„Ætlaði ekki að vera flíspeysumamma í Crocs“

Guðrún Jóna Hreggviðsdóttir varð vegan fyrir fimm árum. Hún hefur …
Guðrún Jóna Hreggviðsdóttir varð vegan fyrir fimm árum. Hún hefur nú stuðlað að því að boðið er upp á vegan fæði í Langholtsskóla.

Guðrún Jóna Hreggviðsdóttir lifir fyrir að vera mamma og að gera hluti með fjölskyldunni sinni. Hún býr í draumahúsinu sínu núna en í mörg ár þurfti fjölskyldan að sætta sig við að búa í agnarsmáu húsi með leka.

Guðrún Jóna og maðurinn hennar Sigurður Hjalti Magnússon bjuggu á tímabili með þremur börnum sínum, stórum hundi og kisu í 58 fermetra húsi með leka. Þau eiga nú fjögur börn fædd á árunum 2001 til ársins 2020 og hafa blessunarlega byggt við litla húsið sitt sem nú er orðið 300 fm glæsiheimili þar sem vel fer um alla og ekkert lekur meðfram veggjum eða gluggum lengur.

„Að búa í litla húsinu okkar var það eina sem var í boði fyrir okkur á sínum tíma eftir hrun og gerðum við okkar besta úr því. Þetta var erfitt en þroskandi fyrir krakkana og okkur öll. Ég myndi samt aldrei leggja í þetta aftur og hugsa að þau öll séu sammála því! Maðurinn minn er húsasmiður og gerðum við húsið upp og byggðum við það að mestu leyti sjálf. Allur okkar frítími hefur farið í framkvæmdir svo krakkarnir eru að ég held nokkuð meðvitaðir um að það þarf að vinna fyrir hlutunum!“

Er fyrst og fremst heimavinnandi húsmóðir

Börnin þeirra fjögur heita Signý Ylfa, Hreggviður Magnús, Starkaður Enok og Styrkár Marel.

„Ég er fyrst og fremst heimavinnandi húsmóðir þar sem ég er enn með yngsta barnið sem nú er 16 mánaða heima.

Sigurður Hjalti er framkvæmdastjóri Granítsteina.

„Að reka fyrirtæki er mikil binding og kemst ég ekki upp með annað en að sjá um hitt og þetta því tengt. Ég sé um samfélagsmiðlana, svara fyrirspurnum og er með í að velja og panta efni svo sem marmara, quartzite og granít.“

Guðrún Jóna og maðurinn hennar Sigurður Hjalti Magnússon eiga fjögur …
Guðrún Jóna og maðurinn hennar Sigurður Hjalti Magnússon eiga fjögur börn sem fædd eru á árunum 2001 til ársins 2020.

Á hvað leggur þú áherslu í uppeldi barna þinna?

„Ég legg áherslu á samveru, sköpun, að vera góð og koma vel fram við fólk, dýr og jörðina okkar. Ég hef alltaf varið miklum tíma með börnunum mínum og var heima með þeim þar til þau komust inn á leikskóla. Þessi tími er svo dýrmætur og kemur aldrei aftur. Þegar eldri krakkarnir voru yngri föndruðum við mikið og prjónuðum. Við höfum sem dæmi alltaf hannað og saumað öskudagsbúningana og gerum enn. Að nota hugmyndaflugið, detta í flæði og að skapa er mikilvægt.“

Kom vegan mat á dagskrá í skólanum

Hvað getur þú sagt mér um vegan matseðil fjölskyldunnar?

„Þar sem maðurinn minn vinnur langa vinnudaga sé ég um að elda. Ég reyni að elda sem oftast frá grunni eða þegar tíminn leyfir.

Karríréttir, matarmiklar súpur, ofnbakað grænmeti ásamt kínóa með ólívuolíu og ristuðum fræjum, grænmetislasagna og mexíkóskar vefjur er eitthvað sem ég elda reglulega. Annars sér maðurinn minn um að halda jafnvæginu í lagi og sér til að við fáum sveittan vegan mat líka og er ansi lunkinn við að panta skyndibita eða henda í subbulega vegan borgara sem drekkt er í allskyns sósum. Við erum búin að vera vegan í rúm fimm ár og í dag er úrvalið svo miklu betra. Eins eru vel flestir veitingastaðir með eitthvað vegan í boði. Ég var vön að elda mjög stóra skammta í kvöldmat til að geta sent krakkana með nesti í skólann þar sem skólinn bauð ekki upp á vegan matseðil fyrr en á þessu ári kom ég því í gegn að veganvæða Langholtsskóla! Þvílíkur sigur! Kokkurinn var jákvæður fyrir því að prófa og fékk mig til að skrifa niður uppskriftir að klassískum heimilismat sem ég var vön að elda heima fyrir og að veganvæða hefðbundna skólamatseðilinn. Þetta gekk glimrandi vel og mér skilst að áskrift í vegan fæði fari vaxandi.“

Vegan matur er gómsætur og góður.
Vegan matur er gómsætur og góður.

Fjölskyldan lærði á hjólabretti saman

Skiptir heilbrigt líf þig miklu máli?

„Já, ég legg áherslu á að borða hollan og góðan mat enda líður mér þá betur.“

Hvað er það skemmtilegasta við að vera mamma?

„Börn kenna manni svo margt. Þau eru svo einlæg og hrein og eru svo miklu nær grunninum sem við fullorðnu fjarlægjumst með aldrinum. Ég hefði sem dæmi ekki orðið vegan ef þau hefðu ekki bent mér á hræsnina í því að kenna þeim að vera góð við dýr en gefa þeim svo dýr að borða.

Svo er líka nauðsynlegt að leyfa sér að vera barn með þeim, leika og gleyma sér. Við hjónin ákváðum sem dæmi að læra á hjólabretti 34 og 35 ára þar sem miðjustrákarnir okkar Hreggviður og Starkaður voru alltaf á hjólabrettum og svo varð þetta bara að fjölskyldusporti. Við tókum brettin með til Tenerife og ferðuðumst á milli staða á Ítalíu og leituðum uppi alla parka sem við fundum!“

Fjölskyldan ákvað að læra á hjólabretti saman.
Fjölskyldan ákvað að læra á hjólabretti saman.

Eru dugleg að ferðast til Ítalíu saman

En það erfiðasta?

„Ég verð að nefna svefnleysi, þar sem ég hef ekki fengið nægan svefn í alltof langan tíma. Ef maður fær ekki nægan svefn þá er svo miklu erfiðara að takast á við allt.“

Skipta ferðalög ykkur miklu máli?

„Já, algjörlega! Þrátt fyrir að ferðir okkar seinustu ár séu að hluta til vinnuferðir til Ítalíu og maðurinn minn aldrei alveg laus við símtöl og tölvupósta náum við þó meiri samveru í öðru landi.“

Hvert fóruð þið síðast og hvernig var?

„Við erum nýkomin frá Ítalíu. Það var yndislegt að komast í annað umhverfi og vera saman með strákunum okkar, dóttir okkar komst ekki með í þetta skiptið enda á fullu í námi og í boltanum. Við vorum að mestu við Gardavatnið, fórum nokkrum sinnum til Veróna og kíktum svo til Flórens í fyrsta skipti en þurfum klárlega að fara aftur þangað til að komast yfir meira af þeirri ágætu borg. Það sem stóð upp úr í ferðinni var án efa bátsferð um Gardavatnið í lok ferðarinnar – þvílík fegurð!“

Guðrún Jjóna ferðaðist til Ítalíu nýverið.
Guðrún Jjóna ferðaðist til Ítalíu nýverið.

Fær útrás í gegnum hreyfingu

Hvernig heldur þú þér í formi?

„Það sem virkar vel fyrir mig er að borða hollt vegan fæði og drekka vel af vatni. Ég borða líka alveg sætt í hófi og sveitta skyndibita. Annars nægir mér að hlaupa á eftir og lyfta þeim yngsta ofvirka! Við erum að vísu með lyftingabekk og þrekþjálfa í kjallaranum sem nýtist sem fatahengi þessa dagana.“

Hvernig sinnir þú þér?

„Eftir að Styrkár Marel fæddist hef ég ekki haft tíma í að sinna sjálfri mér. Hann er virkasta, strærsta og þyngsta barnið okkar og svefninn er ekki upp á marga fiska og líkaminn uppgefinn. En þegar ég mun hafa meiri tíma fyrir sjálfa mig vil ég klárlega byrja að hugleiða aftur og fá útrás í hreyfingu. Annars nærist ég líka á því að fá tíma í að skapa, rækta, gera eitthvað í höndunum, breyta og hanna heimilið og fleira í þeim dúr.“

Hvernig verður veturinn?

„Við ætlum að setja stefnuna á að halda áfram að klára eitthvað sem eftir er í framkvæmdunum á heimilinu, þar á meðal að koma yngsta barninu í sérherbergi svo sumir geti vonandi farið að sofa betur!“

Ætlaði ekki að vera flíspeysumamma í Crocs

Breyttist fatastíllinn þinn eftir að þú varðst mamma?

„Ég varð mamma aðeins 17 ára gömul og var þá harðákveðin í því að verða ekki einhver „flíspeysumamma í Crocs“. Mér persónulega líður betur þegar ég er vel til fara og sýni sjálfri mér þá virðingu að líta vel út. Ef ég ætti að lýsa fatastílnum mínum myndi ég segja: Kvenlegur, afslappaður, þægilegur, töffaralegur. Hlýir jarðlitir eru í uppáhaldi. Ég nýt þess reyndar líka að vera í vinnugallanum heima við og vera skítug frá toppi til táar þar sem við erum búin að vera í byggingaframkvæmdum seinustu árin.“

Hvar kaupir þú þér helst fatnað?

„Ég reyni að vera meðvituð um áhrif textíliðnaðarins á umhverfið og kaupi mér frekar klassísk og vönduð föt sem ég veit að ég mun nota aftur og aftur í stað þess að eltast við „fast fashion“. Ég var svo heppin að amma mín kenndi mér að sauma og gaf mér saumavél svo ég geri frekar við fötin en að losa mig við þau. Á tímabili, þegar ég hafði meiri tíma, var ég duglegri við að breyta fötum og hreinlega sauma ný föt á krakkana úr fötum sem ég var hætt að nota. Eins prjóna ég þegar ég hef tíma. En ég sé oft eitthvað fallegt við mitt hæfi, t.d. frá FilippaK, Samsoesamsoe og Mango.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert