Lifa einföldu fjölskyldulífi þrátt fyrir frægð

Söngkonan Shakira og Gerard Piqué.
Söngkonan Shakira og Gerard Piqué. AFP

Kólumbíska tónlistarkonan Shakira segist ekki þröngva lögunum sínum upp á syni sína tvo sem hún á með spænska knattspyrnumanninum Gerard Piqué. Þrátt fyrir heimsfrægð foreldranna reynir móðirin að ala þá upp á einfaldan hátt. 

„Ég held að þeir kunni að meta tónlistina mína. Ég þröngva henni ekki upp á þá. Ég reyni að komast hjá því að spila tónlistina mína heima hjá mér,“ sagði Shakira þegar hún var spurð hvort börnin hennar væru aðdáendur hennar og hvort hún væri svala mamman í viðtali við ET Canada

„Ég reyni að gera líf þeirra eins eðlilegt og ég get. Ég get ekki neitað því að þeir geta ekki flúið þá staðreynd að ég og pabbi þeirra erum opinberar persónur. En við reynum að veita þeim eðlilegt líf og lifum einföldu lífi.“

Shakira.
Shakira. AFP

Shakira og Piqué kynntust árið 2010. Hann tók þátt í gerð tónlistarmyndbands við lagið Waka Waka sem Shakira söng fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu sama ár. Þau eru sögð hafa byrjað saman árið 2011. Í janúar 2013 eignuðust þau sitt fyrsta barn saman, soninn Milan.  Sonurinn Sasha kom síðan í heiminn í janúar 2015. 

mbl.is