„Ástin er sterk og þá gengur allt vel“

Rakel Pálsdóttir og Ómar Vilhelmsson eiga samtals þrjú börn.
Rakel Pálsdóttir og Ómar Vilhelmsson eiga samtals þrjú börn.

Rakel Pálsdóttir, söngkona og þroskaþjálfi, eignaðist dótturina Elísu Dagmar í fyrra með sambýlismanni sínum Ómari Vilhelmssyni. Fyrir átti Rakel Unni Signýju sem er að verða sex ára og Ómar átti Emblu sem er að verða 13 ára. Það er mikið að gera á stóru heimili og samsetta fjölskyldumynstrið getur verið snúið en á sama tíma gefandi.

Rakel segir góð samskipti milli heimila vera númer eitt, tvö og þrjú. „Við erum öll ólík og komum úr ólíkum áttum. Við viljum að börnin alist upp við góðar aðstæður og það séu samræmdar reglur. Samskipti foreldranna eru númer eitt, tvö og þrjú. Það eru börnin sem eru að fara á milli heimila. Reglur og rútína skipta mjög miklu máli og þá líður öllum mjög vel.“

Rakel hefur áður verið í sporum stjúpmóður en þá var stjúpbarnið hennar yngra en núna. „Þetta eru búnir að vera skrítnir tímar. Stjúpstelpan mín býr hjá okkur, mamma hennar var erlendis, kórónuveirufaraldur og ég í fæðingarorlofi. Áður var ég stjúpmamma stráks sem var tveggja til sjö ára. Ég held að það sé allt öðruvísi en að mynda tengsl við barn sem er þetta gamalt. Við höfum alveg leitað okkur ráða hjá Stjúptengslum og hjá fjölskylduráðgjöfum sem leiðbeina manni. Maður vill standa sig vel í þessu hlutverki. Flestir ráðgjafar segja að það sé mikilvægt að börnin verji ekki bara tíma með blóðforeldri heldur líka með stjúpforeldri til að mynda tengsl. Það getur verið erfitt þegar maður er stór fjölskylda.“

Rakel er söngkona og hér sést hún deila tónlistaráhuganum með …
Rakel er söngkona og hér sést hún deila tónlistaráhuganum með Emblu og Unni.

Þegar Rakel kynntist Ómari var hún ekkert að pæla í því hvaða hann kæmi með inn í sambandið enda var hún líka með barn. „Þetta er ekki bara annar aðilinn með stjúpbarn heldur við bæði með stjúpbörn. Ástin er sterk og þá gengur allt vel. En maður þarf að leggja sig allan fram við þetta verkefni.“

Átti draumafæðingar

Hvernig var að eignast barn í kórónuveirufaraldrinum?

„Þetta var bara allt, allt öðruvísi. Þegar ég eignaðist Unni var allt svo opið og maður fór strax í mömmuhitting og við héldum miklu sambandi mömmurnar. Hittumst mjög oft og mynduðum góð vinasambönd. Maður var alveg peppaður í þetta þegar maður eignaðist litlu en svo varð ekkert úr því. Maður einangraðist mjög mikið, varð félagslega heftur. Ég er mjög félagslega virk og þarf á miklum félagsskap að halda, þetta var mjög erfitt. Svo spilar líka inn í að maður er með stóra fjölskyldu. Það var nóg að gera á heimilinu. Maður er ekki eins laus og með fyrsta barn,“ segir Rakel.

Það voru rúmlega fjögur ár á milli meðgangna og segir Rakel að sér hafi liðið aðeins betur á þeirri fyrri. Það kann að hafa áhrif að í þetta sinn var hún með stórt heimili, heimsfaraldur og verkfall á leikskólum ofan á allt. Hún fann til dæmis fyrir meiri samdráttum á seinni meðgöngunni. 

Elísa Dagmar fæddist í miðjum kórónuveirufaraldri.
Elísa Dagmar fæddist í miðjum kórónuveirufaraldri.

Góð vinkona Rakelar ráðlagði henni að líta á fyrstu fæðinguna eins og ótrúlega erfiða æfingu sem hún fengi bestu verðlaun í heimi fyrir. Fæðingin gekk vel og Rakel fór með sömu hugsun inn í seinni fæðinguna. „Af því að það gekk vel í fyrstu fæðingunni þá var líklegt að það gengi vel í seinni. Það gekk lygilega vel. Þetta var bara draumafæðing. Ég var bara mjög snögg þannig séð og lenti ekki í neinum vandræðum. Ég veit að það eru ekki allar mæður þannig. Það var bara smá glaðloft og þá var ég góð,“ segir Rakel um fæðingarreynslu sína. 

Ýmislegt var einfaldara núna en áður. „Maður var vanari eftir að hafa gengið í gegnum það áður að eiga barn en þetta var tvennt ólíkt. Unnur fæddist með skarð í vör og gat þar af leiðandi ekki verið á brjósti. Það var vitað frá upphafi.“ Rakel segist hafa reynt að passa að vera ekki með of miklar væntingar til brjóstagjafar. „Ég vissi alveg að þetta gæti ekkert gengið og fór í þetta með opnum hug. Hún tók bara brjóstið strax svo brjóstagjöfin gekk mjög vel. Ég var með hana á brjósti til átta mánaða. Það var öðruvísi tenging og gaman að prófa það.“

Systurnar Unnur, Embla og Elísa.
Systurnar Unnur, Embla og Elísa.

Verkefni sem hefur tekið á

Eins og Rakel nefnir hér að ofan fæddist Unnur, eldri dóttirin, með skarð í vör og gómi. Rakel segir fylgja því mikið álag. Fyrstu árin einkenndust af aðgerðum en heilbrigðiskerfið vann ekki alltaf með foreldrunum. Unni hefur þó gengið vel að fóta sig og ekki þurft á aðgerð að halda í nokkur ár. 

„Það kom í ljós í 20 vikna sónar. Við fengum að fara í þrívíddarsónar til að sjá það betur. Það sást greinilega skarð í vör. Alveg opið hægra megin og svo í vörinni vinstra megin. Þá fór strax í gang ferli. Það var mjög vel haldið utan um okkur. Auðvitað var maður hræddur,“ segir Rakel um greininguna. 

Þegar kom í ljós að Unnur væri með skarð í vör og gómi varð ljóst að hún myndi glíma við talörðugleika og þyrfti á aðgerðum að halda. Skarðið er sýnilegt á andliti Unnar sem fór í fyrstu aðgerðina sex mánaða gömul. Mjúka gómnum átti að loka í annarri aðgerð nokkru seinna, helst fyrir 18 mánaða aldur. Þeirri aðgerð seinkaði og þurfti að framkvæma þrisvar.  

„Við lentum þrisvar í því að það opnaðist hjá henni mjúki gómurinn. Þú getur rétt ímyndað hér. Það seinkar ferlinu mjög mikið. Loksins í þriðju mjúkgómsaðgerðinni tókst þetta. Það hefur haldist lokað. Hún þurfti á talþjálfun að halda þegar hún var yngri. Hún hefur ekkert þurft á talþjálfun að halda síðan 2019. Núna bíðum við eftir að tennurnar detti úr henni. Svo þarf hún að fara í svakalegar tannréttingar,“ segir Rakel en eftir nokkur ár tekur við flókin aðgerð á tanngarðinum.

Mæðgurnar Rakel og Unnur hafa gengið í gegnum ýmislegt saman …
Mæðgurnar Rakel og Unnur hafa gengið í gegnum ýmislegt saman en Unnur verður sex ára á árinu.

„Nú erum við búin að vera í góðri aðgerðapásu. Hún er orðin fimm ára og er farin að pæla. Hún er farin að taka eftir því að henni finnst hún öðruvísi. Henni finnst allir aðrir venjulegir en hún skrítin. Þá fyllist maður áhyggjum. Ég er á fullu að undirbúa fræðslu fyrir krakkana sem fara með henni í skóla. Leyfa þeim að vera með henni í ferlinu, fræðast um hennar sögu og að allir séu fallegir á sinn hátt.“

Hugsaðir þú út í þetta þegar þú varðst ólétt aftur?

„Algjörlega. Ég varð mjög kvíðin. Ég spurðist fyrir hjá fagfólki og hvað væru miklar líkur á því að þetta gerðist aftur af því þetta er ekkert í fjölskyldunni minni eða hjá pabba hennar Unnar. Það eru auðvitað til erfiðari verkefni, en þetta er samt verkefni og tekur á. Ég þurfti að taka mér veikindaleyfi oft í kringum aðgerðir, það tók á mann að horfa á barnið sitt svona. Ég var mjög kvíðin fram að 20. viku. Fór svo í sónar og þá kom allt vel út. Ég spurði sérstaklega og það var ekkert skarð. Það var alveg heill gómur,“ segir Rakel.

Það er mikið að gera á stóru heimili. Stundum eru …
Það er mikið að gera á stóru heimili. Stundum eru fimm á heimilinu en stundum eru þau Rakel og Ómar bara með eitt barn í kotinu.

Besta hlutverk í heimi

Hvað er best við að vera mamma?

„Það er yndislegt að gefa ást og fá ást til baka. Að sjá börnin sín þroskast. Allir litlu sigrarnir í þeirra lífi og fagna þeim. Þetta er bara besta hlutverk í heimi.“

Hvernig mamma ertu?

„Ég er ógeðslega stressuð. Áhyggjufull líka. Ég er samt mjög skipulögð. Ég er oft mjög óþolinmóð og vil að hlutirnir gerist svona og hinsegin og gerist strax en veit að það er ekki alltaf hægt. Ég reyni eins og ég get að telja upp í tíu og anda inn og anda út. Það er bara mjög mikilvægt að tjá sig og leyfa sér að finna allar þessar tilfinningar. Þetta er erfitt og krefjandi og líka skemmtilegt og gefandi.“

mbl.is