Kenndi sjálfri sér um hvernig fór

Jamie Otis og Dough Hehner misstu barn árið 2016.
Jamie Otis og Dough Hehner misstu barn árið 2016. Skjáskot/Instagram

Bachelor-stjarnan Jamie Otis minntist sonar síns, Jonathans Edwards, sem hefði orðið fimm ára á dögunum ef hann hefði lifað. Otis missti barnið eftir fjögurra mánaða meðgöngu. Hún þurfti að leggja sig fram við að kenna sjálfri sér ekki um hvernig fór fyrir meðgöngunni.  

„Ég hef misst mörg fóstur en að missa hann var hryllilegt. Ég held að það sé vegna þess að ég fæddi hann náttúrulega og hélt á fullkomlega mótuðum líkama hans í faðmi mínum. Ég horfði á litla barnið mitt, sem var svo brotið og marið,“ skrifaði Otis meðal annars. Henni leið strax eins og hún hefði brugðist honum vegna ákvarðana sem hún tók áður en hann fæddist. 

„Ég hef þurft að leggja mig mikið fram við að kenna mér ekki um vegna fortíðar minnar og segi sjálfri mér að stutt ævi hans hafi ekki verið einhvers konar karma vegna ákvarðana sem ég tók þegar ég var í háskóla og með forræði yfir systkinum mínum.“

Otis greinir því næst frá því að hún hafi tvisvar látið rjúfa þungun þegar hún var ung og ekki tilbúin til þess að eignast barn. Hún var fyrsta stelpan í fjölskyldunni til þess að útskrifast úr menntaskóla og setti stefnuna á háskóla. Á sama tíma var móðir hennar í neyslu, hún bjó með systkinum sínum í hjólhýsi og þurfti að sjá um þau. 

„Ég hef aldrei talað um þetta af því að ég skammast mín fyrir að hafa ekki tekið ábyrgð. Enginn sem hefur farið í þungunarrof er stoltur af því. Þegar ég hélt á syni mínum hvíslaði ég að honum: „Mömmu þykir þetta svo leitt“ aftur og aftur. Ég lofaði honum að ég myndi verja lífi mínu í að heiðra minningu hans og að ég myndi aldrei gleyma honum. Líf hans skiptir máli.“

Otis öðlaðist fyrst frægð í 16. seríu af raun­veru­leikaþátt­un­um The Bachel­or. Hún kynnt­ist þó ekki eig­in­manni sín­um, Dough Hehner, þar held­ur í raun­veru­leikaþátt­un­um Married at First Sig­ht. Hjónin eiga tvö börn á lífi. 

mbl.is