„Þú ert sérfræðingur í þínum börnum“

María Gómez segir fjölskylduna koma saman í kringum mat. Það …
María Gómez segir fjölskylduna koma saman í kringum mat. Það sé alltaf líf og gleði á heimilinu.

María Gomez, matarbloggari á Paz.is, hvetur foreldra til að hlusta á sitt eigið innsæi. Það sem hentar einu barni þarf ekki að henta þínu barni. Hún er ráðagóð þegar kemur að heimilinu og mat. Hún er gift Ragnari Má Reynissyni og eiga þau samanlagt fjögur börn.

„Elsta barnið er hún Gabríela sem er 22 ára. Svo eigum við Reyni Leo sem er átta ára, Mikael sjö ára og Viktoríu Ölbu sex ára. Ég á einnig eitt nýfætt barnabarn, gullfallega litla stúlku sem ekki hefur fengið nafn ennþá.“

Hvernig lýsir þú fjölskyldunni þinni?

„Við erum mjög spænsk fjölskylda myndi ég segja. Ég á rætur að rekja til Spánar og má segja að ég og börnin mín séum frekar blóðheit. Það er mikið líf og fjör á mínu heimili og allir eru mjög háværir svo ég myndi segja að heimilislífið væri eins og í spænskri eða ítalskri bíómynd þar sem alltaf er eitthvað í gangi og matur leikur stórt hlutverk.“

Gott að vera á tveimur hæðum

Húsnæðið sem fjölskyldan býr í var keypt fyrir ári.

„Það hentar fjölskyldunni mjög vel. Við erum komin á tvær hæðir sem er æðislegt með börn á þessum aldri. Þá er hægt að skipta okkur svolítið upp. Krakkarnir geta verið niðri að horfa á sjónvarp eða að leika sér á meðan við fullorðna fólkið erum að brasa hér uppi á efri hæðinni við að elda eða eitthvað annað. Ég get ekki sagt að litirnir hér inni séu beint fjölskylduvænir en ég er með hvíta sófa og mikið ljóst. Sem er ekki alveg það hentugasta þegar maður er með unga krakka.

Ég ákvað að vera ekkert að splæsa í dýr húsgögn meðan þau eru þetta ung, ég er með mjög mikið úr Ikea en finnst gaman að hafa fallegt í kringum mig þó að það séu börn á heimilinu. Ég passa mig að vera með hluti eins og sófa sem hægt er að taka af og þvo sem dæmi.“

María er mikill ástríðukokkur enda heldur hún úti vinsælum uppskriftarvef.

„Ég var hér áður meira fyrir að elda en baka en að undanförnu hef ég elskað að baka eitthvað gott, þá sér í lagi úr geri.“

María gerir girnilega rétti í eldhúsinu.
María gerir girnilega rétti í eldhúsinu.

Börnin elska hefðbundinn sukkmat

Hver er uppáhaldsmatur barnanna?

„Það er þessi hefðbundni sukkmatur. Pítsa eða hamborgarar, en svo eru bjúgu líka í miklu uppáhaldi eða sperðlar beint úr sveitinni.“

Hvaða uppskrift finnst þér að allir foreldrar ættu að hafa hjá sér?

„Ég luma á uppskrift að svakalega góðum hafraklöttum sem krakkarnir mínir elska og fullorðna fólkið líka.“

Hafraklattarnir sem María býr til eru vinsælir á heimilinu. Bæði …
Hafraklattarnir sem María býr til eru vinsælir á heimilinu. Bæði á meðal barnanna en einnig hjá fullorðna fólkinu.

Hvernig barnafatnað ertu mest fyrir?

„Ég vel vanalega þægilegan en samt smart barnafatnað í mildum, fallegum og hlutlausum litum.

Það er orðið svo mikið til af flottum búðum sem selja fatnað sem er í senn fallegur og þægilegur. Fyrir Ölbu er ég meira að kaupa svona krúttlegt og sætt eins og þægilega bómullarkjóla og buxur undir en fyrir strákana er ég meira að kaupa þægilegan íþróttafatnað sem þeir elska að vera í. Börnin eru öll í Barnaskóla Hjallastefnunnar en þar eru skólabúningar sem er algjör snilld. Það sparar mikið í fatakaup en ég elska að hafa þau fallega klædd um helgar.“

Er eitthvað tengt barnatískunni sem þú ert sérlega hrifin af núna?

„Já, ég er mjög hrifin af fallegum kjólum, til dæmis úr bómull með pífum á ermunum eða úr fallega mynstruðu efni. Einnig finnst mér vera orðið gott úrval af smart íþróttagöllum á stráka en mér hefur oft fundist erfitt að finna eitthvað fallegt á strákana. Enda mun minna lagt upp úr strákfötum og strákadeildir yfirleitt mun minni en stelpudeildir sem mér finnst algjörlega fáránlegt.“

Leggst í heitt bað til að ná slökun

Hvað gerir þú til að rækta þig?

„Ég er ekki nógu dugleg að hlaða batteríin og á það til að keyra mig allt of mikið áfram en þannig er það bara þegar maður er með stórt heimili held ég. Mér finnst samt mjög gott að leggjast í heitt bað til að ná slökun og láta streitu og stress líða úr mér. Annars mætti ég fara að vera duglegri að hlúa að sjálfri mér og hugsa aðeins um heilsuna, það er næst á dagskrá.“

Hvað hefur komið mest á óvart varðandi börn?

„Ég hafði aldrei hugsað of mikið um aldursbil barnanna. Það er mjög strembið að eiga mörg börn með stuttu millibili og erfiðara að njóta hvers barns og gefa hverju og einu barni óskipta athygli. Margir halda að börn verði sjálfkrafa bestu vinir því það sé stutt á milli en það er alls ekki alltaf gefið og getur myndast mikil togstreita milli barnanna, þar sem þau eru oft að keppa um athygli foreldranna og passa upp á sitt. Það getur síðan keyrt út foreldrana en auðvitað er margt líka jákvætt við að eiga börn svona ört. En það er gott að hafa í huga þessi atriði við barneignir.“

Barnalukkan kom henni á óvart

Dreymdi þig alltaf um að eignast börn?

„Nei, ekkert frekar. Ég taldi það kannski meira svona sem sjálfsagðan hluta af lífinu og framtíðinni að eignast barn því flestir eiga börn en það var kannski ekki einhver draumur. Ég var lengi vel ein með fyrsta barnið mitt en við vorum bara tvær í 12 ár þar til ég kynnist Ragnari. Mig óraði ekki fyrir því að ég myndi enda sem fjögurra barna móðir en ég hélt lengi vel að við Gabríela yrðum alltaf bara tvær og hún yrði eina barnið mitt og ég var ekkert ósátt við það svo sem. En að hafa verið svona heppin að eignast síðan 3 börn á nánast einu bretti eða rúmum tveimur og hálfu ári var eitthvað sem mig hefði ekki órað fyrir enda var það meira bara svona eitthvað sem gerðist. Eins og örlögin hafi tekið stjórnina. Mér finnst það hafa verið algjör lukka og mikil dásemd að hafa verið svona heppin að fá að eignast öll þessi börn enda alls ekki sjálfgefið.“

Hvað er það skemmtilegasta við að vera mamma?

„Að elska svona heitt og vera elskuð svona heitt á móti. Þessi skilyrðislausa ást sem maður finnur fyrir og verður ekki lýst með orðum fyrr en maður verður foreldri sjálfur.“

En það erfiðasta?

„Þetta stöðuga samviskubit sem ég finn allt of oft fyrir, að geta ekki skipt mér í fjóra parta og sýnt hverjum og einum alveg óskipta athygli. Síðan finnst mér líka mjög erfitt þegar börnin rífast mikið en mér líður oft eins og ég sé í stöðugri krísustjórnun á köflum.“

Mikilvægt að blanda saman aga og vináttu

Áttu gott uppeldisráð sem þú ert til í að deila?

„Þú ert sérfræðingur í þínum börnum. Hlustaðu á þitt innsæi en ekki fara eftir endalausum ráðum annarra. Það sem hentar einu barni þarf ekki að henta þínu barni. Annars finnst mér mikilvægt að hafa fastan ramma og aga en líka vera vinur barnanna sinna og sýna þeim að þau geta treyst manni og leitað til manns og eigi skjól í foreldrum sínum.“

Hafraklattar

250 grömm brætt smjör

250 grömm eða ein krukka af Mandel Nougat Creme frá Rapunzel

210 grömm Rapadura-sykur frá Rapunzel

230 g hrásykur frá Rapunzel

3 egg

1 teskeið vanilludropar

220 grömm fínt spelt

1 teskeið salt

330 grömm haframjöl (ekki tröllahafrar)

200 grömm eða 2 stykki Noguat Rapunzel-súkkulaði

Aðferð

Kveikið á ofninum á 175°C blástur.

Blandið saman bræddu smjöri, nougat-kremi og sykrinum í skál og hrærið vel saman með sleif.

Bætið næst eggjunum og vanilludropunum út í ásamt salti og hrærið vel saman.

Bætið svo haframjöli og spelti saman við ásamt smátt skornu súkkulaðinu og hrærið öllu vel saman með sleifinni.

Deigið verður blautt og klístrað og þannig á það að vera. Ekki bæta spelti né neinu öðru út í það.

Hellið svo deiginu á smjörpappír á borði og leggið annan smjörpappír yfir og fletjið út í ferning með kökukefli sem er nánast jafn stórt bökunarpappanum.

Takið svo efri smjörpappann af og hendið og dragið hinn með deiginu á yfir á bökunarplötu.

Stingið í heitan ofninn í 15-18 mínútur.

Takið svo úr ofninum og kælið í eins og 20 mínútur áður en þið skerið svo í ferninga á stærð við Polaroid-mynd, megið líka hafa þá minni en þetta er svona bakarísstærð.

Fyrst eftir að þeir koma úr ofninum eru hafraklattarnir mjög linir. Ekki hafa áhyggjur af því, því þeir stífna við að standa og kólna.

Berið fram með kaldri mjólk en þeir eru langbestir þegar þeir hafa alveg fengið að kólna niður og enn betri daginn eftir.

Heimilið er ljóst og líflegt.
Heimilið er ljóst og líflegt.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »