Alveg eins og pabbi í Sopranos

James og Michael Gandolfini. Þeir leika sama hlutverkið.
James og Michael Gandolfini. Þeir leika sama hlutverkið. Samsett mynd

Leikarinn Michael Gandolfini, sonur Sopranos-leikarans James heitins Gandolfini, leikur ungan Tony Soprano í kvikmyndinni The Many Saints of Newark. Í myndinni er forsaga þáttanna sögð. 

Hinn 22 ára gamli Gandolfini þykir minna töluvert á föður sinn sem lést aðeins 51 árs úr hjartaáfalli í Róm árið 2013. Það var ekki auðvelt fyrir Gandolfini yngri að leika sama hlutverk og faðir hans gerði ódauðlegt. 

„Það var næstum því óraunverulegt að sjá Michael í hjólhýsinu,“ sagði stjúpmamma Michaels og ekkja Gandolfini, Deborah Lin, í viðtali við The Post að því er fram kemur á vef Page Six. „Ég veit að hann þurfti mikið hugrekki til þess að taka að sér þetta hlutverk. Það fylgdu því miklar tilfinningar. En öll fjölskyldan er svo stolt af honum. Faðir hans væri mjög stoltur. 

Þeir sem þekkja til segja að tökurnar á forsögu Sopranos hafi verið eins og sálfræðimeðferð fyrir Michael sem sótti í leiklist til þess að takast á við lát föður síns. Gandolfini eldri var ekki með þann draum að sonur hans yrði frægur leikari. Vinur Gandolfini yngri stakk hins vegar upp á því að hann prófaði leiklist eftir lát föður síns. Um leið og hann prófaði byrjaði hann að takast á við sorgina. Hann hætti að æfa fótbolta og byrjaði í leiklist. 

Þar sem leikarinn ungi var bara barn þegar faðir hans lék í Sopranos horfði hann ekki á þættina. Hann hefur reyndar viðurkennt að hafa ekki horft á þættina fyrr en hann hreppti hlutverkið. 

Hér fyrir neðan má sjá stikluna fyrir myndina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert