Eignuðust barn í leyni

Alicia Vikander og Michael Fassbender eignuðust barn.
Alicia Vikander og Michael Fassbender eignuðust barn. Samsett mynd

Sænska leikkonan Alicia Vikander eignaðist barn með eiginmanni sínum, Hollywood-stjörnunni Michael Fassbender, fyrr á þessu ári. Leikarahjónin héldu komu barnsins leyndri þangað til í vikunni þegar Vikander tjáði sig um móðurhlutverkið í viðtali við tímaritið People. 

Vikander segist vera að njóta nýja lífsins og allra þeirra breytinga sem eiga sér stað á hverjum degi. „Ég hef öðlast nýjan skilning á lífinu,“ segir Vikander sem segir að móðurhlutverkið eigi eftir að hafa áhrif á starf hennar í framtíðinni. 

Leikkonan vill ekki fara of mikið út í smáatriðin þegar kemur að erfingjanum. Hún segist bara njóta þess að taka einn dag í einu og fylgjast með barninu taka út allan þann þroska sem á sér stað fyrstu mánuðina. 

Fassbender sem er 44 ára og Vikander sem er 32 ára giftu sig á Ibiza í október 2017. Leikararnir kynntust árið 2014 þegar þau léku saman í myndinni The Light Between Oceans, en þar léku þau einmitt hjón. 

Alicia Vikander.
Alicia Vikander. AFP
mbl.is