Kveið móðurhlutverkinu

Gigi Hadid hélt dagbók á meðgöngunni.
Gigi Hadid hélt dagbók á meðgöngunni. AFP

Ofurfyrirsætan Gigi Hadid eignaðist sitt fyrsta barn í fyrra með kærasta sínum, tónlistarmanninum Zayn Malik. Á meðan Hadid var ólétt hélt hún tvenns konar dagbækur; annars vegar fyrir góðar tilfinningar og hins vegar fyrir slæmar. 

Hadid útskýrði í viðtali við Harper's Bazaar að önnur dagbókin væri fyrir Khai, dóttur sína. Dagbókin með erfiðu tilfinningunum þarf að bíða betri tíma. „Einn daginn gef ég henni kannski slæmu dagbókina, bara til þess að vera hreinskilin við hana.“

Þegar Hadid fann fyrir kvíða og efasemdum um hvort hún væri nógu góð til þess að verða móðir tók hún upp slæmu dagbókina. „Mig langaði ekki að finna fyrir sektarkennd fyrir að skrifa þetta niður. Mér fannst bara gott að aðskilja þetta,“ sagði Hadid.

Fyrirsætan er með skissubækur sem hún vatnslitar í og skrifar stundum í þær það sem kemur til hennar. Hún skrifar einnig aftan á kvittanir og þær enda í dagbókunum. Dagbækurnar eru á víð og dreif um húsið og segist ofurfyrirsætan einfaldlega taka upp þá bók sem næst henni er.

Gigi Hadid er orðin móðir.
Gigi Hadid er orðin móðir. AFP
mbl.is