Staðgöngumæðrun ekki auðveld leið

Gabrielle Union og Dwyane Wade ásamt dóttur sinni.
Gabrielle Union og Dwyane Wade ásamt dóttur sinni. AFP

Leikkonan Gabrielle Union gat ekki gengið með barn og eftir fjölda fósturláta ráðlagði læknir henni að finna staðgöngumóður. Á vef Time segir hún meðal annars frá því hversu erfitt það var að fylgjast með staðgöngumóður gera það sem hún gat ekki. 

Union var staðráðin í að gefast ekki upp og langaði að reyna að taka lyfið lupron. Læknirinn hennar sagði henni að það væru 30 prósent líkur á því að hún gæti gengið með barnið fulla meðgöngu. Lyfinu fylgdu hins vegar miklar aukaverkanir. Hún átti á hættu að fara snemma á breytingarskeiðið og að brjóta bein auðveldlega. „Þú hefur gert nóg,“ sagði eiginmaður hennar, körfuboltakappinn fyrrverandi Dwayne Wade. Þessi orð fengu hana til þess að breyta um skoðun en ákvörðuninni fylgdi mikill tregi. 

Union og eiginmaður hennar hittu bæði staðgöngumóðurina og eiginmann hennar en fyrsta jákvæða óléttuprófið kom í mars 2018. Eftir að óléttan var staðfest sveif Union ekki bara um á bleiku skýi. „Stækkandi bumban var birtingarmynd þess hversu misheppnuð ég var. Ég brosti, vildi sýna að ég og við værum svo hamingjusöm og þakklát. En að sumu leyti leið mér eins og ég væri einskis nýt.“

Þegar Union og Wade sáu heilbrigt fóstrið sprikla í kviði staðgöngumóðurinnar fór Union að gráta. „Þetta var sorg. Ég missti svo mörg fóstur,“ segir Union sem fattaði allt í einu hversu mörg möguleg börn hún hefði misst en ekki bara fóstur. Fólkið í kringum hana hélt að hún væri að gráta af gleði en hún var að endurupplifa dauðann. Auðvitað var hún líka þakklát en annað og meira lá að baki þegar hún sá hjartslátt dóttur sinnar, sem fæddist loks eftir 38 tíma fæðingu og bráðakeisara.

Gabrielle Union.
Gabrielle Union. AFP
mbl.is