„Ekkert barn á að vera eitt að glíma við vandamál“

Guðbjörg M. Sveinsdóttir.
Guðbjörg M. Sveinsdóttir.

Guðbjörg M. Sveinsdóttir, formaður Uppbyggingar sjálfsaga, segir félagið kenna nýjar leiðir í samskiptum starfsmanna skóla og nemenda þar sem mið er tekið af uppbyggjandi jákvæðum samskiptum sem efla sjálfsábyrgð einstaklingsins. Hún er nýhætt störfum sem skólastjóri Grunnskóla Grindavíkur. Hún er formaður Uppbyggingar sjálfsaga, félags sem stofnað var árið 2008.

„Félagið er félag áhugafólks um Uppeldi til ábyrgðar – uppbyggingu sjálfsaga og þeirra sem vilja innleiða hugmyndafræði og vinnuaðferðir þess. Í félaginu eru 150 félagsmenn og í dag njóta um 22.000 nemendur á Íslandi leiðsagnar kennara og starfsmanna með þessa stefnu.

Fyrsta námskeiðið með Diane Gossen var haldið í Foldaskóla í Grafarvogi árið 2000 að frumkvæði þeirra Ragnars Gíslasonar, þáverandi skólastjóra, og Magna Hjálmarssonar, námsráðgjafa þess skóla. Þeir leituðu nýrra leiða í samskiptum starfsmanna og nemenda sem tækju mið af uppbyggjandi jákvæðum samskiptum sem efldu sjálfsábyrgð einstaklingsins með áherslu á eigin innri hvatningu í stað ytri umbunar.

Fyrstu árin fór þetta starf hægt af stað hér á landi og árið 2006 voru 10 grunnskólar á Íslandi sem unnu með og eftir hugmyndum Uppbyggingar sjálfsaga. Nú starfa yfir 120 leik- og grunnskólar á Íslandi með um 22.000 þúsund nemendur eftir þessari hugmyndafræði og nýta sér í starfi sínu með og fyrir starfsmenn, nemendur og foreldra. Á vefsíðu félagsins er til fræðsluefni á íslensku til einstaklinga og skóla og námsefni og verkefni að vinna með. Leiðbeinendur í Uppbyggingu sjálfsaga eru nú sjö hérlendis og einnig hefur félagið milligöngu um að fá leiðbeinendur til námskeiðahalds hér á landi og skipuleggur námskeiðsferðir og skólaheimsóknir meðal annars til Kanada.“

Markmiðið að skapa umhyggjusamt og styðjandi samfélag

Þegar talað er um Uppbyggingu sjálfsaga er átt við Restitution – Self Discipline en höfundur hugmyndafræðinnar og vinnuaðferða hennar er Diane Gossen frá Kanada.

Hugmyndafræði Gossen snýst um að kenna einstaklingi að byggja upp innri styrk til sjálfsstjórnar og sjálfsaga með það að markmiði að skapa umhyggjusamt og styðjandi samfélag. Hugmyndir hennar byggjast m.a á sjálfstjórnarkenningum dr. William Glassers og þarfakenningu hans um grunnþarfir mannsins, heilarannsóknum Erics Jensens, auk rannsókna og skrifa Alfie Kohn og vinnuaðferða frumbyggja N-Ameríku um að einstaklingurinn þarf að fá tækifæri til að læra af mistökum sínum (e. Restitution).

Aðferðir uppbyggingar sjálfsaga nýtast jafnt börnum sem fullorðnum í samskiptum. Þess vegna mótar stefnan jákvæðan og umhyggjusaman skólabrag, vinnustaðamenningu og félagamenningu þar sem viðurkennt er að allir geti gert mistök og við fáum aðstoð við að skoða hvernig við getum lært af þeim til að draga úr líkum eða forðast að gera þau aftur og verða þannig betri einstaklingar í samskiptum.“

Af hverju skipta tengsl miklu máli og erum við sem samfélag að víkja frá helstu niðurstöðum rannsókna með því að byggja upp samfélag þar sem börnin eru frá foreldrum sínum svona lengi yfir daginn?

„Tengsl skipta að sjálfsögðu miklu máli. Tengsl hafa mikið að segja fyrir börn og fullorðna varðandi samskipti, hegðun og líðan. Að byggja upp jákvæð tengsl er að mynda traust. Lykilfærni fyrir lífið er öflug félags- og tilfinningafærni einstaklings. Þar skiptir miklu máli sterk sjálfsvitund, sjálfsstjórn, félagsvitund, samskiptafærni og ábyrg ákvarðanataka. Þetta kemur meðal annars fram í niðurstöðum ,,Landskönnunar landlæknisembættisins í október 2019 – Um geðrækt, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í skólum á Íslandi.

Börn verða að finna fyrir trausti og vita hverjum þau geta treyst. Í uppbyggingarstefnunni er talað um fimm grunnþarfir, að hver einstaklingur þurfi gleði, umhyggju, frelsi, að geta haft áhrif og finna til öryggis. Einstaklingur á erfitt með að finna til öryggis ef hann hefur ekki góð, jákvæð tengsl við annað fólk. Hjá börnum eru það fyrst og fremst þeir sem hugsa mest um barnið sem þurfa að skapa þessi tengsl, foreldrar og starfsfólk skóla. Færni og þekking starfsmanna í leik- , grunn- og framhaldsskólum á tengslum, tengslamyndun og uppbyggjandi jákvæðum samskiptum er því mjög mikilvæg fyrir barnið eða ungmennið.

Börn sem dvelja frá unga aldri í leikskóla, 8 til 9 klukkustundir á dag í 11 mánuði á ári og síðan í 10 ár í grunnskóla, taka út og þroska með sér mikilvæga þætti tilfinningatengsla á þessum tíma lífsins. Mjög mikilvæg vinna við myndun félags- og tilfinningafærni og jákvæðra tengsla fer fram í skólastarfinu.“

Við erum öll mannleg og gerum mistök

Við heyrum reglulega af sálfræðingi sem á veikt barn, fíkniráðgjafa sem á barn með fíknivanda og skólastjóra sem á barn sem vill ekki læra. Sem gefur okkur vísbendingu um mennskuna sem er allt um kring og það hvernig við getum tekið ákveðnar stefnur en kannski aldrei orðið fullkomin í því – heldur í eins konar ferli. Svo eru rannsóknarniðurstöður alltaf að breytast. Hver er þín skoðun á þessu?

„Hver einstaklingur er einstök manneskja. Við erum öll mannleg og við gerum mistök. Við verðum að læra að nýta mistökin til að læra af þeim og fá tækifæri til að leiðrétta hegðun okkar og gjörðir. Þannig er uppbygging sjálfsaga nýtt í skólastarfi. Starfsfólk og nemendur læra ákveðnar aðferðir til að vinna með þessa þætti. Nemendur læra markvisst leiðir til að leysa mál sjálf sín á milli, leita sátta og lausna. Mikilvægt er að gefa barni eða einstaklingi sem fer út af sporinu tíma, tíma til að ná sér niður og ná jafnvægi. Þegar einstaklingur er í jafnvægi er fyrst hægt að ræða málin og vinna að því að leiðrétta mistök sín og læra af þeim.“

Ég sé að ykkar félag þorir að benda á hvað hefur skaðleg áhrif á tengsl barna og hvað ekki. Hvernig gamlar uppeldisleiðir eru stundum úreltar og þarf að vinna á móti. Hvaða mál brennur þú mest fyrir persónulega?

„Ekkert barn á að þurfa að vera eitt að glíma við einhver vandamál. Stuðningur, traust, jákvæðni, yfirvegun og umræður skipta miklu máli. Með aðferðum uppbyggingar sjálfsaga læra börn og fullorðnir að leysa mál sem koma upp í samskiptum. Það skiptir miklu máli að hinn fullorðnir gefi sér tíma til að ræða við börn og hlusta á hvað þau hafa að segja og hvað þau vilja. Síðan þarf að leiðbeina og aðstoða barnið til að koma sjálft með lausnir. Gott er jafnvel að finna fleiri en eina lausn á ákveðnum málum. Það er að mínu mati ekki nokkru barni til góðs að upplifa skammir, refsingar, einveru eða niðurlægingu á nokkurn hátt. Allt starf með börnum á að miðast við að börn standi uppi sem sterkari einstaklingar þó eitthvað hafi bjátað á. Þau eiga að fá tækifæri til að koma aftur inn í hópinn sinn sterkari en áður, reynslunni ríkari en alls ekki niðurbeygð og skömmustuleg.“

Sjálfsagi hjálpar okkur að halda okkur yfirveguðum

Til að geta kennt börnum sjálfsaga – þurfum við ekki að hafa hann sjálf? Væri betra að kenna foreldrum barna sjálfsaga og gera þá ráð fyrir því að börn læri af því sem fyrir þeim er haft?

„Það þurfa allir að hafa sjálfsaga til að takast á við málefni sem koma upp hjá börnum og fullorðnum. Sjálfsagi hjálpar okkur að halda okkur yfirveguðum og okkur gengur betur að takast á við vandamálin ef við erum í góðu jafnvægi. Diane Gossen segir: Haltu því sem þú kannt en bættu við nýrri þekkingu og færni til að verða betri manneskja Að sjálfsögðu getur enginn ætlað öðrum að klífa tindinn ef þú ert ekki sjálf eða sjálfur tilbúinn að klífa hann einnig.“

Það er mjög áhugavert þetta með jákvæð samskipti – hvernig skilgreinir félagið það?

„Jákvæð samskipti eru samskipti þar sem aðilar sem tala saman eru yfirvegaðir, ekki reiðir og tala saman um mál sem upp koma og leita lausna. Uppbyggingarstefnan kennir bæði fullorðnum og börnum aðferðir til að ná þessari yfirvegun þannig að samskiptin verði jákvæðari. Það felur jafnframt í sér að traust og gleði vex og samskiptin verða meira gefandi og þannig uppbyggjandi í sjálfu sér fyrir alla aðila.“

Sumir segja lítil börn með einstaka hæfni til að setja mörk og taka mörkum, gefa hvert öðru fallegt bil og eru að mörgu leyti færari í samskiptum, stundum án orða, en við fullorðna fólkið. Hefur þú reynslu af þessu?

„Það er einstaklega gaman og gefandi að vinna með börnum eftir uppbyggingarstefnunni. Börn eru fljót að finna leiðir til lausna og þau finna yfirleitt jákvæðustu og einföldustu leiðina. Ef börnum hafa verið sett mörk eru þau mjög meðvituð um þau. Foreldrar mega alls ekki óttast að setja mörk. Mörkin þurfa að vera skýr og einföld í takt við aldur barns og styðja við þau gildi sem sett hafa verið í samskiptum.“

Nemendur leysa málin sín sjálf

„Sjálfsagt eru til margar skilgreiningar á því hvað nemendalýðræði er. Í mínum huga snýst það um að þeir sem vinna með börnum geri þeim kleift að taka þátt í ákvarðanatöku. Bæði í ákvarðanatöku um samfélagið, skólann og þeirra eigin málefni. Leik- og grunnskólar eru með margs konar verkefni í skólastarfinu sem efla nemendalýðræði svo sem kaffihúsafundi, samverustundir á leikskólum og nemendaráð.“

Hvernig uppeldi dreymir þig um að sjá sem meginstefnu í landinu innan tíu ára?

„Uppeldi barna á að snúast um að gera barnið að sterkari einstaklingi sem getur leyst mál með öðrum á rólegan og yfirvegaðan hátt. Mikilvægt er því að öll samskipti séu á jákvæðum, rólegum nótum. Það gengur ekkert og þjónar engum tilgangi að öskra á börn, skamma þau eða senda þau í skammarkrók. Við slíkar aðstæður brotna börn frekar niður í stað þess að læra að takast á við vandamálið sem upp kom. Vandamálið fer ekkert fyrr en við lærum að takast á við það.“

Hvað varð til að þú fórst að læra og starfa í þessu fagi?

„Uppbyggingarstefnan höfðar mjög vel til þeirra sem vilja vera í jákvæðum og uppbyggjandi samskiptum. Mér hugnast líka vel að skoða forsendur mála, af hverju sýnir barn óæskilega hegðun. Það er alltaf ástæða fyrir allri hegðun og hana þarf að skoða. Ég hef unun af því að tala við börn og því hentar svona samtalsaðferð mér vel. Hún tekur stundum aðeins lengri tíma en reynslan sýnir að hún ber árangur og skilar okkur mun sterkari og jákvæðari einstaklingum í samskiptum. Það er mjög gaman að sjá árangur þessarar vinnu í skólastarfinu og verða vitni að því að nemendur leysa málin sín sjálfir með því að nota þessar aðferðir. Þeir fara þá í sameiningu yfir málið og finna lausn sem hentar báðum einstaklingum eða hópnum öllum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert