Dóttir Simpson heimtaði að fara í leikskóla

Birdie litla á fyrsta leikskóladeginum með mömmu og pabba.
Birdie litla á fyrsta leikskóladeginum með mömmu og pabba. Skjáskot/Instagram

Yngsta barn leik- og söngkonunnar Jessicu Simpson og Eric Johnson er byrjað í leikkskóla að eigin ósk. Hin 2 ára Birdie var harðákveðin í því að hún ætti að byrja í skóla í haust og á endanum létu foreldrar hennar undan og skráðu hana í leikskóla. 

Í færslu á Instagram segist Simpson hafa átt mjög erfitt með að senda litla barnið sitt í leikskóla. Eldri systkini Birdie, Ace og Maxwell eru 8 og 9 ára og fóru þau aftur í skólann fyrir um tveimur vikum síðan eftir eitt og hálft ár af heimakennslu í heimsfaraldrinum. 

„Hún sagði: „Ég vil skóla núna takk“ og við sögðum: „Þú ert bara 2 ára Bird“ og hún segir: „Ég vil kennarann minn“,“ skrifaði Simpson við myndina af henni á fyrsta leikskóladeginum.

Þrátt fyrir að fjölskyldan hafi reynt að sannfæra Birdie litlu um að hún ætti að bíða aðeins lengur með að byrja í skóla var hún alveg staðráðin. „Þetta var tilfinningaríkur og gleðilegur morgun. Ég held ég sé í smá áfalli eins og er,“ skrifaði Simpson.

mbl.is