Dóttirin heitir óheppilegu nafni í heimsfaraldrinum

Leikkonan Kristen Bell á tvær dætur, Delta og Lincoln.
Leikkonan Kristen Bell á tvær dætur, Delta og Lincoln. AFP

Leikkonan Kristen Bell segir nafn yngri dóttur sinnar heldur óheppilegt á þessum tímapunkti í heimsfaraldrinum en að nafn bjórsins Corona sé þó mun óheppilegra. Yngri dóttir Bell og leikarans Dax Shepherds ber nafnið Delta, líkt og afbrigðið af kórónuveirunni sem stór hluti heimsbyggðarinnar er að kljást við um þessar mundir. 

Bell ræddi um nafn dóttur sinnar í hlaðvarpsþáttum sínum og Monicu Padman, We Are Supported By ... Þar spurði Padman hana heiðarlegrar spurningar um nafnið. 

„Þetta er frekar óheppilegt. En ég vona svo innilega að Delta-afbrigðið verði ekki jafn sterkt og upprunalega Covid og fólk muni halda áfram að segja „corona“. Það er reyndar frekar óheppilegt fyrir Corona, bjórinn,“ sagði Bell. 

Bell, sem á einnig dótturina Lincoln, segir að Delta sé sem betur fer það ung að hún taki ekki mikið eftir þessu. Delta er sex ára en Lincoln átta. 

„Hún er sex ára svo hún verður svakalega upp með sér þegar hún sér eitthvað frá Delta Airlines. Hún segir bara: „Guð minn góður, nafnið mitt.“ Þannig að í hvert skipti sem hún heyrir Delta-afbrigðið nefnt verður hún glöð.“

mbl.is