Gunni og Felix djidda

Gunni og Felix senda frá sér nýtt lag.
Gunni og Felix senda frá sér nýtt lag.

Félagarnir Gunni og Felix gefa út lagið Djiddum í dag. Lagið er eftir Mána Svavarsson en textann gerðu texta Gunni og Felix. „Djiddum“ er nýyrði (sagnorð, lýsingarorð og nafnorð) sem stendur fyrir „allt sem er skemmtilegt“. 

„Við erum ákaflega stoltir af Djiddum og þakklátir fyrir samstarfið við Mána Svavarsson, þann eðalsnilling, Birnu Björns og hennar frábæru dansara, Eirík Þór Hafdal og aðra samstarfsmenn sem komu að þessu verkefni,“ segja Gunni og Felix. „Lagið styrkir okkur í því að halda áfram að skemmta fjölskyldum á Íslandi og létta okkur öllum lífið í gráma hversdagsins. Okkur finnst ekkert betra en að fá börn til að brosa, hlæja og dansa með okkur. Hamingjan sjálf er falin í hlátri barns. Við hlökkum til að sjá ykkur öll í vetur og getum ekki beðið eftir að stíga loks á svið með frábærum gestum okkar í Háskólabíói í janúar,“ segja þeir. 

Útgáfudagurinn í dag er engin tilviljun en Gunni og Felix neyddust til að fresta stórtónleikum sínum í tilefni af 25 ára samstarfsafmælinu en þeir áttu að fara fram þann 12. september í Háskólabíói. Útgáfan er því þakklætisvottur til þeirra sem bíða þolinmóð eftir að af tónleikunum verði loks. Ný dagsetning er 30. janúar 2022 og miðasalan er í fullum gangi á tix.is. Meðal gesta á afmælistónleikunum eru leikarar úr Mömmu klikk, Jón Ragnar og Friðrik Dór Jónssynir, Salka Sól og Sigyn Blöndal.

Margir komu að myndbandinu við Djiddum.
Margir komu að myndbandinu við Djiddum.

Höfundur lagsins Máni Svavarsson hefur engu gleymt frá því að hann dældi út smellunum fyrir Latabæ og náði á topp vinsældalista um heiminn auk þess að vinna til stórra alþjóðlegra verðlauna. Hann hefur einstakt lag á að semja sönghæfar og skemmtilegar laglínur sem ná til barna. 

Nýja lagið er mjög í anda þeirra félaga og ætlað að gleðja börn og fjölskyldur þeirra nú þegar samfélagið er smám saman að opnast aftur. Á sama tíma koma eldri lög eftir Gunna, Felix og Mána líka inn á Spotify. Þetta eru lögin „Vaska vaska“, „Bakaraofninn“ og „Öll við erum eitt.“

Felix Bergsson og Gunnar Helgason.
Felix Bergsson og Gunnar Helgason.

Gunni og Felix urðu landsþekktir þegar þeir tóku við Stundinni okkar á RÚV árið 1994 og eftir þá liggja ótal sjónvarpsþættir, myndbönd, leikrit, hljómplötur og hljóðbækur. Þeir hafa jafnframt skemmt fjölskyldum á stórum viðburðum út um allt land og eru eftirsóttir skemmtikraftar, bæði fyrir börn og fullorðna. Nú síðast slógu þeir í gegn í sjónvarpsútgáfu af leiksýningunni Mömmu klikk! Í haust munu þeir hefja tónleikaferð í skóla á vegum verkefnisins List fyrir alla og fyrst heimsækja alla skóla á suðurlandi. 

mbl.is