Erfiðara að sinna börnunum en að slá heimsmet

Usain Bolt á þrjú börn
Usain Bolt á þrjú börn AFP

Fljótasti maður allra tíma, Jamaíkumaðurinn Usain St. Leo Bolt, segir meira krefjandi að sjá um nýfædda tvíbura og eina fjórtán mánaða dóttur en að slá heimsmet í spretthlaupi. Í síðasta mánuði kom hann aðdáendum sínum á óvart þegar hann tilkynnti að hann og kærasta hans, Kasi Bennett, hefðu eignast tvíburasyni. 

Hinn 34 ára gamli heimsmethafi í bæði 100 metra og 200 metra spretthlaupi gaf tvíburasonunum nöfnin Thunder Bolt og Saint Leo Bolt, fyrir eiga hjónaleysin dótturina Ólympíu Bolt. „Þegar við vissum að Kasi var ólétt að Ólympíu settum við reglu; ef barnið yrði stelpa fengi Kasi að velja nafnið en ef þetta væri strákur fengi ég að ráða,“ sagði Bolt í viðtali við Mirror. Hann segir að það hafi verið erfitt að selja Bennett nafnið Thunder Bolt en tekist að lokum. 

„Heyrðu, það er klárlega meira krefjandi að hugsa um þrjú börn. Þegar þau fara öll að gráta á sama tíma veit ég ekkert hvað ég á að gera og það verður algjör ringulreið. Þetta er krefjandi en algjörlega þess virði,“ sagði Bolt þegar hann var spurður hvort væri meira krefjandi að hugsa um þrjú börn eða slá heimsmet í 100 metra spretthlaupi. 

Bolt tognaði í læri árið 2017. Hann á átta gullverðlaun frá Ólympíuleikum og er eini hlauparinn sem hefur unnið bæði 100 metra og 200 metra hlaupin þrenna leika í röð (2008, 2012, 2016). Hver veit nema börnin hans þrjú verði með á Ólympíuleikunum 2040.

View this post on Instagram

A post shared by Kasi J. Bennett (@kasi.b)

mbl.is