„Í gegnum leik geta börn lært svo ótal margt“

Helga Sif bendir á að til eru fjölmargar síður um …
Helga Sif bendir á að til eru fjölmargar síður um skemmtileg leikboð á netinu. Þangað geta foreldrar sótt hugmyndir. mbl.is/Lottie Makes

Helga Sif Pétursdóttir iðjuþjálfi heldur einstaklega áhugaverð leikboð fyrir Klöru dóttur sína. Hún segir börn læra mikið í gegnum leik og hefur gaman af því að gera eitthvað skapandi fyrir og með dóttur sinni. 

Helga Sif er búsett á Akureyri ásamt sambýlismanni sínum Birki Erni Jónssyni. Saman eiga þau Klöru sem brátt verður stóra systir því Helga Sif á von á barni í lok ársins eða í byrjun þess nýja.

Í mars á þessu ári stofnaði Helga instagramreikninginn Made for Klara. Þar sýnir hún frá leikboðum, hlutum fyrir Klöru sem hún hefur smíðað eða málað sjálf og frá daglega lífinu.

„Frá því að ég útskrifaðist úr iðjuþjálfunarfræðum við Háskólann á Akureyri árið 2016 hef ég unnið með fötluðu fólki. Í náminu kynntist ég starfsendurhæfingu og hef brennandi áhuga á að starfa á því sviði. Ég ákvað því að taka viðbótardiplómu í starfsendurhæfingu samhliða fæðingarorlofinu með Klöru. Eftir orlofið skipti ég um starf og fór úr því að vinna í þjónustukjarna yfir í virkni og hæfingu fullorðinna með fatlanir. Það starf var tímabundið í rúmt ár en samningurinn minn kláraðist í júlí. Það hentaði vel því um miðjan júlí fór dagmamman sem Klara var hjá í sumarfrí og leikskólinn ekki opnaður fyrr en í byrjun september. Við erum því búnar að fá góðan tíma saman í sumar til að njóta og leika. Á sama tíma og Klara byrjar í leikskóla byrja ég í meistaranámi á heilbrigðisvísindasviði við Háskólann á Akureyri með starfsendurhæfingu sem kjörsvið.“

Börnin læra margt í gegnum leik.
Börnin læra margt í gegnum leik.

Hugmyndin að baki leikboðum svo skemmtileg

Hvað getur þú sagt mér um móðurhlutverkið?

„Að vera móðir er það yndislegasta og mest krefjandi sem ég hef gert. Ég hef lært svo mikið um sjálfa mig og það sem mér er mikilvægt í gegnum móðurhlutverkið. Um leið og barnið er komið í heiminn verður maður foreldri og í því hlutverki felast margir hlutir og mikil ábyrgð. Það er erfitt að koma í orð þeirri ást og tengingu sem verður til á milli barns og foreldris. Að þrá ekkert heitar en að fá smá pásu en svo um leið og barnið er sofnað sakna þess að hafa það ekki í faðmi. Þetta er svo skrítinn veruleiki sem maður er kominn í, en ég held að það sé ekki hægt að skilja hann að fullu fyrr en maður er sjálfur orðinn foreldri.“

Hvað geturðu sagt mér um leikboðin þín fyrir Klöru?

„Ég hef alltaf haft gaman af alls kyns handavinnu og föndri. Eftir að ég varð mamma færðist áhuginn yfir í að skapa og búa til eitthvað fyrir Klöru. Mér finnst hugmyndin á bak við leikboð (e. invitation to play) svo skemmtileg. Í gegnum leik geta börn lært svo ótalmargt. Með því að snerta, skoða, færa á milli og sulla má meðal annars efla og þjálfa grófhreyfingar, fínhreyfingar, samhæfingu augna og handa, rökhugsun og þol gagnvart skynboðum. Leikboð geta verið alls konar en í grunninn snýst þetta um að bjóða barni í leik. Það eitt að taka leikföng og stilla þeim upp á nýjum stað eða á nýjan hátt getur verið nóg til að vekja áhuga barnsins.“

Klara dóttir Helgu er búin að hafa mikinn áhuga að …
Klara dóttir Helgu er búin að hafa mikinn áhuga að undanförnu að leika sér með vatn.

Þegar Helga Sig. setur upp leikboð, sérstaklega þau sem tekur smá tíma að setja saman, reynir hún að velja hluti sem Klara hefur sýnt sérstakan áhuga dagana á undan.

„Maður getur haldið falleg og tímafrek leikboð en ef þau eru ekki innan áhugasviðs barnsins er ólíklegt að barnið sýni því mikinn áhuga.“

Mikilvægt að skoða hvað barnið er að velja sér hverju sinni

Hvernig lýsir þú Klöru leika sér í leikboði?

„Það hafa ekki öll leikboð sem ég hef gert fyrir Klöru slegið í gegn. Yfirleitt er það þá vegna þess að ég sá eitthvað sniðugt og langar til þess að prufa að búa það til óháð áhugasviði hennar á þeim tíma. Börn fara í gegnum ákveðin skemu sem hafa áhrif á hvað vekur áhuga þeirra hverju sinni. Orðið skema er notað yfir ólík hegðunarmynstur sem sjá má endurtekið í leik barna. Ég hef því reynt að fylgjast með hvaða skema er ráðandi þegar ég held leikboð svo Klara fái sem mest út úr því. Síðustu vikur hefur flest sem viðkemur vatni vakið mikla gleði. Við fyrir norðan höfum átt óvenju gott sumar og hefur því verið auðvelt að útbúa leikboð í garðinum þar sem Klara hefur getað sullað með vatn að vild. Eftir því sem börn verða eldri hafa þau meira úthald og athygli í leik en það er í raun frekar stuttur tími sem ung börn halda einbeitingu í sama leiknum. Þegar ég var að byrja að gera leikboð fyrir Klöru kom það mér pínu á óvart hvað hún gat farið hratt úr því að vera mjög spennt fyrir því sem hún var að leika með í að hafa engan áhuga á því.“

Varstu dugleg að leika þér sem barn sjálf?

„Ég ólst upp á Dalvík en það er ákveðið frelsi sem felst í því að alast upp í smábæ. Ég var meira og minna úti sem barn í alls konar leikjum með þeim krökkum sem bjuggu í nágrenninu. Annars hef ég alltaf verið dundari og átti auðvelt með að detta í flæði í leik. Bangsar voru í sérstöku uppáhaldi sem og að lita, mála og skapa.“

Börnin eru hrifin af fallegum formum og björtum litum.
Börnin eru hrifin af fallegum formum og björtum litum.

Samfélagið í kringum leikboð að stækka á Íslandi

Farið þið út að finna sand, skeljar og fleira fyrir leikboðin?

„Flesta hluti sem ég hef notað til að útbúa eða föndra fyrir leikboð hef ég átt eða okkur verið gefnir þeir. Ég er hlynnt því að endurnýta en það er margt sem hægt er að útbúa fyrir leikboð með hlutum sem falla til innan heimilisins. Einnig eru ótal hlutir sem hægt er að finna í náttúrunni sem getur verið gaman að bjóða upp á í leik. Við Klara höfum sem dæmi safnað saman blómum, laufum og berjum sem við fundum úti og sett í form og fryst. Nokkrum dögum seinna gerði ég leikboð úti þar sem hún fékk ílát, volgt vatn, saltstauk og áhöld til að bræða klakana. Við höfum líka gert þetta með lítil sjávardýr sem hún á en þá fékk hún klakana með sér í sturtu.“

Skynjunarleikir geta verið af ýmsum toga þar sem notaður er …
Skynjunarleikir geta verið af ýmsum toga þar sem notaður er efniviður sem örvar eitt eða fleiri skynfæri eða skynsvið.

Velur leikföng úr náttúrulegum efnivið

Hvaðan færðu hugmyndirnar þínar?

„Að mestu leyti hef ég fengið minn innblástur frá samskiptamiðlum, þá aðallega Instagram og Facebook. Það er til svo mikið af flottu og hugmyndaríku fólki í heiminum. Með samskiptamiðlum er auðvelt og aðgengilegt að sjá hvað aðrir eru að gera sem svo kveikir á hugmyndum hjá mér. Einnig hefur hugmyndafræði Montessoris og skipuleg kennsla orðið kveikja að leikboðum eða verkefnum hjá mér. Ég er almennt hrifin af því að efla lífsleikni (e. practical life skills) barna svo ég reyni að tvinna það saman við það sem ég er að gera fyrir Klöru.“

Af hverju velur þú leikföng úr náttúrulegum efnivið?

„Ég hef reynt eftir fremsta megni að velja leikföng fyrir Klöru sem gerð eru úr náttúrulegum efnivið. Það eru nokkrar ástæður að baki þeirri ákvörðun. Sjálf hef ég alltaf verið hrifin af hlutum sem gerðir eru úr náttúrulegum efnivið en þeir hafa önnur áhrif á skynfæri okkar en hlutir gerðir úr gerviefnum. Miðað við það magn af leikföngum úr náttúrulegum efnivið sem eru á markaði í dag er ég ekki ein um að kjósa þau fyrir barnið mitt. Þrátt fyrir að þau séu yfirleitt dýrari en önnur leikföng hafa þau marga kosti sem ég tel vega upp á móti. Leikföng úr tré eru sem dæmi sérlega endingargóð og því hægt að selja eða gefa áfram. Einnig gefa þau börnum bein

tengsl við náttúruna og eru í raunþyngd miðað við stærð leikfangsins. Þau eru almennt örugg og hafa jákvæð áhrif á ímyndunarafl barna. Svo eru þau auðvitað endurvinnanleg og niðurbrjótanleg.“

Helga Sif hefur verið að búa til allskonar skúlptúra sem …
Helga Sif hefur verið að búa til allskonar skúlptúra sem hún frystir. Það getur verið gaman að horfa á þá umbreytast.

Skynjunarleikir geta verið af ýmsum toga

Hvað eru skynjunarleikir?

„Skynjunarleikir (e. sensory play) geta verið af ýmsum toga þar sem notaður er efniviður sem örvar eitt eða fleiri skynfæri eða skynsvið. Við skynjum umhverfi okkar í gegnum sjón, heyrn, snertiskyn, lyktarskyn, bragðskyn, jafnvægisskyn og hreyfi- og stöðuskyn. Á hverjum degi fer fram ákveðinn skynjunarleikur hjá börnum án þess að einhver sérstök hugsun fari í það sem er eðlilegur hluti af þroska þeirra. Einnig er hægt að setja upp skynjunarleiki þar sem markvisst er unnið að því að örva ákveðið skyn. Með því að setja nokkra ólíka hluti í taupoka og biðja barn að finna ákveðinn hlut má sem dæmi efla snertiskynið. Þegar þú leyfir barni að hella vatni á milli tveggja íláta notar það sjón, heyrn, snertiskyn, jafnvægiskyn og hreyfi- og stöðuskyn. Skynjunarleikir eru í sjálfu sér ekki flóknir en í gegnum þá geta börn eflt færni sína á ýmsum sviðum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert