Með ung börn í 20 ár og grunngildin þau sömu

Alma Rut Ásgeirsdóttir og Hafsteinn Freyr Gunnarsson ásamt Axel og …
Alma Rut Ásgeirsdóttir og Hafsteinn Freyr Gunnarsson ásamt Axel og Thelmu sem eru átta og tveggja ára.

Alma Rut Ásgeirsdóttir er 39 ára gömul fjögurra barna móðir. Hún varð móðir aðeins 19 ára gömul og eignaðist sitt yngsta barn fyrir tveimur árum með sambýlismanni sínum, Hafsteini Frey Gunnarssyni. Alma segir gæðastundir með fjölskyldunni ekki þurfa vera flóknar né dýrar en hún veitir fólki innblástur á instagramsíðunni Leikum okkur. 

Alma segist ekki elska neitt jafnmikið og það að vera mamma. „Það er ofboðslega mikilvægt, stórt og fallegt hlutverk,“ segir Alma. Móðurhlutverkið hefur meðal annars gefið henni vináttu, gleði og ást. 

„Móðurhlutverkið hefur kennt mér helling og ég hef upplifað alls konar tilfinningar sem ég hafði ekki upplifað áður. Það að vera mamma hefur þroskað mig á allan hátt. Ég hef lært að það er ofboðslega mikilvægt að njóta, vera þakklátur og gera það besta úr öllu, sama hversu erfitt það er. Ég hef líka lært að hver einasti dagur er dýrmætur og hver einasta stund. Ég hef nefnilega verið glöð mamma en ég hef líka verið hrædd mamma. Ég hef upplifað tímabil sem tóku á og ég geri það enn í dag vegna þess að tvö af börnunum okkar glíma við langvarandi veikindi. Þannig að ég hef í raun farið í gegnum mikinn lærdóm og ég er enn að læra.“

Alma á fjögur börn.
Alma á fjögur börn.

Gaf þeim frelsi

Þegar Alma eignaðist sitt fyrsta barn 19 ára var hún strax ákveðin í því að verða góð mamma. „Ég varð ólétt mjög ung. Ég man þegar ég var ólétt þá tók ég ákvörðun um að vanda mig, hugsa vel um barnið mitt og veita okkur fallegt líf. Ég fór í skóla og menntaði mig, keypti mér litla kjallaraíbúð og bjó til heimili handa okkur,“ segir Alma. 

„Þegar ég var 22 ára varð ég aftur mamma og ég átti eftir að læra mikið bæði um þá, um mig og móðurhlutverkið. En ég gerði mitt besta og strax þarna þegar þeir voru litlir var ég dugleg að gera hluti með þeim. Ég man ég hafði það fyrir óskrifaða reglu að gera eitthvað með þeim í ákveðinn tíma á dag þar sem ég gæfi mig alla bara í þá og ekkert annað og það þurfti ekki að vera eitthvað stórt, stundum lásum við bækur eða sungum lög. Ég gaf þeim tíma og ég gaf þeim athygli. Ég umvafði þá allri þeirri ást sem ég gat,“ segir Alma en nú eru elstu synir hennar 20 og 17 ára.

„Ég var líka á því að ég vildi veita þeim frelsi, að þeir myndu njóta þess að vera börn og fá frið til þess. Ég vildi gefa þeim tækifæri til þess að læra og kanna heiminn. Þeir fengu að vera skítugir, vaða, sulla í vatni og hoppa í pollum. Þeir gerðu drullukökur, voru í leðjuslag og voru iðulega með göt á hnjánum og í grasgrænum buxum. Þeir nutu sín, alltaf.“

Veitir öðrum innblástur

Alma heldur utan um skemmtilegar fjölskyldustundir á instagramsíðunni Leikum okkur og deilir með öðrum. „Leikum okkur er í raun mín leið til þess að veita öðrum innblástur eða hugmyndir að samverustundum og leik. Ég set inn í Leikum okkur það sem við erum að gera og höfum verið að gera, hvort sem það er að föndra, fara eitthvað, búa til rennibraut eða hoppa í pollum, þar geta svo þeir sem vilja fengið hugmyndir eða innblástur.

Leikum okkur er voðalega frjálst, óritskoðað og án glansmyndar. Ég er ekki að auglýsa eða kynna neitt og ef ég set eitthvað inn þá er það ekki frá neinum öðrum komið en mér eða okkur. Ég er ekki að kenna neitt heldur og ég er ekki sérfræðingur í neinu sem viðkemur börnum. En ég er mamma. Allt í kringum Leikum okkur er lífið eins og það er og börn­in mín skít­ug að sulla í drullu eða búa til froðu. Stund­um er allt í al­gjöru drasli í kringum það sem við erum að gera en það er bara allt þess virði. Ef það tek­ur mig tíu mín­út­ur að þrífa upp tveggja tíma gleði, hlát­ur og ham­ingju­söm börn þá geri ég það með glöðu geði.“

Samverustundir þurfa ekki að vera flóknar eða kosta mikið.
Samverustundir þurfa ekki að vera flóknar eða kosta mikið.

Af hverju er mikilvægt að gefa sér tíma með börnunum sínum?

„Það dýrmætasta sem við gefum börnunum okkar er tími og athygli. En það er líka þannig að þessi tími er líka það dýrmætasta sem við gefum okkur sjálfum. Samverustundir foreldra og barna hafa jákvæð áhrif á svo margt, til dæmis á þroska þeirra og virkni. Það að verja tíma með barninu eða börnunum sínum gefur þeim aukið öryggi og þannig sjá þau það líka í verki hversu mikið við elskum þau. Samverustundir geta líka stuðlað að jákvæðari samskiptum og þær geta gefið af sér gleði, ofboðslega mikla gleði,“ segir Alma. 

Margt breyst en annað ekki

Alma hefur verið foreldri í 20 ár. Samfélagið hefur breyst en Alma líka. „Í grunninn er ég í rauninni að gera það sama og áherslur mínar eru þær sömu. Ég hef hins vegar þroskast og lært mikið frá því að ég eignaðist mitt fyrsta barn 19 ára gömul. Ef ég horfi á samfélagið og það sem ég hefði viljað hafa aðgang að, eitthvað sem er núna en var ekki þá, myndi ég segja allar umræðurnar um foreldrahlutverkið til dæmis í gegnum Kviknar. Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn þá átti ég Nokia 5110 og ekki tölvu. Núna er svo auðvelt að nálgast alls konar fyrir foreldra og það er frábært.“

Börn Ölmu fá frelsi til að hoppa í polla, vaða …
Börn Ölmu fá frelsi til að hoppa í polla, vaða og blotna.

Hefur þú þurft að leggja höfuðið í bleyti til þess að eiga gæðastundir með eldri börnunum þínum eftir að þeir urðu eldri?

„Nei aldrei, en það er líka held ég vegna þess að þeirra líf hefur alltaf verið þannig að við gerum alls konar. Ég er uppátækjasöm og mér finnst auðvelt að finna upp á einhverju að gera hvort sem það er að fara eitthvað, gera eitthvað heima, vera í næði eða ekki í næði. Við höfum verið mikið saman allt þeirra líf og þeir eru aldir upp í þessu umhverfi. Fyrir þeim er þetta svo eðlilegt. Þeir taka þátt í öllu þegar við erum saman en þeir eru náttúrlega orðnir stórir og báðir í skóla og vinnu, Viktor sá elsti er í sambandi, og mikið að gera hjá þeim. Ég virði það að þeir eru á þessum aldri og þeir þurfa alveg sitt næði. Það eru alveg sumt sem við gerum sem þeir nenna ekki og það er bara allt í lagi. Við spyrjum þá oft hvort þeir vilji koma að gera hitt og þetta, þeir koma þá annaðhvort með eða segja nei. En ég myndi alltaf vilja hafa þá með í öllu og mér finnst alltaf best þegar við gerum eitthvað öll saman en það er víst hluti af móðurhlutverkinu að sleppa smá taki þarna.“

Það er skemmtilegt að fara í fjöruferð.
Það er skemmtilegt að fara í fjöruferð.

Börnin sækja í samveru

Alma leggur áherslu á að góðar samverustundir þurfi ekki að kosta mikið. „Það þarf ekki endilega að gera eitthvað mikið og það þarf heldur ekki að vera umstang í kringum það. Málið er nefnilega að börnin sækja í okkur og að vera með okkur. Þau ætlast til minna en við höldum og það er svo mikilvægt fyrir okkur foreldra að vita og muna að við þurfum ekki að vera með hátíð til þess að eiga góða samverustund.“

Sem dæmi um samverustundir nefnir Alma rólega göngutúra, lestrarstundir, spila á spil, safna steinum og tala saman uppi í rúmi. „Samverustundir geta líka verið að fara í fjöruna, á strönd, vaða, veiða, leika í skóginum, hoppa í pollum, drullumalla eða búa til froðu. Samverustundir geta verið alls konar og ég held að það sé mikilvægt að búa til samverustundir í kringum eitthvað sem börnin okkar hafa áhuga á eða þá að við getum hjálpað til við að auka áhuga þeirra á því, með því að búa til dæmis til leik í kringum það, eins og „eigum við að fara í fjöruna og leita að fjársjóði“. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt fyrir foreldra að skapa samverustundir í kringum eitthvað sem þeir sjálfir hafa áhuga á. Það skiptir nefnilega svo miklu máli að allir fái að njóta og hafa gaman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert