega krefjandi. Við fórum heim daginn eftir að ég átti þar sem allt gekk mjög vel. Við fengum yndislega heimaljósmóður en hún hafði verið með okkur nóttina áður en strákarnir fæddust og náði að taka á móti tvíbura A. Hún rétt svo missti af tvíbura B þar sem það var komið langt fram yfir vaktaskipti hjá henni. Strákarnir brögguðust rosalega vel og náðu fæðingarþyngdinni sinni fyrir fimm daga skoðunina sem við fórum í á Þorláksmessu. Þeir voru báðir svolítið gulir og þurftum við að fylgjast vel með þeim og taka þá upp á eins og hálfs til tveggja tíma fresti og gefa þeim að drekka. Því var lítið sofið í kringum jólin og vöknuðum við yfirleitt saman þessar nætur, þeir drukku hjá mér og hann lét þá ropa.“

Fæðing tvíburanna gekk vel en sá fyrr kom tveimur tímum …
Fæðing tvíburanna gekk vel en sá fyrr kom tveimur tímum á undan bróður sínum.

„Svo þurfti auðvitað að vakna með prinsessunni á heimilinu á morgnana svo jólin eru smá í þoku hjá okkur. Það er reyndar ekki hægt að kvarta þar sem hún er mikil b-manneskja og hefur greinilega fundið að mamma og pabbi væru þreytt. En eftir að gulan var yfirstaðin og brjóstagjöfin komin á gott ról þá komst allt í rútínu hjá okkur. Þeir drukku á þriggja tíma fresti og alltaf á sama tíma svo þeir tækju lúr á sama tíma. Ég held að það hafi hjálpað okkur mjög mikið varðandi álagið að hafa þá svona samstillta og ef annar vaknaði til að drekka þá var hinn vakinn. Svo þegar þeir urðu fjögurra mánaða fengu þeir RS-vírus og urðu mjög veikir og þá fór allt sem heitir rútína í vaskinn. Það er allt að komast í sama horf núna auk þess sem þeir eru byrjaðir að borða fasta fæðu og finnst það mjög gott.“

Hörkuvinna en skemmtilegt

Ásthildur segir kannski ekki auðvelt að vera með tvö ungbörn en margt er þó einfaldara en þau bjuggust við. 

„Það er óhætt að segja að þetta hefur verið örlítið einfaldara ferli heldur en við vorum búin að gera ráð fyrir. Þeir eru báðir mjög værir, góðir og sofa á nóttinni svo við erum mjög heppin með það en ekki misskilja mig, þessir fyrstu þrír mánuðir sem við vorum bæði í fæðingarorlofi voru langt frá því að vera bara Netflix og afslöppun. Þetta er hörkuvinna en rosalega skemmtilegt. Það skiptir bara gríðarlega miklu máli í öllu þessu ferli að vera vinir og ræða málin, við erum líka einstaklega heppin með fólkið í kringum okkur. Það eru allir boðnir og búnir að hjálpa og þá sérstaklega foreldrar okkar beggja en án þeirra væri þetta svo miklu erfiðara. Ég var með rosalega mikið samviskubit fyrstu dagana gagnvart eldri dóttur okkar en það var svo mikill óþarfi þar sem hún gjörsamlega blómstraði í þessu nýja hlutverki og fannst þetta allt svo spennandi. Ég held að það hafi hjálpað mikið að við leyfðum henni að taka þátt í öllu frá byrjun. Hún fékk að halda á þeim, hjálpa okkur að skipta á þeim og fleira svo hún upplifði sig aldrei út undan.“

Ísabella hefur tekið virkan þátt í umönnun bræðra sinna sem …
Ísabella hefur tekið virkan þátt í umönnun bræðra sinna sem Ásthildur segir að hafi gert henni gott.

Bræðurnir eru mjög ólíkir þrátt fyrir að hafa leikið sér og þroskast saman í tæpar 38 vikur í móðurkviði og tæplega sjö mánuði heima hjá mömmu, pabba og stóru systur. 

„Það er yndislegt að fylgjast með þeim vaxa og dafna og við höfum bæði staðið okkur að því að þegar þeir sofa þá skoðum við myndir og myndbönd af þeim. Þeir virka ótrúlega góðir vinir, spjalla mikið saman, rífa í hvor annan og kvarta hvor í öðrum. Strákarnir eru rosalega ólíkir, bæði í útliti og skapgerð. Annar er mjög þolinmóður og yfirvegaður á meðan hinn er mjög óþolinmóður og hávær, þeir eru samt mjög geðgóðir báðir og lífsglaðir. Þeir virka samrýndir og frekar samferða í öllu, nú er aðalsportið að rúlla sér út um alla íbúð og því friðurinn nánast úti þar sem þeir eru byrjaðir að tæta í neðstu hillurnar og styttist í að stóra systir fái ekki að hafa herbergið sitt í friði en það er alltaf eitthvað nýtt á hverjum degi,“ segir Ásthildur. 

Ásthildur er í tvíbura- og þríburamömmuhóp. Hér má sjá allan …
Ásthildur er í tvíbura- og þríburamömmuhóp. Hér má sjá allan barnahópinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert