Elskar að vera stelpupabbi

Usher.
Usher. AFP

Tónlistarmaðurinn Usher elskar nýja hlutverkið sem hann fékk þegar honum og kærustu hans Jenn Goicoechea fæddist stúlka á síðasta ári. Stúlkan litla kom í heiminn í september á síðasta ári og fékk nafnið Sovereign Bo.

„Ég er jafnvel farinn að breyta litunum sem ég klæðist, ég er í bleiku og svölu dóti,“ sagði tónlistarmaðurinn í viðtali við Good Morning America.

Sovereign litla er fyrsta barn þeirra Ushers og Goicoechea en fyrir átti Usher synina Naviyd Ely og Usher V sem eru 12 og 13 ára. 

Parið á nú von á öðru barni sínu saman. „Ég er klárlega að njóta þessarar litlu barnasprengju okkar. Þessi nýja viðbót í fjölskylduna hefur bara verið spennandi,“ sagði Usher. 

mbl.is